Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 14:04:57 (1140)

[14:04]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er í gildi heimildarákvæði í íslenskum lögum sem felur sveitarstjórnum ákvörðunarrétt í þessum efnum. Nú hefur hv. 4. þm. Norðurl. e. komist að þeirri niðurstöðu að víða séu sveitarstjórnir þannig skipaðar að slíkir vitleysingjar sitji í þeim að það sé ekki við það búandi. Það er út af fyrir sig ærið umhugsunarefni. Ef það er nú tilfellið að slíkir vitleysingjar sitji í þessum sveitarstjórnum að það sé ekki við það búandi þá er spurning hvort það sé ekki á öðrum sviðum líka sem þeir valdi óskunda og einfaldara mál að setja þá lagasetningu um að þeir verði bara allir látnir víkja og banna að þeir verði endurkjörnir í sveitastjórnir.
    Þetta er nefnilega dæmi um það þegar menn una ekki valddreifingu, þegar menn una ekki valddreifingu í landinu. Menn una því ekki að sveitastjórnirnar hafi ákveðið vald. Héðan skal valdið koma, héðan skal drottnað, miðstýringin skal lifa.
    Það er auðvitað ákaflega einfalt að standa upp og segja: þetta hefur kostað þetta eða hitt. Hvað er búið að byggja margar einbreiðar brýr í þessu landi sem hafa kostað dauðaslys? Hvað er búið að byggja margar slíkar brýr? Hvað er búið að leggja víða einbreitt slitlag á vegi sem hafa kostað dauðaslys? Eru menn reiðubúnir að taka á þessu öllu og á þá að taka þessa menn fyrir? Það er nú einu sinni svo að það voru hvorki hross né kýr sem tóku þær ákvarðanir. Ég held að það sé ærið umhugsunarefni ef við förum í að skrásetja dauðaslysin sem orðið hafa í umferðinni og flokka það hverjir bera ábyrgðina þá sé nú hætt

