Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 12:23:11 (1077)

[12:23]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. vakti athygli á mjög þýðingarmiklum hlut í þessari umræðu varðandi sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga yfir sjávarútveginum og nýtingu á auðlindunum sem er einfaldlega þetta: Það er vitað og liggur fyrir og hefur komið fram að ýmsir erlendir lánardrottnar og viðskiptaaðilar sjávarútvegsins hafa nokkuð að segja um ráðstöfun afla af Íslandsmiðum vegna þess að eins og fram hefur komið þá hefur átt sér stað erlend lánafyrirgreiðsla frá þessum aðilum. Þá blasir þetta mál við með enn þá afkáralegri hætti, sem sagt þeim að einstakir aðilar sem lánað hafa fé til útgerðar eða fiskvinnslu geta farið að hafa þarna áhrif og knúið síðan sjávarútveginn til að greiða til útlanda fjármagnskostnað, vexti, á sama tíma og við erum með svo afdráttarlaus lög að þau gera ráð fyrir því að ef fyrirtæki er 0,1% í eigu útlendra aðila þá eigi þeir að selja hlutafé sitt í sjávarútvegi þegar í stað. Ég held að þetta undirstriki að það er varla ásættanlegt að við gerum ráð fyrir því í frv. að viðskiptaráðherra hafi svona opna heimild til að skikka fyrirtæki við þessar aðstæður til að losa sig við hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum þannig að þessu fylgi engin leiðsögn frá löggjafarþinginu um það hvernig eigi að fara með þetta heldur sé þessi heimild gjörsamlega opin fyrir því að taka breytingum eftir því sem pólitískar skoðanir viðkomandi viðskhr. breytast.