Seðlabanki Íslands

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 14:53:00 (1106)

[14:53]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vegna þess að ég veit að hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson vill hafa það sem sannara reynist þá ætla ég að ítreka það sem ég hef áður lýst hér og til að fyrirbyggja að hv. þm. blandi saman með hvaða hætti ég vann að þessu máli og það sem gerðist svo á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Eins og ég hef lýst hér hefur það verið afstaða Alþb. frá því í janúar 1991 að það ætti ekki að ráða í þessar lausu stöður í Seðlabankanum meðan endurskoðun laganna um hann færi fram. Ég þarf ekki að ítreka það frekar, ég lýsti þeim bókunum og þeim tillöguflutningi hér fyrr. Þegar það kom hins vegar upp fyrir u.þ.b. hálfum mánuði síðan í bankaráði Seðlabankans að bankaráðið ætlaði að fara að auglýsa þessa stöðu líka, þá hafði bankaráðsmaður Alþb., Geir Gunnarsson, samband við mig um það að kanna möguleika á því að það yrði látið bíða þar til endurskoðun á lögunum væri lokið. Það mál var síðan rætt í þingflokki Alþb. og algjör samstaða um að beita sér á ný fyrir því. Sá maður sem ég ræddi það fyrstan við var formaður Framsfl., hv. þm. Steingrímur Hermannson. Síðan kynnti ég þá hugmynd fyrir hæstv. forsrh. og það sjónarmið jafnframt að það væri vilji okkar að það næðist breið samstaða um málið. Hæstv. forsrh. tók sér frest, tilkynnti mér síðan sl. mánudag að þeir væru jákvæðir í málinu en bað um það að ég ræddi það ekki við neinn næstu daga nema bankaráðsmann Alþb., Geir Gunnarsson, og ég varð að sjálfsögðu við þeirri ósk vegna þess að að mínu viti var mikilvægast að sem breiðust samstaða skapaðist um málið. Það var auðvitað fyrst að vita hvort ríkisstjórnarflokkarnir væru tilbúnir í það og ef svo væri að ræða þá frekar við aðra í stjórnarandstöðunni. En síðar varð ekkert úr því vegna þess að ríkisstjórnin kaus að flytja frv. sjálf án þess að ræða málið nánar við aðra flokka í þinginu. Og það hef ég sagt og hef sagt og get sagt enn að ég tel að hafi verið óheppileg vinnubrögð.