Endurmat iðn- og verkmenntunar

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 18:43:25 (1008)


[18:43]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegur forseti. Við höfum nú átt hér mjög góðar og málefnalegar umræður um þá þingsályktun sem hér er til meðferðar og þingmenn allir sem til máls hafa tekið hafa lýst sig í raun og veru í meginatriðum mjög sammála tillögunni efnislega. Hún lýtur að því að kveðja saman starfshóp sem hafi það verkefni að endurmeta iðn- og verkmenntun í landinu og gera tillögur að breyttu og bættu skipulagi. Það hefur líka komið fram hér í þessari umræðu að það er að koma fram lagafrv. sem fjallar að hluta til um þetta efni en tekur að sjálfsögðu til framhaldsskólans alls.
    Hv. þm. Stefán Guðmundsson lýsti óánægju sinni með að þetta mál hefði ekki verið afgreitt í menntmn. Ég minni á að það er engin nýlunda að nefnd hafi mál til umfjöllunar oftar en einu sinni og að mál séu endurflutt. Það eru engar annarlegar hvatir sem liggja að baki því hjá hv. þm. í menntmn. að þetta mál hafi ekki verið afgreitt þar. Mér finnst mjög leiðinlegt að heyra slíkar dylgjur og tel þær í raun og veru ekki sæmandi.
    Ég ítreka að þetta mál er mjög brýnt og einnig að ég tel og reyndar vona að menntamálin eigi eftir að skipa stóran hlut í umræðunum hér á þinginu í vetur. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þingmanninum sérstaklega fyrir þolinmæði hans að endurflytja málið.