[16:21]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Hæstv. forseti. Þetta mál er mér skylt að því leyti að ég lýsti því yfir á Alþingi 20. apríl sl. að ég mundi beita mér fyrir því í fjárln. að nefndin hefði frumkvæði að því að úttekt yrði gerð á viðskiptum og samskiptum Hrafns Gunnlaugssonar og opinberra stofnana. Ég taldi afar mikilvægt að Alþingi hefði frumkvæði hvað varðaði slíka úttekt og að umræður um þetta mál mættu fara fram á þinglegum grundvelli. Og 21. apríl kom fjárln. saman og þar varð niðurstaða um að óska eftir því við Ríkisendurskoðun að fram færi úttekt á þessum samskiptum.
    Það olli þó vonbrigðum á þeim fundi að ekki varð alls kostar samkomulag um þá niðurstöðu. Stjórnarandstaðan gat ekki átt heilan hlut að þeirri beiðni sem meiri hluti stjórnarliða varð síðan einn að standa að til Ríkisendurskoðunar. Ég skildi aldrei þá í hverju sá ágreiningur var fólginn og kannski ekki rétt að rifja það upp nú, en tel þó innlegg inn í þetta mál af því að hér hefur það ekki komið til umræðu heldur þvert á móti.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að stjórnarandstaðan í fjárln. ekki hótaði heldur fullyrti í bókun að undirritaðir nefndarmenn mundu taka málið upp að nýju samkvæmt ákvæðum 26. gr. þingskapa Alþingis þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar lægju fyrir. Og svo lágu niðurstöður Ríkisendurskoðunar fyrir. En þá varð afstaðan allt önnur vegna þess að þá varð samkomulag og samstaða í fjárln. líka með þeim sem áður höfðu fullyrt að þeir ætluðu að taka málið aftur upp í fjárln. á grundvelli 26. gr. þingskapa. Það varð samstaða með þeim þegar skýrslan kom um sérstaka bókun sem hér hefur nú þegar verið lesin. Slíka samstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu í fjárln. er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að þingflokkarnir allir standi að þeirri bókun ef mark er hægt að taka yfir höfuð á fulltrúum flokka í nefndum nema fulltrúar flokka í nefndum tali eitt hér og annað þar. Þetta tel ég mjög mikilvægt að leggja áherslu á.
    Hvað varðar efnisatriði málsins, þá tel ég brýnast af öllu og legg áherslu á það sem fram kemur í bókun fjárln. sem algert samkomulag varð um 8. júlí þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar hafði verið rædd í fjárln., en þar segir:
    ,,Í ljósi þeirra upplýsinga er koma fram í nefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar beinir fjárln. því til menntmrh. að hann beiti sér fyrir heildarendurskoðun á lögum um kvikmyndamál, svo og ákvæðum laga um Menningarsjóð útvarpsstöðva. Við þá endurskoðun sé tekið m.a. mið af þeim upplýsingum og athugasemdum sem fram koma í fyrrnefndri skýrslu.``
    Þetta er kjarni málsins og ég vona að þessi endurskoðun sé hafin. Ef ekki, þá verði hún hafin strax og tekið verði tillit til þeirra upplýsinga og athugasemda sem í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar komu fram. Þetta var vilji fjárln. á þeim tíma þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar var rædd og ég trúi að sé enn.