Útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiða

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 17:19:57 (994)


[17:19]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þáltill. og tel að hún eigi fullt erindi hingað inn á þingið. Það er svo að það hafa nú um alllangt skeið verið óviðunandi aðstæður til þess að nema sendingar útvarps og sjónvarps til fiskimiðanna á sama tíma og Íslendingar eru að sækja æ lengra eftir fiski og það er full ástæða til þess að láta gera könnun á þeim kostum sem í boði eru til þess að bæta útsendingarnar og greiða úr þessum vanda sem snertir talsverðan hluta af flota Íslendinga og starfsskilyrði þeirra manna sem á skipunum vinna. Síðan langbylgjumastrið var úr leik, sem mig minnir að hafi verið í nóvembermánuði 1991, þá hafa verið sett upp gömul möstur sem munu vera 75 metra möstur ef ég vitna rétt í þessar tölur, en gamla langbylgjumastrið var um 150 metrar. Langbylgjustöðin er rekin á þessum bráðabirgðamöstrum ef svo mætti að orði komast og mér skilst að það sé hægt að reka þessa stöð í 2--3 ár til viðbótar en ekki lengur af tæknilegum ástæðum, þetta er orðinn úreltur búnaður. Langdrægnin hefur minnkað verulega við þetta og það kom réttilega fram í framsögu með þáltill. að það er ekki síst á Vestfjörðum sem móttökuskilyrði langbylgjusendinga eru léleg.
    Það er eflaust svo að það koma allmargir möguleikar til greina til að bæta úr þessu ástandi. Þess ber að geta, að það er mjög hátt mastur á lóranstöðinni á Gufuskálum. Þá stöð er ætlað að leggja niður skilst mér bráðlega, ætli það sé ekki innan tveggja ára sem er reiknað með að hún verði lögð niður, en hugsanlegt er að þaðan mætti senda út frá mastri sem er allt að 400 metra á hæð ef ég man rétt, það er gífurlega hátt mastur sem þar er. Ég hygg að um það mál hafi verið bréfað frá menntmrn.
    Að því er varðar sjónvarpsmálið þá hefur ekki orðið breyting til batnaðar á síðustu 5 árum og það er raunar fyrirsjáanlegur mjög mikill kostnaður við að bæta aðstöðu til útsendingar sjónvarps. Þar er bæði um að ræða að koma upp dýrum mannvirkjum, sendum, og þeir þurfa raunar að standa hátt yfir sjó til að koma að gagni. Það er þarna um að ræða dýran sendiútbúnað og einnig dýr mannvirki. Það er eflaust hugsanlegt að reyna að bæta úr þessu með samstarfi við varnarliðið, bæri að skoða þann kost mjög gaumgæfilega hvort ekki væri hægt að nýta radarstöðvar sem komið hefur verið upp nýlega, bæði á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli, til þess að koma þaðan útsendingum. Það þýðir að það þyrfti að reisa sendistöðvar og væntanlega möstur líka til að koma útsendingum út. En öll aðstaða til þess að sinna viðhaldi á slíkum sendistöðvum mundi að sjálfsögðu verða betri við slíkar aðstæður.
    Að því er varðar gervitunglasendingar, stafrænt útvarp, bæði hljóðvarp og sjónvarp, þá er mikið að gerast í þeim málum nú sem stendur og erfitt í raun og veru að höndla þá þróun. Það er erfitt að gera sér fyllilega grein fyrir hvenær möguleikarnir opnast og hversu dýrir þeir verða. En þar má reikna með að næstu 7 árin muni leiða í ljós hversu miklir möguleikar opnast og á hvaða verði þeir verða boðnir. Ég hygg þó að eins og stendur sé ekki hægt að segja annað en að gervitunglaútsendingar, raunar stafrænt hljóðvarp og sjónvarp hvort sem er um jarðstöðvar eða gervitunglasendingar, þá sé enn nokkuð í að það verði með þeim hætti að það geti leyst þennan vanda. Þó er sú tækni sem er verið að þróa í sambandi við stafrænu kerfin sérstaklega áhugaverð að því er ég hygg í sambandi við flotann. Ég held að það sé full ástæða til þess að gera ítarlega könnun á þessum kostum. Að sjálfsögðu hefur sú nefnd sem nú er að störfum, útvarpslaganefnd, reynt að skyggnast inn í þessi mál, en hefur rekið sig á það að það kostar talsvert mikla yfirlegu að skyggnast til botns í þessum málum. Því er þessi till. til þál. komin fram á réttum tíma af gefinni og gildri ástæðu og ég styð hana heils hugar.