Seðlabanki Íslands

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 14:31:25 (1104)

[14:31]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Við höfum nú fengið upplýst að hv. 8. þm. Reykn. hefur ekki samið þetta frv. enda tel ég að þeim sé varla ofverkið að semja þetta litla frv. þarna í ríkisstjórninni þannig að mér þótti það raunar engu máli skipta til eða frá hvort þeir hefðu fengið aðstoð við það en tel reyndar að það væri ekki svo flókið að þeim hefði verið það ofverkið. En það sem hins vegar kemur mér sérstaklega á óvart er að þetta skyldi ekki hafa verið gert fyrr ef þetta var leið ríkisstjórnarinnar að skipa ekki þrjá bankastjóra eins og ráð er fyrir gert í lögum, þá var ekkert því til fyrirstöðu að fresta ráðningu bankastjóra í sumar sem leið. Ég las með athygli þessa stuttu greinargerð sem hér fylgir og það eru ein af rökunum að það náist fram sparnaður í rekstri bankans. Ég veit ekki hvort það eru umræður um lúxuslifnað bankastjóranna sem hafi

komið ríkisstjórninni til að hugsa málið en ég trúi nú ekki öðru en þeir hafi haft einhvern grun um það áður en sú mikla umræða varð sem var fyrir nokkrum vikum í fjölmiðlum á hvaða kjörum bankastjórarnir væru þannig að það kom mér nokkuð á óvart að þeir væru að láta sér detta í hug allt í einu núna að fara að spara. Ég er síst á móti því að ná fram sparnaði í bankanum en ég er ekki viss um að það sé aðalröksemdin sem þarna er að baki.
    Ég vil taka undir þær spurningar sem hér hafa komið fram. Hvers vegna var þetta ekki gert í sumar þegar það lá beint við og nú hefur verið upplýst að tillaga kom um í bankaráð Seðlabankans? Var ríkisstjórninni virkilega ekki kunnugt um þær tillögur sem þar komu fram? Það þætti mér fróðlegt að vita því að það er mjög sérkennilegt ef það hefur aldrei borist út fyrir bankaráðið að þessi tillaga hafi verið uppi á borðinu.
    Almennt um það hvort bankastjórar eigi að vera þrír eða einn ætla ég ekki að fara langt út í hér, en ég vil þó segja þetta: Ég man ekki fyrir hve mörgum árum það var að nefnd var að störfum sem var að endurskoða lög um Seðlabankann og ég man ekki betur en þar hafi verið fulltrúar allra stjórnmálaflokka og þar var fulltrúi Kvennalistans Guðrún Halldórsdóttir. Hennar tillaga var nú sú að seðlabankastjórarnir yrðu þrír eins og þeir eru núna. Ég er ekki þar með að segja að það sé endanleg niðurstaða okkar kvennalistakvenna, þingflokksins. Við höfum ekki rætt þetta sérstaklega núna, enda ekkert frv. komið fram um þetta efni, en það er boðað hér og ætla ég ekki að fara að ræða sérstaklega frv. sem er ekki enn þá komið fram.
    Ég vil einnig gera athugasemd við það sem hv. 1. þm. Norðurl. v. var að tala hérna um. Hann var að tala um Framsfl. og að eiga e.t.v. bankastjóra eða e.t.v. ekki. Hann taldi að vísu að Framsfl. ætti ekki neinn bankastjóra, en að væri mjög skynsamlegt að framsóknarmaður sé bankastjóri ef ég man rétt orðalag hans. Ég skal ekki út af fyrir sig segja neitt um það hvort það sé skynsamlegt eður ei. Auðvitað eiga menn hvorki að gjalda né njóta pólitískra skoðana hvort sem um er að ræða seðlabankastjóra eða eitthvað annað, en ég vil benda á að það ríkir mikið karlveldi bæði í bankastjóra . . .  ( JGS: Það eru konur í Framsfl.) Það eru jafnvel konur í Framsfl., er kallað hér fram í. Jæja, það er gott að vita það. Ég þekki að vísu nokkrar en þingmaðurinn telur rétt að taka það fram að það séu konur þar og ég vissi það nú reyndar fyrir. En í bankastjórastöðum, í toppstöðunum, þar er engin kona, hvorki í Seðlabankanum né annars staðar og þar hefur ríkt ákveðið skipulag milli stjórnmálaflokkanna, einhverra þeirra, alla vega þriggja, þ.e. Framsfl., Alþfl. og Sjálfstfl. ef maður skilur þetta kerfi rétt í sambandi við Seðlabankann. Það þykir mér auðvitað alveg út í bláinn. Mér finnst ekki koma til greina að það séu einhverjir ákveðnir flokkar sem þarna eigi bara einhver sæti. Hvers vegna í ósköpunum? Auðvitað á þetta að vera faglega skipað og ef það ættu að vera einhverjir flokkar, þá ættu það a.m.k. alls ekki að vera þessir flokkar endilega. Ef þetta ætti að vera pólitískt skipað, þá ætti auðvitað að reka alla seðlabankastjóra og skipta alltaf um í hvert skipti sem ríkisstjórn færi ef þetta ætti að vera nákvæm endurspeglun á því hvernig ríkisstjórn væri skipuð. Þess vegna er það fyrirkomulag sem þarna hefur ríkt algerlega út í bláinn og á auðvitað ekki að eiga sér stað. En það gildir ekki bara um Seðlabankann. Það gildir um aðra banka líka. Þetta er nákvæmlega sama kerfið sem er alls staðar og það á bara að henda því og taka upp annað þannig að það séu fagleg sjórnarmið sem þarna ráði ferðinni.
    Ég verð að taka undir það einnig sem hér kom fram áðan af hálfu hv. 8. þm. Reykn. að Jón Sigurðsson hefur því miður ekki þá tiltrú sem seðlabankastjóri sem hann þyrfti að hafa vegna þess að hann var hér sem viðskrh. áður, umdeildur í þeirri stöðu, og ég sé ekki að hann njóti þeirrar virðingar og hafi þá tiltrú sem hann þarf á að halda. Þetta segi ég nú bara sem mína skoðun vegna þess að ég er sammála því sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykn. Því miður er það svo þannig að mér þykir mjög leitt hvernig að þessum málum hefur verið staðið hingað til. En ég er ekki þar með að segja að ég telji ekki að það sé mjög skynsamlegt að fresta því um einhvern tíma að ráða í þetta þangað til búið er að skoða þessi lög, en mér þykir hins vegar jafnslæmt að ekki skuli koma að því nema tveir stjórnmálaflokkar ef það á að nást um þetta samstaða hér á Alþingi sem ég tel vera mjög mikilvægt.
    Ég hlustaði hér á spádóma hv. 1. þm. Norðurl. v. um miklar fléttur varðandi þetta mál. Ég veit ekki hvort ég á nokkuð að vera að taka þátt í því. Mér þótti það nú vera ansi langsótt ýmislegt og eitt af því sem hann kom með var að hæstv. núv. viðskrh. hugsaði sér að setjast í þennan stól. Ég á ákaflega erfitt með að trúa því að tveir kóngar geti verið í Seðlabankanum. Það getur verið ákaflega erfitt þannig að ég trúi því beint á þá kenningu sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. en hann getur skemmt sér við það að reyna að finna út hvort þarna er leikflétta á ferðinni. Ég skal ekkert um það segja.
    En almennt vil ég segja að ég tel að það geti alveg komið til greina að fresta þessu ef það er ljóst að þessi lög um Seðlabankann komi hér inn á borð en það er hins vegar engin vissa fyrir því að það fyrirkomulag sem ríkisstjórnin kemur með hingað til okkar verði samþykkt og þess vegna vitum við ekki hvernig þetta muni líta út núna á næstunni.
    Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta frv. en legg höfuðáherslu á það að í allri endurskoðun um þetta verði kastað burtu þessu kerfi sem ríkt hefur varðandi skipan í bankastjórastöður og reyndar ekki bara um Seðlabankann heldur um aðra banka einnig.