Yfirstjórn menningarstofnana

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 16:29:13 (985)


[16:28]
     Flm. (Svavar Gestsson) :

    Virðulegi forseti. Á þskj. 8 flyt ég frv. til laga um yfirstjórn menningarstofnana. Frv. snertir þrenn lög, þ.e. lög um Landsbókasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands og Þjóðminjasafnið. Þar er gert ráð fyrir breytingum að því er varðar æðstu yfirstjórn þessara þriggja stofnana.
    Í fyrsta lagi er fjallað um Landsbókasafnið, í 1. gr. frv., en þar segir:
    ,,Landsbókavörður ræður bókaverði og aðra starfsmenn safnsins eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.
    Fari landsbókavörður í leyfi skal staðgengill gegna störfum fyrir hann . . .  
    Landsbókavörður er ráðinn til fjögurra ára í senn. Heimilt er að ráða landsbókavörð í átta ár samfellt hið lengsta.``
    Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að þegar landsbókavörður hættir eða fellur frá, þá verði auglýst staða landsbókavarðar tafarlaust og þá verði skipuð dómnefnd. Í henni eigi sæti fulltrúar frá Háskóla Íslands, frá Bókavarðafélagi Íslands og frá menntmrh. og að menntmrh. eigi síðan í samræmi við niðurstöðu þessarar nefndar að skipa landsbókavörð. Hliðstæð eru ákvæði að því er varðar þjóðskjalasafnið þar sem gert er ráð fyrir því að þjóðskjalavörður ráði aðra fasta starfsmenn Þjóðskjalasafns, að hann ákveði hver verði staðgengill hans, að þjóðskjalavörður verði mest ráðinn til fjögurra eða átta ára í senn og að skipuð verði dómnefnd. Í henni verði fulltrúar frá menntmrh., Háskóla Íslands, Þjóðskjalasafni og að lokinni umfjöllun dómnefndar verði þjóðskjalavörður skipaður í samræmi við álit hennar.
    Í III. kafla frv. er svo fjallað um breyting á þjóðminjalögum. Þar er í raun og veru fyrst og fremst sú breyting að þar verði skipuð dómnefnd. Í henni verði fulltrúar frá þjóðminjaráði, menntmrn. og Háskóla Íslands og síðan er þarna ákvæði um að þjóðminjaráð ráði safnstjóra Þjóðminjasafns sem er breyting frá því sem er í gildandi lögum.
    Þetta frv. er flutt m.a. vegna þeirra atburða sem hafa átt sér stað að undanförnu varðandi yfirstjórn menningarstofnana og hafa verið ræddir hér ítarlega, bæði að því er varðar Þjóðminjasafnið og að því er varðar Ríkisútvarpið. Út af fyrir sig fóru einnig fram allmiklar umræður um þessi mál í framhaldi af veitingu lektorsembættis við Háskóla Íslands árið 1987 eða 1988. Í framhaldi af þeirri ákvörðun ákvað síðasta ríkisstjórn að breyta lögunum um Háskóla Íslands þannig að til þess að ráða menn við Háskóla Íslands í stöður prófessora, lektora og dósenta, þá þyrfti tiltekið ferli að eiga sér stað og ráðherra væri að nokkru leyti bundinn af því ferli. Með öðrum orðum var háskólanum falið fullt faglegt sjálfstæði í þessum efnum. Út af fyrir sig getur menn deilt á um það hvort það sé rétt að fela slíkri stofnun algert sjálfstæði eins og er um að ræða. Ég tel að svo sé þannig að hún beri bæði ábyrgð á hinu jákvæða og hinu neikvæða í fari sínu og það sé í bestu samræmi við eðli háskólastofnunar, akademíu. Menn geta hins vegar deilt um það hvort hið sama á að gilda um aðrar menningarstofnanir og ég játa það að þegar frv. var samið um breytingu á lögum um Háskóla Íslands á sínum tíma, þá hvarflaði það ekki að mér að fara að flytja hliðstæð frumvörp um aðrar menningarstofnanir vegna þess að ég hafði satt best að segja ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug að menn mundu fara eins með veitinga- og ráðningarvaldið gagnvart þessum stofnunum og síðar kom á daginn að því er varðar bæði Þjóðminjasafnið og Ríkisútvarpið.
    Nú kom það hins vegar á daginn, ég tel að þar hafi verið illa farið með það vald og þann mikla trúnað sem hverjum ráðherra er falinn og af þeim ástæðum er þetta frv. flutt.
    Í greinargerð frv. er bent á þann möguleika að auðvitað hefði verið hugsanlegt að flytja hliðstæð frumvarpsákvæði um Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið. Ástæðan fyrir því að það er ekki gert er sú að að því er Þjóðleikhúsið varðar þá er þjóðleikhússtjóri eins og nú er samkvæmt lögum ráðinn til fjögurra ára í senn og síðan hugsanlega endurráðinn, en auðvitað mætti hugsa sér að það kæmi við sögu einhver dómnefnd við ráðningu þjóðleikhússtjóra. Ég bendi þó á að við ráðningu þjóðleikhússtjóra síðast varð um það mjög víðtæk samstaða meðal starfsmanna hússins og allra annarra sem komu að starfsemi Þjóðleikhússins sem ég tel kannski það mikilvægasta.
    Að því er Ríkisútvarpið varðar, þá er ég þeirrar skoðunar og hef verið það reyndar mjög lengi að það sé óeðlilegt að ráðherra sé að skipa framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins. Nóg sé að hann skipi útvarpsstjóra og þá eigi það að vera til takmarkaðs tíma í senn. Hins vegar er það svo að sérstök nefnd er að störfum sem fjallar um breytingu á útvarpslögum, útvarpsfrumvarpsnefnd eins og ég kýs að kalla hana, og er undir forustu hv. þm. Tómasar Inga Olrich. Ég taldi þess vegna með hliðsjón af því að ekki væri ástæða til að taka útvarpslagaákvæðin inn í þetta sérstaka frv.
    Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þetta frv. fáist hér til umræðu og hv. menntmn. fjalli rækilega um það og fái umsagnir sem flestra aðila um málið. Ég er ekki að segja, hæstv. forseti, að hér hafi menn dottið niður á einu hugsanlegu lausnina á þeim vandamálum sem hér er verið að fjalla um. Vel kann að vera að það geti verið fleiri möguleikar uppi í þeim efnum. Aðalatriðið er að Alþingi fáist til að ræða málið að mínu mati og þess vegna er frv. flutt. Og væntanlega tekst einnig að komast að niðurstöðu sem, mér liggur við að segja, ver þessar stofnanir sem hér er um að ræða fyrir gerræðislegu veitinga- og ráðningarvaldi ráðherra ef hann kýs að fara svo illa með það að það orð eigi við.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.