Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:09:35 (1020)


[14:09]
     Árni Johnsen (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það hefur enginn sagt hér í umræðu að Herjólfur væri mistök eða slæmt skip. Herjólfur hefur reynst mjög vel og er fyrsta alvöru farþegaskipið milli lands og Eyja í sögu farþegaflutninga þar. Það hefur enginn haldið öðru fram. Enginn í umræðunni þannig að það er óþarfi (Gripið fram í.) --- hæstv. samgrh. hefur ekki gert það heldur. Ég hef lesið ræðu hans, heyrði hana að hluta og las hana alla og hann hefur ekki sagt það, það er rangt. Það er óþarfi af hv. þm. Guðna Ágústssyni að vera að fleipra með einhver orð sem standast ekki.
    Það var líka undarlegt að heyra Guðna Ágústsson segja að sér hefði ekki dottið í hug að afgreiða þá þáltill. sem átti að kanna faglega hugsanlega gerð jarðganga milli lands og Eyja því hann lýsti því yfir úr ræðustól að hann fagnaði tillögunni og mundi berjast fyrir því að fylgja henni fram. Hvað datt honum í hug þegar hann talaði úr ræðustólnum? Það væri rétt að hann læsi sínar eigin ræður áður en hann blaðraði úr ræðustól á þennan hátt.
    Það er líka undarlegt að heyra Guðna Ágústsson segja að það sé ekki auðvelt að gera jarðgöng á milli lands og Eyja. Hefur þingmaðurinn oft farið þessa leið sem hugsanleg jarðgöng yrðu lögð um? Nei, hann hristir höfuðið, ekki farið oft, en kannski nokkrum sinnum. Ætli það væri ekki nær að fela sérfræðingum Vegagerðarinnar og öðrum sem unnu að undirbúningi þeirrar tillögu sem ég minntist á að ég hefði lagt fram um þessa könnun og eingöngu könnun til þess að horfa til framtíðar og velta því fyrir sér hvort það kæmi upp sú staða í mjög hraðri tæknilegri þróun af gerð jarðganga í heiminum að það væri hagkvæmur kostur þegar þar að kæmi að horfa til þess að gera jarðgöng milli lands og Eyja. Þeir sem hafa kynnt sér málið vita að þetta er fýsilegur kostur þá og þegar. Og ef missig í álnum milli lands og Eyja, misgengi sem er til staðar, jarðfræðilegt fyrirbæri auðvitað --- það er búið að leysa slík mál annars staðar í heiminum við sams konar jarðgangagerð og það er ekki vandamál þó að menn komi hér fullir fordóma og ætli að segja einhvern heilagan boðskap að ekki megi kanna málin faglega. Það er nú meira afturhaldið.