Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 13:00:54 (1083)

[13:00]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. hafi misskilið mína athugasemd. Ég var einfaldlega að benda á það að ef Alþingi samþykkir einhverjar ákveðnar reglur í sambandi við þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja sem eiga viðskipti við sjávarútveg, ef um sé að ræða einhverja minni háttar eign erlendra aðila að þeim fyrirtækjum, þá beri þeim fortakslaust að selja hlutafé sem þeir kunna að eiga í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég vil bara benda mönnum á það að ef slíkar reglur verða settar, þá getur ráðherra átt í erfiðleikum með að framfylgja þeim fortakslaust ef það liggur fyrir að það er í algerri andstöðu við íslenska hagsmuni eins og getur gerst. Þess vegna bað ég hv. þingnefnd að athuga það mjög grandgæfilega hvort rétt væri að setja slík fortakslaus skilyrði í þá lagasetningu sem hér er til meðferðar. Það er ekki gerð tillaga um það og ég heyrði ekki betur á máli hv. 6. þm. Norðurl. e. heldur en hann gerði sér fulla grein fyrir slíkum vandamálum sem þá gætu komið upp.