Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:33:52 (1035)

[14:33]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson beindi því til mín hvort ég væri tilbúinn til þess að vinna að því að setja fé á fjárlögum til reiðvegagerðar. Það vill nú þannig til að samkvæmt þingsköpum er vegáætlun í meðförum hjá hv. samgn. og þar á hv. þm. sjálfur sæti en ég sit þar ekki lengur. Samkvæmt vegalögum fara allir peningar sem til vegamála fara í gegnum vegáætlun og koma því ekki til kasta fjárln. En ég verð eins og áður að taka undir með honum þar sem hann lýsir skoðunum sínum á því hvernig standa eigi að reiðvegagerð, ég tel að það eigi að vera samhliða hinni almennu vegagerð, að það sé farsælast. Ég vil spyrja þingmanninn að því hvort hann hafi beitt sér fyrir því í sínu kjördæmi að hinu almenna vegafé hafi verið veitt til reiðvegagerðar til þess að bæta þar úr --- ég vil gjarnan spyrja hann að því hvort hann hafi gert það í sínu kjördæmi, þegar þar hefur verið skipt vegafé?