Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 13:05:40 (1087)

[13:05]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að samkvæmt upplýsingum hv. þm. Steingríms Hermannssonar var ástæðan fyrir lággengismati á fjárfestingarkostum erlendra fjárfesta á Íslandi ekki ástandið á vinnumarkaði heldur eitthvað í tengslum við stjórnarfarið. Þetta er nú hið eina sem mér kom til hugar að gæti verið skýring á því.
    Í öðru lagi vil ég taka það fram að hingað til hafa erlendir aðilar ekki fjárfest á Íslandi nema með kröfu um að sett yrðu sérstök skattalög fyrir þá því að skattumhverfi íslenskra atvinnufyrirtækja hefur verið svo gerólíkt skattumhverfi erlendra. Nú er búið að breyta skattumhverfi íslenskra atvinnufyrirtækja til samræmis við það sem gerist og gengur í öðrum löndum og engir þeir aðilar sem hafa verið í viðræðu við íslensk stjórnvöld um hugsanlega fjárfestingarkosti gera kröfu til þess að lúta öðrum skattalögum en þeim íslensku.