Endurmat iðn- og verkmenntunar

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 18:01:36 (1000)


[18:01]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Hér er hreyft þörfu máli. Það er tvímælalaust mjög tímabært að taka iðn- og verkmenntunina í landinu til endurmats. Iðnmenntunin hefur að mestu verið í föstu formi mjög lengi og hefur að vissu leyti ekki aðlagast þeim breytingum sem orðið hafa í mörgum iðngreinum. Gott dæmi um þetta er skipasmíðaiðnaðurinn en þrátt fyrir að Íslendingar hafi smíðað tugi stálskipa á síðasta aldarfjórðungi, þá er stálskipasmíði ekki sérstakt fag í iðnkerfinu.
    Það er rétt sem fram kemur í greinargerð sem fylgir þessari tillögu að það eru gerðar og verða gerðar í næstu framtíð auknar kröfur til iðnaðarmanna og að iðnaðurinn og iðnmenntunin verði að laga sig að þeim kröfum. Þess vegna er nauðsynlegt að endurmeta iðnnámið og skipulag þess í heild.
    Hér í greinargerð er bent á að iðnnemar hafi um þrjár leiðir að velja til iðnnáms, sem í flestum tilvikum tekur fjögur ár, í fyrsta lagi að gera samning við meistara og öðlast starfsþjálfun hjá honum en sækja samhliða bóklegt nám í iðnskóla. Í öðru lagi að ljúka bóklegu og verklegu námi í skóla og fara að því loknu í starfsnám hjá meistara og í þriðja lagi að byrja í bóklegu námi og ljúka þar ákveðnu grunnnámi en gera síðan þriggja ára samning við meistara. Af þessum þremur leiðum tel ég að sú leið að ljúka bóklegu og verklegu námi í skóla og fara síðan í starfsnám hjá meistara sé sú besta. Sú aðferð hefur tvímælalaust reynst vel og nemar sem þannig hafa komið til starfa í iðnfyrirtækjunum hafa þekkingu á undirstöðu viðkomandi iðngreinar, kunna að nota helstu vélar og tæki og eru alla jafn vel undir sjálft starfsnámið búnir. Gamla meistarakerfið hefur á margan hátt reynst ágætlega en auðvitað eru meistarar og fyrirtæki misjafnlega í stakk búin til að leiðbeina nemendum sem eru að stíga sín fyrstu skref í viðkomandi iðngrein.
    Það er sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af þeim mikla samdrætti sem orðið hefur í ýmsum iðngreinum síðasta áratuginn og nefnt hefur verið hér í þessum umræðum. Þessi samdráttur leiðir til þess að nemum reynist erfitt að komast í starfsnám eftir að hafa lokið bóklegu námi. Þetta á t.d. við um skipasmíðastöðvarnar sem hafa verið afkastamiklar uppeldisstöðvar fyrir nema í málmiðnaði og trésmíði, rafvirkjun og fleiri fögum.
    Flm. minnast í greinargerð sinni á að kröfur um aukið bóklegt nám fari sífellt vaxandi. Mér finnst í því sambandi sérstök ástæða til að vara við því að þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að stunda mikið bóklegt nám sé gert ókleift að öðlast iðnréttindi og legg áherslu á að það þurfa að vera tvö stig í iðnnáminu með svipuðum hætti og er í málmiðnaðinum í dag. Þar geta nemar með tveggja ára námi orðið sveinar í rafsuðu og í þessu tveggja ára námi eru mun færri bókleg fög heldur en í vélvirkjun t.d. og plötusmíði og þessir sveinar geta ekki orðið meistarar nema að undangengnu frekara námi. Ég tel það sjálfsagt að þeir sem vilja vinna t.d. í málmiðnaði geti öðlast réttindi með þessum hætti og veit að margir afbragðs iðnaðarmenn hafa útskrifast úr rafsuðunáminu, bæði þeir sem ekki hafa treyst sér í það skólanám sem fylgir fullu iðnnámi og eins fjölskyldumenn sem ekki hafa treyst sér af fjárhagsástæðum til að sitja fjórar annir í námi. Margir þessara iðnaðarmanna hafa haldið áfram námi síðar og lokið þá námi í vélvirkjun, plötusmíði eða öðrum málmiðnaðargreinum. Mér finnst að þessi þáttur iðnnámsins sé afar mikilvægur og tel það sjálfsagt mál að iðnfræðslan miðist ekki við að allir þurfi að verða meistarar.
    Á árum áður og reyndar allt fram á síðustu ár þurftu iðnaðarmenn aðeins að vinna sem sveinar í 2 1 / 2 --3 ár til að fá meistararéttindi. Á undanförnum árum hafa iðnaðarmenn hins vegar þurft að ljúka námi í meistaraskóla til að verða meistarar, a.m.k. í sumum iðngreinum. Þetta hefur gert iðnaðarmönnum á landsbyggðinni nokkuð erfitt fyrir þar sem meistaraskólarnir hafa ekki verið starfræktir nema þar sem fjölmennið er mest og þess vegna er ástæða til að skoða vel þær hugmyndir sem minnst er á í greinargerð með þessari tillögu að meistaraskólinn verði beint framhald iðnskóla og iðnmenntunar og gefi þeim

sem þar ljúka námi greiðari leið til frekara náms standi hugur þeirra til þess.
    Ég vil að lokum taka undir það með flm. þessarar tillögu að ein af forsendum þess að innlendur iðnaður standist aukna samkeppni háþróaðra iðnríkja er að nauðsynlegar úrbætur verði gerðar á iðn- og verkmenntun í landinu og að forsenda aukinnar framlegðar í íslensku atvinnulífi mun í næstu framtíð byggjast á frekari sérhæfingu og vaxandi verkmenntun. Það er því eðlilegt að sem fyrst ljúki endurmati iðn- og verkmenntunar í landinu, en í máli hæstv. menntmrh. kom fram að það verk sé vel á veg komið.
    Ég vil að lokum þakka hv. flm. fyrir að minna á þetta mál og hæstv. menntmrh. fyrir þann mikla áhuga sem hann hefur sýnt verkmenntun í landinu.