Endurmat iðn- og verkmenntunar

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 17:40:34 (997)

[17:40]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. flm. þessarar tillögu þann áhuga sem þeir sýna þessum þætti menntunarinnar. Ég vil aðeins nefna það í upphafi að þó tillögur þessa efnis hafi ekki verið samþykktar hér í þinginu þá þýðir það ekki að ekkert hafi verið unnið í viðkomandi málaflokki. Hér er lögð fram tillaga til þál. um endurmat iðn- og verkmenntunar. Höfuðröksemd flm. fyrir gagngeru endurmati á iðnnámi er sú staðreynd að iðnaður og iðnmenntun þurfa nú nauðsynlega að laga sig að auknum kröfum sem gerðar eru til iðnaðarmanna og sem í nánustu framtíð munu eflaust fara vaxandi. Ég er sammála þeirri skoðun flm. tillögunnar að þörf sé á algerri uppstokkun í skipulagi og framkvæmd iðn- og verknáms í landinu.
    Gagnrýni talsmanna iðngreina á þessa þætti og þar með á grundvöll iðnmenntunar hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Á sama tíma hafa æ fleiri samtök iðnaðarmanna tekið menntunarmál iðngreina í sínar hendur, m.a. með stofnun svokallaðra fræðsluráða sem fyrst og fremst hafa sinnt endurmenntun og símenntun iðnaðarmanna. Eins og fram kemur í áfangaskýrslu nefndar um mótun menntastefnu er talið mjög brýnt að framkvæmd iðnnáms, sem og annars starfsnáms, verði endurskoðuð frá grunni. Einkum með því

markmiði að auka áhrif aðila vinnumarkaðarins á innihald og framkvæmd iðnnámsins.
    Með þeirri breytingu á lögum um framhaldsskóla sem samþykkt var á síðasta þingi var stigið mikilvægt skref í þá átt að gera aðilum vinnumarkaðarins kleift að hafa beinni áhrif á kennslu iðngreina í skólakerfinu en áður hafði verið. Nú þegar er hafið starf við Iðnskólann í Reykjavík sem byggir á hinni nýju lagagrein. Með tilraun í kennslu bókiðngreina er ábyrgðin á framkvæmd iðnnámsins í höndum skóla og atvinnulífs sameiginlega. Námið fer fram á víxl í skóla og úti í fyrirtækjum. Þessir aðilar hafa gagnkvæmt eftirlit með árangri námsins og yfirstjórn tilraunarinnar er í höndum aðila vinnumarkaðarins, skóla og ráðuneytisins sameiginlega.
    Það standa vonir til að þessi tilraun gefi vísbendingar fyrir áframhaldandi þróun starfsmenntunar með aukinni aðild aðila atvinnulífsins að náminu. Auk þessara aðgerða sem þegar eru hafnar er mér ánægja að segja frá því hér að tillögur um endurskiplagningu starfsmenntunar í framhaldsskólum, sem nefnd um mótun menntastefnu er að fullgera og birtar verða innan tíðar, eru mjög í anda þeirra ábendinga sem fram koma í greinargerð með þeirri þáltill. sem við erum hér að ræða. Horft er á alla starfsmenntun í framhaldsskólum sem heild og lagt til að stjórnun iðn- og starfsmenntunar verði breytt verulega frá því sem nú er. Markmiðið er að gera kerfið skilvirkara þannig að breyttar kröfur á vinnumarkaði eigi greiðari leið inn í starfsnám og framkvæmd þess í skólum og fyrirtækjum. Aðilar atvinnulífs munu bera ábyrgð á markmiðssetningu í starfsnámi og hægt verður að kalla þá til ráðgjafar um framkvæmd starfsnáms í skólum. Einnig er lagt til að skipan iðn- og starfsnáms verði endurskoðuð þannig að nemendur eigi greiða leið til áframhaldandi náms að loknu starfsnámi.
    Úr röðum iðnaðarmanna hefur komið fram sú ósk að meistaranám veiti einnig rétt til náms á háskólastigi. Ég tel rétt að huga að þeim möguleika við endurskipulagningu starfsmenntunar í anda tillagna nefndar um mótun menntastefnu og nýrrar lagasetningar um framhaldsskóla sem nú er í farvatninu.
    Nefndin leggur einnig til að framboð á starfsnámi verði stóreflt frá því sem nú er og að hafist verði handa við að þróa nýjar námsbrautir í starfsnámi á þeim sviðum þar sem enn er engin formleg menntun til staðar. Einnig verði þróaðar stuttar starfsnámsbrautir en sú vinna er nú í undirbúningi innan ráðuneytisins. Vonir standa til að þegar á næsta hausti verði hægt að fara af stað með stutt starfsnám í nokkrum framhaldsskólum.
    Í greinargerð með þessari þáltill. er bent á hversu erfitt er fyrir iðnnema að fá starfsþjálfunarpláss og þar með að ljúka námi sínu. Á þingi Iðnnemasambands Íslands, þann 22. okt. sl., kom ég inn á þetta vandamál í ávarpi mínu. Ég greindi þar frá þeirri fyrirætlan minni að setja af stað starfshóp til að reyna að finna lausn á þessum vanda sem í raun er nokkuð snúinn. Sú vinna er í undirbúningi innan menntmrn. og verður unnin í samvinnu við þá sem þarna eiga helst hagsmuna að gæta.
    Að lokum vil ég taka undir þá ábendingu sem fram kemur í greinargerð þessari að brýnt er að tryggja betur að hægt verði að standa myndarlega að verklegri kennslu í landinu, m.a. með auknu fjármagni og margvíslegum stuðningi. Á næstu árum verður að veita sérstakt fjármagn til eflingar starfsnámi, annars er hætt við að tillögur nefndar um mótun menntastefnu, um endurskipan þess, nái ekki fram að ganga.
    Eins og fram hefur komið í því sem ég hef hér sagt er sú endurskoðun sem þáltill. leggur til þegar í fullum gangi á vegum menntmrn. og nefndar um mótun menntastefnu og sumt er þegar komið á framkvæmdastig. Það má því segja að samþykkt þessarar tillögu hafi ekki sjálfstæða þýðingu. En mér þykir alveg sjálfsagt að tillagan fari til umfjöllunar í hv. menntmn. sem fær vonandi á þessu þingi til meðferðar frv. til nýrra laga um framhaldsskóla þar sem tekið verður á þessu sérstaka máli og efni þessarar tillögu haft þar til hliðsjónar.