Vandi skipasmíðaiðnaðarins

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 16:08:31 (1058)


[16:08]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram hér að ekkert hafi verið gert og þær skýrslur sem gerðar hafi verið og nefndarálit hafi bara verið pappírsgögn. Þetta er algjörlega ósatt. Á grundvelli Appledore-skýrslunnar var t.d. tekin sú ákvörðun í samræmi við tillögu skipasmíðaverkefnanefndar sem skipuð var á grunni þeirrar skýrslu að lækka lánahlutfall Fiskveiðasjóðs úr 65 í 46% í erlendri smíði. Það er rangt að ekkert hafi verið aðhafst. Þá er það líka rangt að skýrslan sem gerð var um ríkisstyrki við skipasmíðaiðnað í nágrannalöndunum hafi orðið til einskis. Hún er grundvöllurinn að þeirri vinnu sem nú fer fram í fjmrn. til undirbúnings álagningu jöfnunargjalda, ef viðræður okkar við Evrópubandalagið leiða ekki til árangurs. Þannig að það er bara hreinlega rangt að þessi vinna hafi ekki borið neinn árangur.
    Í öðru lagi vil ég taka fram að það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan er nokkuð lýsandi um þann tvískinnungshátt sem menn viðhafa því að hann kvartaði yfir því að tekin skyldu niðurgreidd boð erlendis frá, að ríkisstjórnin skuli ekki stöðva það. En svo sagði hv. þm. í næstu setningu á eftir: En það er ekkert við útgerðina að sakast. Það er ekki við útgerðina að sakast, sagði hann, því auðvitað á útgerðin að taka þeim kostum sem bestir bjóðast. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það að hv. þm. er í öðru orðinu að segja að það eigi að koma í veg fyrir hin niðurgreiddu tilboð og í hinu orðinu að segja að auðvitað eigi útgerðin að taka þeim tilboðum sem best bjóðast, þ.e. niðurgreiddu tilboðunum erlendis frá. Þetta kalla ég nú að vera opinn í báða enda. ( JGS: Þetta er útúrsnúningur hjá ráðherranum.)
    Auðvitað er það rétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. sem talaði hér áðan að við þurfum að bregðast við. En herra minn og guð, árið 1992--1993 var í hans eigin kjördæmi þar sem hann er mikill áhrifamaður í

sjávarútvegsmálum smíðaður togari upp á 1.330 brúttórúmlestir, kostnaðurinn einn milljarður kr., 1.000 millj. kr. Hvar var sá togari smíðaður? Í Noregi. Af hverju beitti hv. þm. ekki áhrifum sínum, sem eru allmikil, í sínu eigin kjördæmi? Af hverju beitti hann ekki áhrifum sínum t.d. til þess að útboðinu yrði hagað þannig að íslenskar skipasmíðastöðvar gætu fengið eitthvað af þeim verkefnum sem þær gætu unnið?
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það verður að bregðast við og það skal ekkert standa á mér að gera það. Það var Málmur sem óskaði sjálfur eftir því að sett yrði á fót nefnd til þess að skoða --- ekki bara verkefnastöðu heldur fyrst og fremst fjárhagsstöðu skipaiðnaðarins og ég óskaði eftir tilnefningum í þá nefnd fyrir rétt um það bil mánuði síðan. Síðasta tilnefningin kom ekki fyrr en núna rétt áðan og ég brást þannig við að ég var í stóli mínum hér að ganga frá nefndaskipuninni. Þar er að beiðni félagsins Málms ákveðið að skipa nefnd til að kanna fjárhagsstöðu skipaiðnaðarins og koma með tillögur til úrbóta í ljósi tímabundinna erfiðleika greinarnnar. Þar er lagt til að nefndin kanni hinar ýmsu leiðir til umbóta í þessu efni, m.a. hugsanlega úreldingu skipasmíðafyrirtækja. Þeir sem skipaðir eru í nefndinni eru utan fulltrúa iðnrn. sem er formaður Benedikt Guðmundsson úr samgrn., Guðmundur Jóhannsson úr fjmrn., Guðmundur Rafn Bjarnason úr Byggðastofnun, Helgi Backman frá Landsbanka Íslands, Ingólfur Sverrisson frá Málmi, Snorri Pétursson frá Iðnþróunarsjóði, Tómas Kristjánsson frá Iðnlánasjóði og Örn Friðriksson frá Félagi járniðnaðarmanna.
    Þetta eru þeir aðilar sem koma að málefnum skipasmíðaiðnaðarins með einhverjum hætti. Og auðvitað vænti ég þess að nefndin skili árangri eins og til var stofnað því að hún er sett á fót samkvæmt tilmælum samtaka iðnaðarins sjálfs.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að nefndin sinni störfum sínum hratt og vel og ég er alveg sammála því sem hér hefur komið fram að hér þarf að grípa inn í, en það er ekki á valdi iðnrh. að leggja á jöfnunartolla. Það er á valdi fjmrh. að gera það. (Gripið fram í.) Fjmrh. er að vinna að því verki, hann er fjarverandi nú, en ef menn hafa áhuga á því að vita hvernig verkinu miðar, þá skulu menn spyrja hæstv. fjmrh.