Lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 10:43:12 (1066)

[10:42]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er flutt var flutt á síðasta hv. Alþingi, 116. löggjafarþingi, og mælt fyrir því þann 6. apríl 1993. Að lokinni framsöguræðu þáv. iðnrh. var umræðu frestað, m.a. vegna fjarveru þingmanna, að beiðni eins þingmannsins en þegar umræðu var síðar haldið áfram tóku engir þingmenn til máls þannig að málið fór til hv. efh.- og viðskn. Mér er kunnugt um að hún sendi frv. til umsagnar en tók frv. síðan aldrei fyrir vegna tímaskorts, en umsagnir lágu fyrir hjá nefndinni frá Alþýðusambandi Íslands, Íslenskri verslun, Fiskveiðasjóði Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Iðnlánasjóði. Mér er líka kunnugt um að allir þessir aðilar að Sambandi ísl. sveitarfélaga undanskildu mæltu með samþykkt frv., en Samband ísl. sveitarfélaga taldi að samkvæmt frv. yrði skylda að breyta starfandi lánastofnunum í hlutafélög og mælti með að Lánasjóður sveitarfélaga yrði undanskilinn þeirri kröfu. Þetta var misskilningur hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga, en til þess að taka af allan vafa í þessu efni hefur nú bráðabirgðaákvæði I í frv. verði breytt frá því sem það var og skýrt tekið fram í 2. mgr. að ekki þurfi að breyta starfandi lánastofnunum í hlutafélög þannig að þar með ætti að vera komið í veg fyrir þann misskilning sem skapaðist á sl. ári og voru þetta einu athugasemdirnar sem gerðar voru við frv.
    Þessu frv. hefur nú verið breytt sem hér greinir: Í gildistökuákvæði þess, sem er 24. gr., hefur verið bætt ákvæðum um að fella á brott ýmis ákvæði úr lögum um verslunarlánasjóð og Stofnlánadeild samvinnufélaganna. Um er að ræða ákvæði sem eru úrelt vegna breytinga á fjármagnsmarkaði, svo sem um að takmarka útlánastarfsemi við ákveðnar atvinnugreinar, um hámarkslánstíma og um að afborganir skuli vera jafnar og ákvæði sem fjallað er um með almennum hætti í frv. um aðrar lánastofnanir. Með þessu hefur Íslandsbanki fallið frá óskum sínum um að sérstakt frv. yrði flutt um breytingu á lögum um verslunarlánasjóð.
    Þá hefur í bráðabirgðaákvæði I verið sett ákvæði um að lánastofnun, sem breytt er í hlutafélag og hefur verið skattlögð samkvæmt ákvæðum laga um skattskyldu innlánsstofnana, skuli skattlögð þannig áfram. Þetta er gert til að taka af allan vafa um að formleg breyting hafi ekki áhrif á skattlagningu. Það er vegna

þess að í lögum um skattskyldu innlánsstofnana er fjallað um banka, sparisjóði, aðrar innlánsstofnanir og opinbera fjárfestingarlánasjóði.
    Ég hef ítrekað hvatt fjmrn. til að víkka út gjaldsvið laganna um skattskyldu innlánsstofnana en ekki fengið nema jákvæð munnleg viðbrögð. Ég hef greint fjmrn. frá þessu ákvæði í bráðabirgðaákvæði I og er von mín sú að það hvetji fjmrn. til að flytja frv. um breytingu á lögunum um skattskyldu innlánsstofnana því að fjmrn. vill eðlilega að skattaákvæði séu ekki í öðrum lögum en í skattalögum. Vona ég að hv. efh.- og viðskn. taki þetta mál til sérstakrar skoðunar í samvinnu við fjmrn. þannig að hægt væri að fella þetta bráðabirgðaákvæði út en þá þyrfti það að koma inn í önnur skattaákvæði sem falla til fjmrn.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frv. frá því að það var síðast lagt fram og rætt hér á Alþingi. Þær breytingar eru í samræmi við athugasemdir sem komu fram við hv. efh.- og viðskn. á síðasta þingi og þær athugasemdir sem komið hafa fram frá öðrum aðilum í samfélaginu sem mér hefur fundist ástæða til þess að taka fullt tillit til. Þar sem svo stutt er liðið frá því að framsaga var flutt með frv. að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að tefja tíma þingsins með því að endurtaka það sem þar var sagt og læt mér því nægja að skýra frá þeim breytingum sem ég hef þegar gert.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.