Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:21:56 (1029)

[14:21]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur nú orðið allmikil umræða um frv. til vegalaga bæði nú og í fyrra og ég ræddi nú það frv. í fyrra sem er óbreytt núna og ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu mína. Það hefur ýmislegt skýrst í þessari umræðu og hæstv. samgrh. hefur lýst yfir að hann sé tilbúinn að taka jákvætt undir margar þær breytingar sem menn hafa lagt til þannig að við 2. umr. mega menn búast við að frv. verði lagt fram þó nokkuð mikið breytt.
    Ég vil leggja sérstaka áherslu á að það verði tekið tillit til óska framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga sem er með sérálit í þessu frv. varðandi nefnd sem er nauðsynlegt að setja á laggirnar vegna þeirra miklu breytinga sem er verið að gera á flokkun vega ef þetta frv. verður að lögum. Og ég ætla líka að taka fram að það hljóta að verða miklar breytingar á 23. gr. þessa frv. Eftir því sem hæstv. samgrh. hefur sjálfur sagt hér getur sú grein ekki staðið eins og hún stendur í dag því að hann sagði orðrétt 27. okt. þegar þetta var til umræðu, með leyfi forseta: ,,Það er yfirlýst af minni hálfu og ég held að aldrei hafi komið fram raddir um annað á Alþingi en rekstur Akraborgarinnar haldi áfram þangað til jarðgangagerð lýkur undir Hvalfjörð.`` Þetta er alveg ljóst af hendi hæstv. ráðherra og þar af leiðandi getur það ekki staðið í frv. að það eigi að leggja niður þessa ferju eftir þrjú ár.
    En það sem mig langar mest að spyrja hæstv. samgrh. er varðandi nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem skilaði af sér í vor um það að flytja ríkisstofnanir út á land. Sú nefnd gerði tillögu um það að Vegagerð ríkisins flytti til Borgarness og nú langar mig að heyra hvað hæstv. ráðherra segir í því efni, hvort sá undirbúningur sé hafinn og hvar sá undirbúningur standi sé hann hafinn.