Stjórnmálafundur í Þingvallabænum

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 13:45:10 (1133)

[13:45]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið til að gera athugasemd um málefni sem Alþingi varðar. Sennilega hefði ég átt að gera þessa athugasemd í upphafi fundar áður en gengið var til atkvæðagreiðslna. Athugasemd mín lýtur að því að í Morgunblaðinu laugardaginn 23. okt. sl. birtist auglýsing undir fyrirsögninni ,,Sókn fyrir Suðurlandskjördæmi``. Þetta er fundalota sem hv. alþm. Árni Johnsen stendur fyrir. Það er ekki nema gott að hv. þm. standi fyrir fundalotu í kjördæmi sínu en einn fundastaðurinn vekur athygli mína. Á fullveldisdaginn 1. des. er auglýstur opinn fundur um atvinnumál, hagræðingu og bjartsýni og hann verður í Þingvallabænum á Þingvöllum miðvikudaginn 1. des. kl. 20.30. Ræðumenn verða Salome Þorkelsdóttir alþm., forseti Alþingis, og Árni Johnsen alþm.
    Ég verð að segja að mér finnst ekki smekklegt að boða til stjórnmálafundar í Þingvallabænum með þessum hætti. Nú veit ég ekki hvaða heimildir hv. þm. eða forseti Alþingis hafa á Þingvallabænum til fundahalda. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hann telji viðeigandi að efna til svona stjórnmálafundar í Þingvallabænum á fullveldisdaginn og kanna það jafnframt hvort öðrum þingmönnum Suðurlandskjördæmis t.d. yrði lánaður Þingvallabærinn til svona fundahalda ef þeir vildu halda þar fund á fullveldisdaginn eða þjóðhátíðardaginn eða einhvern annan hentugan dag.