Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 12:37:00 (1080)


[12:37]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hér er um mjög vandasamt stórmál að ræða sem orðið er til að verulegu leyti sem afleiðing af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og við verðum, úr því að við erum búnir að ákveða það að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði, að lúta ákvörðunum að utan og laga íslenska löggjöf eftir því þannig að við getum ekki hér rætt málið út frá því sjónarhorni hvernig okkur þætti sjálfum heppilegast að haga þessu. Við verðum að taka tillit til fleiri atriða.
    Þegar þetta mál var til umræðu á síðasta þingi, þá flutti ég nokkuð ítarlega ræðu um það og ég ætla bara að vísa til hennar en ekki að endurtaka hana. Ég vil þó láta það í ljósi að ég held að frv. hafi heldur versnað í sumar því að þær litlu breytingar sem á því hafa verið gerðar sýnast mér síst vera til bóta.
    Þegar Ísland hóf samninga um Evrópskt efnahagsvæði þá setti ríkisstjórnin fram fimm fyrirvara sem voru skilyrði fyrir inngöngu Íslands í Evrópskt efnahagssvæði. Einn af þessum fyrirvörum náðist fram í samningunum, þ.e. fyrirvarinn um útgerð og fiskvinnslu. Ég er mjög á því að við eigum svo lengi sem við getum að halda þeim fyrirvara til streitu og ég er mjög andvígur því sjónarmiði sem mér finnst aðeins hafa örlað á í þessum umræðum að þessi fyrirvari kunni nú að koma sér illa fyrir okkur. Með þessu frv. er verið að opna fyrir aðgang útlendinga að auðlindum okkar og efnahagslífi og frá árinu 1996 er nánast allt galopið, hvort sem um er að tala banka ef einkavæddir verða eða orkufyrirtæki ef einkavædd verða og það er ekkert hægt að reisa þar við neina rönd. Mér finnst að í þessu frv. sé viðskrh. sem slíkum gefið allt of mikið vald og það er mín skoðun að það sé höfuðgallinn á þessu frv. hve viðskrh. á hverjum tíma er gefið mikið vald vegna þess að ófyrirleitinn eða óvarkár viðskrh. gæti tekið ákvarðanir eða gefið leyfi sem kæmu okkur illilega í koll síðar. Mér finnst að það væri nær að stærri ákvarðanir væru háðar samþykki Alþingis.
    Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson nefndi áðan dæmi um sjónarmið sem mér finnst ekki vera eðlileg hjá núv. viðskrh., þ.e. varðandi landbúnaðarmál. En setjum nú svo að við fengjum einhvern tíma viðskrh. sem væri t.d. sérlega mikið á móti útgerðarmönnum eða sérlega mikið á móti orkuvinnslufyrirtækjum í landinu eða bönkunum í landinu ( Gripið fram í: Eða olíufélögunum.) eða olíufélögunum í landinu, ( Gripið fram í: Eða allt þetta.) þá hefði hann vald til þess að vinna þeim ansi mikið tjón þannig að ekki væri auðvelt úr að bæta síðar.

    Nú vil ég taka það fram að þó að mér þyki hressilega dregnar lokur frá hurðum með þessu frv. þá er ég ekki einangrunarsinni og ég er fylgjandi hóflegri erlendri fjárfestingu en ég er ekki fylgjandi því að flytja í verulegum mæli yfirráð yfir íslensku efnahagslífi eða íslenskum auðlindum úr landi. Ef yfirráðin og eignarhaldið er flutt úr landi þá fer nefnilega arðurinn af auðlindunum og fjárfestingunni líka úr landi og meira að segja arðurinn af vinnu fólksins í landinu. Og ef við hugsum okkur að halda hér uppi þjóðríki í einhverjum svipuðu sniðum og við höfum gert undanfarið, þá er það ekki leiðin að ætla útlendingum að bera uppi íslenskt efnahagslíf eða eiga íslenskt atvinnulíf.
    Eins og ég sagði, frú forseti, þá ætla ég ekki að fara að endurtaka þá ræðu sem ég flutti hér úr þessum ræðustól í fyrra, en ég vildi undir lok þessarar umræðu láta þessi sjónarmið koma fram í örstuttu máli.