Stjórnmálafundur í Þingvallabænum

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 13:48:21 (1135)

[13:49]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég veitti því að vísu athygli eins og ég hef oft gert áður að hv. 3. þm. Suðurl. er ekki í salnum en ég sá mér ekki fært að bíða í voninni eftir að hann kæmi hingað enda átti ég ekki erindi við hann, ég átti erindi við forseta Alþingis. Ég er ekkert að lá hv. þm. Árna Johnsen þó að hann boði til funda í sínu kjördæmi og fái til þess flokksbræður sína, ég er að gera athugasemdir við fundarstað, ég er að gera athugasemd við fundartíma, þ.e. dagsetningu fundarins og ég er að spyrja um álit forseta Alþingis á þessari notkun á Þingvallastað og þessum degi.