Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 13:03:20 (1085)

[13:03]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég mundi nú einfaldlega biðja hv. 1. þm. Norðurl. v. að eiga samtal við vin sinn og félaga, hv. 6. þm. Norðurl. e. sem gæti mjög vel skýrt fyrir honum þau vandamál sem hér eru á ferðinni því að það vill svo til að við hv. 6. þm. Norðurl. e. erum nákvæmlega sammála um það.
    Ég vil hins vegar lýsa því yfir að mér finnst það ekki vera í andstöðu við þjóðarhagsmuni að gefa íslenskum neytendum kost á því að kaupa grænmeti á 1 / 4 af því verði sem það ella mundi kosta. Mér finnst það ekki í ósamræmi við þjóðarhagsmuni og ég held að við tökum ekki mikla áhættu á því þó að agúrka kosti 86 kr. í staðinn fyrir 200 og eitthvað, að það muni stuðla að miklu atvinnuleysi á Íslandi.