Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 14:23:18 (1145)

[14:23]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það var einu sinni karl fyrir norðan sem hét Sigurbergur. Hann var mikill dýravinur og ágætur hestamaður. Hann var líka mannvinur, þ.e. hann vildi öllum vel og hann hældi öllum mönnum ef hann hafði nokkurt tækifæri til þess. Hann bætti því samt gjarnan við þegar hann var búinn að hæla mönnum upp í hástert: ,,En hestamaður er hann ekki,`` svona aðeins á lægri nótum, náttúrlega að því undanskildu að þarna væri ekki um hestamann að ræða.
    Ég er hræddur um að þó að hv. 1. flm. sé allra góðra gjalda verður, þá mundi Sigurbergur flokka hann þannig, ef hann væri að hæla honum, hann mundi bæta við: ,,En hestamaður er hann ekki.`` Það er nefnilega ákaflega óheppilegt ef menn eru að rækta hross og ætla sér að ná einhverjum árangri í því, að ala þau upp í þröngum girðingarhólfum. Hrossum er í uppvexti mjög nauðsynlegt að hafa viðeigandi hreyfimöguleika, annars verður hrossið trunta, hvað sem það er vel gert í eðli sínu, vegna þess að íslenski hesturinn hefur mótast af þessu landi og hann þarf að hafa ákveðið svigrúm til þess að hreyfa sig. Sérstaklega er þetta mikilvægt með hross í uppvexti, annars verða þau kjarklaus og þeirra eiginleikar, fótfimi og aðrir eiginleikar, fá ekki að njóta sín.
    Þrátt fyrir að hv. þm. sé ekki hestamaður --- og ég er svo sem ekkert að gera neina kröfu til þess, ég veit að hann er af miklu sauðfjárræktarmannakyni og hefur vafalaust næman skilning á þörfum sauðfjár í uppvexti --- þá er hann hér að reyna að bæta úr vandamáli sem ég viðurkenni að er til staðar og viðurkenni ekki síður heldur en hv. flm. Það er mikið vandamál sem varðar umferðaröryggi og úr því verður að bæta. Ég tel hins vegar að ef menn líta á þetta sem umferðaröryggismál, sem mér finnst það vera og eigi að vera, þá sé ekki lögð hér til breyting á réttum lögum. Ég tel að það þurfi að breyta vegalögum og e.t.v. girðingarlögum líka þannig að stofnbrautir, þ.e. þeir vegir landsins þar sem umferðin er mest og hröðust, verði girtar með þeim hætti að búfé komist ekki á vegina. Það er alveg eins hægt að keyra út af og drepa sig eftir að hafa keyrt á kind eins og eftir að hafa keyrt á hross eða nautgrip. Það er nú reyndar sem betur fer mjög sjaldgæft að menn keyri á nautgripi, því þeir eru ekki í miklum mæli á þjóðvegum landsins. Ég tel sem sagt að það sé mjög brýnt að breyta vegalögum og jafnvel girðingarlögum líka þannig að tryggt verði að búfé komist ekki á vegina. Þetta verður ekki gert nema með því að Vegagerðin, sem er umsjónaraðili vegakerfisins, skerist í leikinn, girði meðfram stofnbrautunum og setji hlið á þvervegi og haldi girðingum við þannig að viðhlítandi sé.
    Hér er líka um tryggingarspursmál að ræða og eins og komið hefur fram þá getur sveitarstjórn sett bann við lausagöngu búfjár og margar sveitarstjórnir hafa farið þá leið. En ef búfé sleppur inn á veg þrátt fyrir bann sem reyndar alltaf getur komið fyrir meðan vegirnir eru ekki forsvaranlega girtir og þvervegir með viðeigandi hliðum og girðingarnar með eðlilegu viðhaldi, þá getur búfé sloppið inn á veg og þá er eigandi búfjárins skaðabótaskyldur sé bann við lausagöngu í gildi. Ekki aðeins að hann verði fyrir þeirri raun að hans búpeningur sé slasaður, sem í þessu lendir, og hann hafi af því væntanlega einhvern efnahagslegan skaða, sem ég vil nú kannski ekki gera mikið úr, heldur verður hann skaðabótaskyldur eða getur orðið skaðabótaskyldur vegna skemmda á ökutækinu sem ekið er e.t.v. af glannaskap og í langflestum tilfellum af glannaskap á skepnu hans.
    Ég tel að það sé brýnt að ráða bót á núverandi ástandi og ég vil leggja mitt af mörkum til þess. En það verður ekki gert nema með því móti að koma skepnunum út af helstu umferðaræðum og ökuvenjur landsmanna eru því miður með þeim hætti að það er óhjákvæmilegt að ná búfénu út af vegunum, en það tel ég að ekki verði gert með sæmilegum og skynsamlegum hætti nema með því að fá Vegagerðinni það verkefni til þess að vegur teljist fullbúinn og umferðarhæfur að hann sé afgirtur.
    Annað ætla ég ekki að segja um þetta frv. Ég er sammála hv. 1. flm. að hér er um vandamál að ræða og vandamál sem við eigum að leysa.