Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 14:33:12 (1147)

[14:33]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið, þær voru málefnalegar, a.m.k. tvær síðari ræðurnar sem fluttar voru. Hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 3. þm. Norðurl. e. fjölluðu á efnislegum forsendum um málið og ég met það. Að vísu var ég ákaflega sár við hv. 1. þm. Norðurl. v. að halda því fram að ég væri ekki hestamaður. Það er rétt að það komi hér fram að ég á bæði reiðhest, gamlan stólpagrip, og meira að segja bráðefnilega meri frá Flugumýri í Skagafirði, úr kjördæmi hv. þm., þannig að ég sit illa þegjandi undir því að hafa ekki áhuga á hestum ( Gripið fram í: Getur hann lýst sauðfjáreign sinni?) þó að hv. 1. þm. Norðurl. v. sé mér miklum mun frægari sem reiðmaður og hrossabóndi, ekki síst eigandi stóðhesta eins og kunnugt er.
    Það er svo rétt hjá hv. þm. og löngu viðurkennd staðreynd að á þroskaskeiðinu þarf ungviðið að hafa nægjanlegt rými til að hreyfa sig og stælast. Það er yfirleitt óhollt að alast upp í þröngum hólfum, bæði fyrir líkamlegan og andlegan þroska. Þeim framsóknarmönnum er hollt að minnast þess að þröng hólf eru varhugaverð yfir höfuð. ( PP: Ert þú ekki af þessum framsóknarmönnum?) Ég hef í öllu falli náð þetta langt á þroskabrautinni, hv. þm., sem er meira en sagt verður um suma sem hafa ekki komist yfir barnasjúkdóminn.
    En þetta snýst allt um það, hv. þm., að menn búi samkvæmt aðstæðum og hafi áhöfn á sínu búi í sambandi við aðstæður og landkosti. Mér fannst hv. þm. í raun og veru vera að mæla þeim búskaparháttum bót að menn héldu stórt stóð en ættu lítið land og yrðu þess vegna að sleppa því út úr girðingum þannig að það gæti gengið yfir á land nágrannanna og haft þar nóg rými. Hér er að sjálfsögðu ekki verið að fara fram á eða ætlast til þess að menn breyti á nokkurn hátt ráðsmennskunni á sinni jörð. Menn geta girt hana af alla saman stafnanna á milli og haft sinn búpening þar. Ef hún er hins vegar of lítil fyrir þá áhöfn sem á jörðinni er þá skapast þetta vandamál sem hv. þm. var að víkja að.

    Auðvitað er það alveg rétt að til greina gæti komið að taka á þessu vandamáli jafnframt eða eingöngu með breytingu annaðhvort á vegalögum eða umferðarlögum, en hér var valin sú leið sem ég held að sé nærtækust hvað þennan þátt málsins snertir, þ.e. lausagöngu stórgripanna. Ég er þeirrar skoðunar að lausaganga stórgripa, a.m.k. þar sem umferð er einhvers staðar nálæg, sé tímaskekkja, sé vitleysa. Það er augljóst mál að umferð á þjóðvegum eins og þeir eru orðnir í dag með 80--100 km hraða, ( Gripið fram í: Er það hraðinn?) lausaganga stórgripa á ekki heima við slíkar aðstæður. Það er fjarstæða að það skuli yfirleitt geta gerst að stórgripir séu að þvælast á vegum þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund og menn leyfa sér jafnvel að fara eitthvað upp fyrir það.
    Nú háttar svo til að á næsta ári er reiknað með því að þjóðleiðin norður í land, milli Reykjavíkur og Akureyrar, verði öll komin með bundnu slitlagi og umferðarhraðinn í samræmi við það og umferðarþunginn mjög mikill enda eru þau óhöpp sem á þessari leið verða út úr öllu korti. Varðandi það sem hv. þm. Páll Pétursson sagði um tryggingamál þá er það auðvitað alveg rétt að þessi réttarákvæði hafa áhrif á bótaskylduna en það er mat lögfræðinga sem ég hef rætt við að það muni einfaldlega reyna á þau ákvæði gildandi laga um heimild til að skipta tjóni og það verði verkefni dómstóla að úrskurða þá með hvaða hætti það skuli skoðast á grundvelli þeirra ákvæða sem gilda hverju sinni um lausagöngu eða takmarkanir á henni. Ég minni á að í gildandi umferðarlögum, ég hygg að það sé 88. gr., ef ég man rétt, er heimild til að lækka eða fella niður bætur ef sá sem fyrir tjóni varð var meðvaldur að því af ásetningi eða gáleysi. Þessu ákvæði gætu tryggingafélögin beitt eða vísað til þess og farið í það að láta reyna á að tjóni væri skipt eða deilt við slíkar aðstæður.
