Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 11:37:36 (1073)

[11:37]
     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég væri ekkert hræddur við 0,1% eign í einhverju slíku fyrirtæki en hins vegar er alltaf spurningin hvar á að draga mörkin og ef ég man rétt, þá var einmitt rætt dálítið um þetta á sínum tíma. Þetta var mikið rætt hér í þinginu. Menn komust ekki að niðurstöðu um nein slík mörk. Það er náttúrlega mjög breytilegt hve mikið þarf til að ráða í einu fyrirtæki, það fer eftir því hvað allt annað er dreift o.s.frv. En mér dettur nú í hug, þegar ég hlusta á þessi orð hv. þm. og hlusta á hans áherslur á það að við Íslendingar verðum að tryggja okkar yfirráð í sjávarútveginum, að hugsanlegt væri að setja hér inn einhver mörk þannig að viðskrh. skuli skylda þegar komið er yfir ákveðin mörk. Ég ætla ekki að nefna neinar tölur hér í því sambandi, en kannski geta menn komist að einhverri slíkri sameiginlegri niðurstöðu og ég held að það væri mjög athugandi fyrir þá nefnd sem fær þetta til meðferðar, hvort hún getur sett inn einhver slík ákvæði.