Vandi skipasmíðaiðnaðarins

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 15:53:21 (1055)

[15:53]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að sl. 6--8 ár hefur staða íslensks skipasmíðaiðnaðar verið afar veik. Veltan hefur minnkað um meira en helming á undanförnum 6 árum og mannafli hefur dregist saman í ársverkum talið. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að árið 1982 voru starfandi um 1.043 manns við þennan iðnað í ársverkum talið, árið 1987 voru þeir 1.011, en árið 1990 um 660. Staða iðnaðarins hefur versnað eftir þetta og ég hygg að þar hafi fækkað um rúmlega 100 störf frá því sem þessar tölur benda til sem eru komnar frá samtökum skipasmíðaiðnaðarins.
    Erfið staða skipasmíðaiðnaðarins á Íslandi markast af mörgum samverkandi þáttum. Það hefur verið mikill samdráttur í fiskveiðum hér og erfið staða sjávarútvegsins hefur endurspeglast í minnkandi verkefnum. Það hefur verið mikið framboð í skipasmíðaiðnaðinum í heiminum frá svæðum þar sem launakostnaður er lágur en þetta framboð hefur leitt til aukinnar styrkjastefnu, t.d. í Evrópu. Það er einnig rétt að vekja athygli á því að styrkir til sjávarútvegs, sem eru raunar regla í Evrópubandalaginu og í ákveðnum EFTA-löndum, hafa skilað sér til skipasmíðastöðvanna þar með óbeinum hætti. Og þá má síðast en ekki síst nefna að almenn efnahagsstöðnun í Evrópu hefur ýtt undir tilhneigingu til þess að reka verndarstarfsemi í þessari atvinnugrein.
    Nú er svo komið að nýsmíðar eru nánast horfnar á Íslandi og undir það síðasta er rétt að geta þess að nýsmíðarnar voru orðnar verkefni sem íslensku skipasmíðastöðvarnar réðu í raun og veru ekki við vegna ójafnrar samkeppnisstöðu, vegna lélegrar eiginfjárstöðu og mikilla skulda og í raun sköðuðu margar íslenskar skipasmíðastöðvar sig verulega á þeim metnaði sem þær lögðu í það að halda nýsmíðum lifandi í landinu.
    Það er svo nú samkvæmt upplýsingum sem Málmur, sem er samtök fyrirtækja í málm- og skipasmíðum, hefur aflað með úttekt frá því í vor að það eru sáralítil fjárfestingaráform í gangi hjá útgerðinni sem er að vonum. Engu að síður er langmestur hluti fiskiskipaflotans er 17 ára eða eldri. Strax og rætist úr ástandi fiskstofna er fyrirsjáanleg veruleg fjárfesting í endurbótum og aðallega í nýsmíðum. Ég á ekki von á því að þessi eftirspurn muni endurspegla þá miklu eftirspurn sem kom hér með vissu árabili áður og skapaði mikla erfiðleika í skipsmíðaiðnaðinum vegna þess hve það voru miklir toppar og miklar lægðir þar á milli, ég tel að sá tími muni ekki koma aftur, en það er ekki spursmál að þegar árangur aðhaldsaðgerða í fiskveiðistjórnun fer að skila sér, þá mun verða eftirspurn eftir nýsmíðum. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það sem er verið að gera í dag mun ráða úrslitum um það hvort skipasmíðaiðnaðurinn tekur þátt í þessum verkefnum í framtíðinni eða ekki. Við eigum um það að velja að veita skipasmíðaiðnaðinum tækifæri til þess að brúa þetta erfiða bil sem nú er og búa sig undir það að takast á við þetta mikla verkefni. Við megum aldrei gleyma því þegar við tölum um lítinn heimamarkað íslensks iðnaðar, þá er skipasmíðaiðnaðurinn sá íslenskur iðnaður sem styðst við stærstan og fjármagnsfrekastan heimamarkað þannig að á þessu sviði erum við í raun og veru á heimsmælikvarða. Ef einhvers staðar er grundvöllur fyrir íslenskan iðnað, þá ætti það að vera í skipasmíðum. Þetta kallar á samhæfðar aðgerðir sem að sjálfsögðu snúa ekki eingöngu að ríkisvaldinu, þær þurfa að ná inn í fyrirtækin og kalla á hagræðingu. Mjög

mikil hagræðing hefur átt sér stað innan margra fyrirtæka við erfiðar aðstæður. Ég vil geta þess t.d. af því að hér kom til tals Slippstöðin á Akureyri, sem er nú í greiðslustöðvun, að þá hefur hún við þær aðstæður boðið í innlent verkefni sem er að ljúka núna þ.e. skip frá Neskaupstað og mér sýnist að þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður standist stöðin fullkomlega allt það álag sem á hana er lagt í sambandi við það útboðsverkefni og hún sé að þessu leyti samkeppnishæf. Þessar samhæfðu aðgerðir kalla einnig á samvinnu fyrirtækja til þess að standast þetta álag sem minnkandi eftirspurn eftir verkefnum innan lands hefur skapað. Það er mikið álag sem þetta hefur skapað á iðnaðinn og hann þarf að svara þessu með aukinni samvinnu líka.
    Skipasmíðaiðnaðurinn þarf að undirbúa sig undir vaxandi eftirspurn innan nokkurra ára. Þessar samhæfðu aðgerðir kalla á þátttöku að mínu mati lífeyrissjóðanna sem er langstærsti fjármagnseigandinn í þessari atvinnustarfsemi og það kallar einnig á aðgerðir stjórnvalda til þess að verja iðnaðinn fyrir óeðlilegri samkeppni og ýta undir þróun greinarinnar og samkeppnishæfni með aðgerðum m.a. á vegum fjárfestingarsjóðanna, með þróunarstarfsemi og hagræðingarverkefnum.