    Að öðru leyti tek ég undir það og ég met það sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni og Valgerði Sverrisdóttur sem hér töluðu áðan að þau eru því sammála að það þurfi að grípa til úrræða í þessum efnum. Þetta ástand gangi ekki eins og það er.
    Þá kem ég að lokum að máli hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar sem mér fannst ekki flytja hér jafnmerkilegt innlegg í umræðuna vegna þess fyrst og fremst að meginhluti af hans máli var ómálefnalegur og að verulegu leyti útúrsnúningar sem á ekkert skylt við efnislega og almennilega umræðu um svona mál. Ég geri að sjálfsögðu ekki kröfu til þess að allir séu mér sammála og er ekkert síður feginn því að heyra sjónarmið þeirra sem hafa aðrar skoðanir, en það er heldur lakara að vera að taka upp tíma þingsins í umræður um mál af þessu tagi með útúrsnúningum af því tagi sem hv. þm. fór með áðan.
    Auðvitað er það fjarstæða að halda því fram að ég og við flm. úr öllum flokkum, þar á meðal flokkssystir hv. þm., séum með þessu frv. að lýsa einhverju vantrausti á sveitarstjórnirnar í landinu. Hér er ósköp einfaldlega um það að ræða hvort það eigi ekki að setja almenna reglu um tiltekinn hlut í þágu almannahagsmuna og slysavarna í landinu. Auðvitað flokkast það ekki undir traust eða vantraust á sveitarstjórnum. Það má alveg með sömu rökum segja að það sé vantraust á sveitarstjórnum að leyfa þeim ekki að hafa sín umferðarlögin í hverju umdæmi og bara hver sinn hámarkshraðann eftir aðstæðum. Þetta er auðvitað þvættingur, hv. þm., og ekkert við því að segja ef það verður niðurstaða löggjafans að það sé rétt að mæla fyrir um svona hluti í lögum í þágu almannaheilla í landinu, þá snýst það ekki um trú eða vantrú á einhverjum einstökum sveitarstjórnum í landinu. Það er auðvitað fráleitt að halda slíku fram.
    Varðandi skógarferð sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson fór hér um einbreiðar brýr og einbreið slitlög og að mér skildist næstum að segja ábyrgð okkar lífs og liðinna samgönguráðherra á dauðsföllum í því sambandi, þá var það heldur ósmekklegur málflutningur satt best að segja. Ég kaus í minni framsöguræðu að vera ekki að draga slíka hluti með beinum hætti inn í rökstuðning fyrir þessari tillögu en auðvitað mætti gera það, og er hægt að gera það. Því miður þarf ekki langt að leita síðustu dæmanna um sorgleg slys og dauðsföll jafnvel af völdum árekstra milli bifreiða og stórgripa.
    En það er öllu skemmtilegra að reyna að ræða hlutina á hlutlægan hátt og halda slíkum tilfinningaatriðum utan við eins og kostur er og ég vísaði þess vegna í fylgiskjölin um það sem þar er á ferðinni. Sennilega veit hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson t.d. ekki að

á þremur árum, árunum 1990, 1991 og 1992, drápust 19 hross af völdum árekstra í umdæmi lögreglunnar á Blönduósi einu saman. Segir þetta ekki sína sögu um óþolandi ástand í þessum efnum? Það gefur auga leið að hross fellur ekki eða það þarf ekki að fella það nema um nokkuð harðan árekstur hafi verið að ræða. Staðreyndin er auðvitað sú að flestir sem fara oft milli þessara landshluta, Norðurlands og Suðurlands, upplifa það að rekast á eða komast í allt of náin kynni við stórgripi á vegunum. Sumar flutningabifreiðarnar sem ganga norður í land eru með sérstakar grindur framan á vatnskassanum til að hlífa bifreiðunum ef þær lenda í árekstri við stórgripi. Ósköp einfaldlega vegna þess að menn hafa á undanförnum árum trekk í trekk orðið fyrir stórtjóni af völdum þess að rekast á stórgripi á vegunum í náttmyrkri og blindu. Auðvitað getur þetta ekki gengið svona.
