Seðlabanki Íslands

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 14:29:12 (1103)

[14:29]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vita auðvitað allir hér í þessum sal að sá sem aðallega hefur stjórnað Seðlabankanum í 30 ár var dr. Jóhannes Nordal. Það voru ekki þeir einstaklingar sem hér voru nefndir áðan þó að þeir hafi borið titilinn seðlabankastjóri. Og eins og ég lýsti hér áðan, þá hafði Jóhannes Nordal þá pesónueiginleika og hæfileika að það var hægt að bera til hans tiltrú þó að menn væru ekki alveg sammála skoðunum hans.
    Nú hefur það hins vegar gerst í fyrsta sinn að pólitíkus er gerður að aðalbankastjóra Seðlabankans. Það hefur aldrei verið áður í stjórnskipan landsins að maður gangi beint úr umdeildum ráðherrastól í að verða aðalbankastjóri Seðlabankans. Það eru viss tímamót og það eru tímamót aftur á bak. Það er afturför sem við viljum koma í veg fyrir. Og hv. þm. Páll Pétursson má mín vegna alveg flytja hér eins margar traustsyfirlýsingar og hann vill gagnvart Jóni Sigurðssyni. Það er hans mál. Ég flyt hér hins vegar málefnalega og skýra gagnrýni á þessa skipan og rök fyrir því hvers vegna hann geti ekki um langa hríð haft þá tiltrú sem nauðsynlegt er að aðalbankastjóri Seðlabankans hafi.
    Varðandi þetta tilvik að á föstudaginn í síðustu viku þegar verðbréfaþingið var haft opið þá er það auðvitað mjög merkilegt og hlýtur að koma til umræðu í þinginu síðar vegna þess að bankastjórinn Jón Sigurðsson staðfesti með viðveru sinni á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar að hann hefði vitað af áformum ríkisstjórnarinnar þá þegar um morguninn. Og það er alveg ljóst hverjir svo sem græddu að þeir menn sem báru ábyrgð á því að verðbréfaþingið var opið, þeir bera ábyrgð á tugmilljónatapi ríkissjóðs á þeim verknaði.