[15:49]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt í tilefni af orðum hv. þm. Svavars Gestssonar hér áðan í garð meiri hluta menntmn. að ég rifji aðeins upp forsögu þessa máls. Eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom fram í júlí sl. hafði fulltrúi stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, samband við mig og óskaði eftir því að það yrði haldinn fundur í menntmn. um skýrsluna. Það er rangt, alrangt að ég hafi hafnað þeirri beiðni. Það stóð hins vegar þannig á á þeim tíma að þá voru þingmenn í sumarleyfi þannig að það gafst ekki færi á því að halda fund í júlí eða ágúst. Einnig taldi ég að ekki væri heldur um mjög brýnt eða aðkallandi mál að ræða sem ekki gæti beðið nokkuð eftir því að við færum yfir það.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hafði síðan samband við mig aftur um mánaðamótin ágúst/september og einnig þá voru forföll hjá nefndarmönnum í menntmn. þannig að ekki gafst kostur á því að halda fund þá og þegar svo var liðið á sumarið taldi ég að við gætum látið þetta mál bíða þangað til þingið kæmi saman vegna þess að það væri ekkert í þessu máli sem kallaði á að það bæri að kalla saman sérstakan fund og án þess að nefndin væri kannski fullskipuð.
    Einnig vil ég að það komi fram að áður en haft var samband við formann nefndarinnar las formaður það í blöðunum að það væri krafist fundar í menntmn. og það liðu nokkrir dagar frá því að þær blaðafregnir komu þangað til stjórnarandstaðan sá ástæðu til þess að hafa samband við formann nefndarinnar. Það er þess vegna ekki um það að ræða að því hafi verið hafnað af formanni menntmn. að halda fund um þetta mál. Það má hins vegar auðvitað deila um það hvort málið hafi verið aðkallandi eða ekki og um það erum við einfaldlega ekki sammála.
    Ég vil líka rifja það upp að menntmn. átti enga aðild að því að biðja um þessa skýrslu. Það var fjárln. sem bað um hana og þetta mál kemur þá til hennar og er á hennar forræði. Fjárln. afgreiddi þetta mál frá sér 8. júlí og þar inni voru fulltrúar stjórnarandstöðunnar og vil ég leyfa mér að lesa þá ályktun sem fjárln. samþykkti á sínum fundi 8. júlí, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárhagsleg samskipti Hrafns Gunnlaugssonar, framkvæmdastjóra sjónvarpsins, við ýmsa opinbera aðila og fleiri kemur fram m.a. að stofnunin telur ekki að við nefnda athugun hafi neitt komið fram sem bendir til þess að hann hafi brotið af sér í opinberu starfi eða dregið sér fé. Hins vegar koma fram í skýrslu stofnunarinnar alvarlegar athugasemdir varðandi verklag þeirra opinberu sjóða sem veita framlög til innlendrar kvikmyndagerðar. Sérstaklega er bent á hættu á hagsmunaárekstrum þeirra aðila sem að afgreiðslu mála koma.
    Í ljósi þeirra upplýsinga er koma fram í nefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar beinir fjárln. því til menntmrh. að hann beiti sér fyrir heildarendurskoðun á lögum um kvikmyndamál, svo og ákvæðum laga um Menningarsjóð útvarpsstöðva. Við þá endurskoðun sé tekið m.a. mið af þeim upplýsingum og athugasemdum sem fram koma í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar.``
    Það var ekkert nýtt sem kom fram á fundi menntmn. með Ríkisendurskoðun sem kallaði á frekari skoðun menntmn. og meiri hluti menntmn. er í fullum rétti til að hafa þá skoðun að ekki sé tilefni til að fjalla frekar um þessa skýrslu þar inni og er einnig í sínum fulla rétti að afgreiða málið með þeim hætti sem gert var í menntmn.