við að það verði komið við kaunin á sumum og e.t.v. fyrrv. samgrh. þessa lands. Það er nefnilega svo að umferðin hefur kostað ærið mikið en allt til þessa hafa menn viljað líta svo á að gáfaðri aðilinn, þ.e. mannskepnan, hlyti að bera ábyrgðina. Það hlýtur þá að vera á breiðum grunni sem þannig er litið á þetta mál.
    Ef þetta er aftur á móti skoðað út frá jafnræði þegnanna þá er það ærið umhugsunarefni að víða hefur Vegagerðin látið girða meðfram vegum. En samt er staðan sú að bændur þessa lands hafa látið girða meðfram vegum mjög langa kafla sem Vegagerðin hefur ekki borgað þrátt fyrir það að þeir eiga sama kröfurétt á greiðslu fyrir þær girðingar eins og hinir sem eru búnir að fá greitt. Og hverjar voru tillögur hæstv. samgrh. á sínum tíma um að það bæri að skipta þannig fjármagni til vegamála að það yrði gert upp við þessa bændur sem búnir voru að girða og ekki fengu greitt? Er það í anda jafnræðis þegnanna sem sumum var greitt en öðrum ekki? Það er nefnilega orðinn ansi mikill munur í réttarstöðu manna ef sumum er ætlað að girða meðfram vegunum á eigin kostnað en öðrum er ætlað að fá þá peninga úr ríkissjóði eins og verið hefur.
    Mér finnst dálítið mikil sýndarmennska að svona tillöguflutningi. Það er látið í það skína að hér sé risinn upp friðarsinni sem boði hina einu réttlátu lausn þessara mála. Ég hygg líka að það sé ærið umhugsunarefni hver er staða eignarréttarins í landinu. Annars vegar eru menn að leysa til sín lönd í kringum Reykjavík á svo svimandi upphæðir að maður stendur hissa og spyr hvort jarðvegurinn sé úr gulli þegar hæstu tölur eru nefndar. Hins vegar eru gefin lönd ef þau hafa verið eign kirkjunnar eins og gerðist með þá stóru gjöf sem Garðabær fékk.
    Í þriðja lagi: Hver er staða þeirra sem hafa látið land undir vegi úti á landi? Landið hefur verið tekið og nú eiga þeir að fara að borga stórfé með landinu. Ég sé ekki annað en að þeir menn verði að útbúa gjafasamning til íslenska ríkisins þess efnis að tveir millimetrar sitt hvoru megin við veginn verði gefnir ríkinu og þá geta þeir samkvæmt núgildandi lögum krafist þess að það verði girt á landamærum. Þannig hljóðar nú sá texti. Því ef tveir einstaklingar í þessu landi eiga lönd saman og una því ekki að ógirt sé á milli þá getur annar aðilinn krafist þess að það verði girt á landarmerkjunum og innan eins árs verður þá að fara í þær girðingarframkvæmdir samkvæmt íslenskum lögum eins og þau eru í dag. Sennilega gætu þessir bændur þá ekki brugðið til annars ráðs en að gefa svo sem tvo millimetra af þessu landi sitt hvoru megin við veginn til ríkisins til þess að þvinga fram girðingar á helmings kostnaði.
    Hún er nefnilega dálítið merkileg þessi staða og þessi krafa núna um að bændurnir eigi að fara að girða er á sama tíma og svo er sorfið að sauðfjárræktarsvæðum þessa lands að menn spyrja hvert stefni. Og formaður landbn. hefur óskað eftir því og nefndin öll að Byggðastofnun geri rannsókn og úttekt á stöðu svæðanna sem sauðfjárræktin er á. Ætli það séu ekki sömu svæðin sem búa við það að þar eru stór svæði meðfram vegunum ógirt? Ætli það mundi ekki taka í hjá sumum að fara að kosta þær girðingar sem hér er farið fram á að verði gerðar á sama tíma og aðrir hafa fengið girt á kostnað Vegagerðarinnar?
    Mig undrar það satt best að segja stundum hvað mönnum dettur í hug að einfalda þann málflutning sem settur er fram. Vissulega er rétt að það hafa orðið dauðaslys þegar keyrt hefur verið á hross. Ég veit ekki hvort það hefur orðið dauðaslys á Íslandi í árekstri við nautgrip. Það má vera að það hafi orðið einhvers staðar, ég veit það ekki. Hins vegar spyr maður sjálfan sig stundum: Voru þessir menn á eðlilegum hraða? Voru þeir á þeim hraða sem lög leyfa á viðkomandi svæði? Það skiptir kannski engu máli í viðhorfi sumra til þessa dæmis. Hitt veit ég að það er vafalaust auðvelt að þyrla því upp að menn séu með þessu móti að vinna hér stórkostlega að umhverfis- og öryggismálum í landinu. Ég býst við að það sé frekar auðvelt, það sé tiltölulega auðvelt að kveða niður að ríkið hafi verið að girða meðfram vegum á aðalþéttbýlissvæðunum en svo eigi bændur að gera það á eigin kostnað þar sem strjálbýlla er og sums staðar er það hreinlega ekki hægt. Það hagar nú einfaldlega svo til að það er ekki hægt að gera girðingar sem eru stórgripaheldar yfir veturinn, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

    Ég held að sú miðstýringarhugsun sem hér kemur fram, að ef sveitarstjórnir hafi ekki vit á því að gera það sem þær eiga að gera, að mati flm., þá eigi bara að breyta lögunum og setja allsherjarskyldu á. Mér finnst þessi hugsun út í hött, algerlega út í hött. Ég treysti sveitarstjórnarmönnum betur til að meta þetta með eðlilegum hætti. Hitt veit ég, að ef þessi lög verða samþykkt þá á það eftir að kosta málaferli sem varða stórar upphæðir í þessu landi, því að auðvitað er ekki ólíklegt að sumir muni krefjast þess að þeirra land verði tekið allt eignarnámi, þar sem nýting landsvæðisins undir beit sé ekki lengur til staðar innan viðráðanlegra kostnaðarmarka. Það er nú einu sinni svo að það er mikill munur á umferð eftir því hvar menn eru. Og dauðaslysin hefðu trúlega ekki orðið jafnmörg, ef það hefði verið samþykkt af þessari stofnun að gera upp við þá bændur sem eiga kröfur inni hjá Vegagerðinni vegna girðingarframkvæmda. Þá hefðu trúlega hinir farið af stað og girt meðfram veginum í von um að þeir fengju það þá greitt. En meðan þannig er staðið að málum, að samgönguráðherra eftir samgönguráðherra hefur fulltingi fjárln. til þess að framkvæma þetta á þann hátt að ekki sé gengið frá greiðslu á þessum hlutum, þá finnst mér flutningur eins og þessi jaðra við ósvífni, ég segi það alveg hreint út.