[15:55]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hv. 18. þm. Reykv. óskaði eftir að hér yrði rædd og hefur reyndar verið rakið að beðið hefur verið um að ræða í menntmn. Ég hefði talið miklu eðlilegra að menntmn. hefði fjallað um þessa skýrslu og farið ofan í og fengið þá væntanlega svör við ýmsum spurningum sem hér hafa verið lagðar fram en eins og hæstv. menntmrh. sagði voru þær að því er hann taldi um 30, en þær eru 20 hér á blaði því sem ég hef, 21, en auk þess eru margar undirspurningar ( Menntmrh.: Þær eru í mörgum liðum.) þannig að ég held að það sé ábyggilega síst oftalið að þær séu 30, það séu miklu fleiri sem vakna í raun í framhaldi af þessum spurningum sem hér eru lagðar fram.
    Hæstv. menntmrh. talaði um að umræður um þessi mál væru ómálefnalegar. Ég veit ekki betur og hef ekki heyrt annað en þetta hafi verið mjög málefnalegar umræður og allar þær spurningar sem hv. 18. þm. Reykv. setur hér á blað eru ákaflega eðlilegar í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar ( Menntmrh.: Ég sagði til þessa.) til þessa, mér þykir mjög vænt um að heyra það vegna þess að ég tel að umræðan hafi verið mjög málefnaleg og raunverulega bráðnauðsynleg en hún hefði kannski ekki þurft að fara fram hér í þessum þingsal með þeim hætti sem hér er gert. Ég hefði talið miklu eðlilega að menntmn. hefði farið yfir málið og síðan hefði e.t.v. komið einhver atriði hér til umræðu ef menntmn. hefði sýnst svo eða aðilum innan menntmn.
    Auðvitað er menntmn. í fullum rétti til að taka sínar ákvarðanir hverjar svo sem þær eru en það er spurning hvort maður er sammála þeirri niðurstöðu sem meiri hluti menntmn. kemst að, þ.e. að hafna því að farið sé yfir þessi atriði sem hér eru dregin fram. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið miklu eðlilegra að það hefði verið gert eins og ég hef sagt, að menntmn. hefði gert það, hefði farið yfir þessi mál og fjárln. auðvitað gerði það einnig og mér þykir það mjög eðlilegt en það eru svo veigamikil atriði í þessari skýrslu sem tengjast menntmn. beint. Þess vegna tel ég eðlilegt að menntmn. fjalli um málið og ekkert óeðlilegt samkvæmt þingsköpum að hún geri það.
    Hæstv. ráðherra talaði hér um myndirnar, þessar sem keyptar hafa verið og upplýsti að Námsgagnastofnun hafi ekki fengið þær afhentar en lagði áherslu á að það væri að hans mati mjög nauðsynlegt að nemendur og þá væntanlega grunnskólanemendur og jafnvel framhaldsskólanemendur fengju kennslu í íslensku myndmáli. Það má vel vera að það sé alveg rétt. En ég spyr sjálfa mig að því: Er það nú það sem við þurfum helst í íslenskum grunnskólum og framhaldsskólum núna? Er það einmitt það brýnasta sem fyrir þarf að taka í menntakerfinu að láta fólk horfa meira á bíó- eða vídeómyndir? Ég segi nei, því að eitt aðalvandamál finnst mér meðal ungmenna og ungs fólks, og það sem kennarar kvarta sérstaklega yfir, er að fá fólk til þess að lesa meira en ekki til þess að horfa meira á kvikmyndir og sérstaklega ekki á sjónvarp og vídeó þannig að ég set stórt spurningarmerki við þá stefnu sem hæstv. menntmrh. virðist hér vera að taka upp að það þurfi að auka það meðal íslenskra ungmenna að horfa á bíómyndir og sjónvarp. Það er ýmislegt annað sem ég hefði viljað leggja miklu meiri áherslu á heldur en það.
    Hæstv. ráðherra bar einnig saman þessar ofbeldiskvikmyndir sem hér hafa verið til umræðu. Nú tek ég það fram að ég er ekki búin að sjá þessa ofbeldiskvikmynd sem er hér til umræðu þannig að ég verð bara að hafa orð annarra fyrir því að það sé um að ræða eða bera það saman við kennsluefni sem fram kemur í ofbeldi. Ég er ekki heldur að mæla með bókmenntum þar sem ofbeldi kemur fyrir en ég vil þó benda á að að mati þeirra sem vit hafa á, sálfræðinga og annarra, þá hafa kvikmyndir allt, allt aðra skírskotun til barna og ungmenna en prentað mál. Að sjá kvikmyndir með ofbeldi í hefur miklu sterkari og meiri áhrif á ungt fólk heldur en að lesa það í bókum. Ég vil af því tilefni sérstaklega lýsa andstöðu minni við að það sé hægt að bera það saman og að það sé eðlilegt að slíkar myndir séu bornar á borð í skólum fyrir ungt fólk.
    Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en lýsi því enn og aftur yfir að ég tel nauðsynlegt að það sé tekið á þeim málum sem Ríkisendurskoðun tekur fram í sinni skýrslu hérna og tel raunar alveg nauðsynlegt að skýrslu Ríkisendurskoðunar sé fundinn eðlilegur farvegur innan þingsins, þ.e. að nefndirnar taki upp málin með meira afgerandi hætti en hingað til hefur verið gert og fylgist með því hvort eftir þeim ábendingum sem Ríkisendurskoðun setur fram í sínum skýrslum sé farið.