Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:13:56 (1022)


[14:13]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður þeirra hv. þm. Sunnlendinga um Herjólf þar sem annar virðist hafa ært hinn, enda er hann líklega nokkuð óstöðugur. En varðandi tæknilega möguleika á því að komast undir hafsbotninn og þá hringstiga sem hv. síðasti ræðumaður var að nefna, þá tel ég nú a.m.k. að Þykkvabæjarmegin væri eðlilegt að koma upp 1,6 km frá sjó eins og segir í kvæðinu.
    Ég ætlaði að gera athugasemd við annars ágæta ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar, 5. þm. Suðurl. Hann talaði ágætlega hér um reiðvegagerð og ég er mjög sammála því sem hann sagði og hans málflutningi. Ég taldi samt að hann hefði ofmælt því að hann orðaði það á þann veg að reiðvegagerðin hefði ekki náð eyrum löggjafans. Það er ekki nákvæmlega rétt. Hér var samþykkt á Alþingi ályktun 7. febr. 1991 um að Alþingi ályktaði að fela samgrh. að skipa nefnd með þátttöku samtaka hestamanna og sveitarfélaga til þess að kanna ástand reiðvega og gera reiðvegaáætlun. Þetta var þáltill. sem flutt var af nokkrum framsóknarmönnum, m.a. okkur hv. þm. Guðna Ágústssyni og 1. flm. var Guðmundur G. Þórarinsson. Það er hins vegar rétt að það vantar í vegalögin eins og ég gat um fyrr í þessari umræðu skýr ákvæði um reiðvegagerð og það er mjög brýnt að bæta úr því og ég treysti því að það verði gert við meðferð þessara vegalaga hér í þinginu.