Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:52:14 (1040)


[14:52]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Um síðari liðinn þá er ólíku saman að jafna hvort tekin eru lán vegna smíða erlendis eða til atvinnusköpunar hér á landi þegar mikið atvinnuleysi er. Um fyrra atriðið þá biðst ég afsökunar á að hafa ekki svarað því, ég ætlaði að gera það. Ég varð nú mjög undrandi þegar ég frétti að nefndin hafði lagt það til að flytja Vegagerðina upp í Borgarnes. Það virðist nú liggja nær að reyna að treysta þá uppbyggingu og þá miðstöð í rannsóknum í landbúnaði og menntun í landbúnaði sem er á Hvanneyri, en það má vera að mönnum þyki það nær að færa kannski rannsóknastarfsemi og háskóladeildina til, kannski norður eða í háskólann hér fyrir sunnan. Mér hefði þótt það svona eðlilegra og hefði frekar búist við því að nefndin hefði komist að þessari niðurstöðu.
    Um þetta er það eitt að segja að það skýrist núna á næstu vikum eða mánuðum hvort forsendur séu fyrir því að ráðast í gangagerð undir Hvalfjörð. Ef allt fer eftir fremstu vonum þá má búast við að slík göng yrðu boðin út á fyrstu mánuðum næsta árs, kannski í febrúar, og hafist yrði þá handa í árslok. Ég hef ekki kynnt mér sérstaklega þau rekstraryfirlit sem liggja fyrir í sambandi við tillöguflutning á Vegagerðinni upp í Borgarnes og ég hef ekki séð rök fyrir þeim flutningi.