    Staðreyndin er sú að þorri sveitarstjórnanna í landinu hefur viðurkennt að þetta fari ekki saman, lausaganga stórgripa og umferð á vegum. Það mætti leyfa hv. þm. að heyra og kannski ekki annað betra við tímann að gera en að lesa það yfir hv. þm., a.m.k. hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, sem rakið er í fskj. II. um þetta mál. Með leyfi forseta, þá stendur þar t.d. að sveitarfélögin, Innri-Akraneshreppur í Borgarfjarðarsýslu hafi gert samþykkt um bann við lausagöngu hrossa, Eyjahreppur í Snæfellsnessýslu, sömuleiðis bann við lausagöngu hrossa, Reykholtshreppur í Borgarfjarðarsýslu, Andakílshreppur í Borgarfjarðarsýslu, Austur-Eyjafjallahreppur, Vestur-Eyjafjallahreppur og Ásahreppur í Rangárvallasýslu, Fljótshlíðarhreppur í Rangárvallasýslu, Hvolhreppur í Rangárvallasýslu, Djúpárhreppur í Rangárvallasýslu, Rangárvallahreppur í Rangárvallasýslu, Borgarneshreppur í Mýrasýslu, bann við lausagöngu hrossa í öllum hreppum í Norður-Ísafjarðarsýslu, bann við lausagöngu hrossa í öllum hreppum í Vestur-Ísafjarðarsýslu, Stafholtstungnahreppur í Mýrasýslu, bann við lausagöngu hrossa, Leirár- og Melahreppur í Borgarfjarðarsýslu, bann við lausagöngu hrossa, Reykhólahreppur í Austur-Barðastrandarsýslu, bann við lausagöngu hrossa, Kjalarneshreppur í Kjósarsýslu, bann við lausagöngu hrossa, Svarfaðardalshreppur í Eyjafjarðarsýslu, bann við lausagöngu stórgripa, Skarðshreppur í Skagafjarðarslu, bann við lausagöngu hrossa, Hvalfjarðarstrandarhreppur í Borgarfjarðarsýslu, bann við lausagöngu hrossa, Kjósarhreppur í Kjósarsýslu, bann við lausagöngu hrossa, Mýrahreppur í Austur-Skaftafellssýslu, bann við lausagöngu hrossa, Reykjahreppur í Suður-Þingeyjarsýslu, bann við lausagöngu hrossa, Kelduneshreppur í Norður-Þingeyjarsýslu, bann við lausagöngu hrossa, Miklaholtshreppur í Hnappadalssýslu, bann við lausagöngu nautgripa, til viðbótar áframhaldandi gildi banns við lausagöngu hrossa. Þetta kemur til viðbótar öllum þeim samþykktum um búfjárhald í kaupstöðum og fjölmörgum öðrum sveitarfélögum sem þegar voru í gildi og taka þá yfirleitt einnig til stórgripa. Það má heita undantekning ef það fyrirfinnst þá nokkurs staðar að ekki sé í gildi algjört bann við lausagöngu stórgripa í öllum kauptúnum og kaupstöðum. Og fjölmörg sveitarfélög sem eru í mesta strjálbýlinu hafa sömuleiðis sett slíkar samþykktir. Ég vek athygli á því að hér eiga einmitt í hlut í mörgum tilvikum afskekkt en víðlend sauðfjárræktarhéruð. Þar láta menn það ekki aftra sér í því að setja bann við lausagöngu stórgripa þó að engum manni dytti þar í hug að leggja til að allir þjóðvegir yrðu girtir af í sýslum eins og t.d. Strandasýslu og Norður-Þingeyjarsýslu, enda ekki um slíkt að ræða hér og það ekki á dagskrá.
    Ég held að það sé einmitt það sem þurfi að gera, þ.e að taka á þessum málum með einhverjum skynsömum og raunhæfum hætti þannig að menn komi til móts við kröfur um miklu róttækari aðgerðir sem yrðu landbúnaðinum dýrari og erfiðari. Þær liggja í loftinu, hv. þm., og ég held þess vegna að það sé vænlegt að fara leið af þessu tagi, skynsamlega og raunhæfa málamiðlunarleið sem tekur á stærsta vandanum en íþyngir þó ekki landbúnaðinum eða landeigendum með óheyrlegum kröfum sem hins vegar t.d. altækt bann við lausagöngu búfjár mundi gera.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson blandaði hér ýmsu fleiru inn í mál sitt, girðingum og réttarstöðu landeigenda og öðru slíku sem ég tel að grundvallist á misskilningi, það sé alveg augljóst mál að hér er ekki með neinum hætti um að ræða eignaupptöku eða íþyngjandi kvaðir af því tagi að menn gætu þurft að leita réttar síns eða hefðu ástæðu til að gera það í einhverjum tilvikum. Hér er eingöngu um það að ræða að tilteknar almennar reglur giltu í landinu sem hefðu að vísu áhrif á búskaparhætti en það er ekki með neinum hætti verið að grípa inn í ráðstöfunarrétt og nytjarétt eigenda á sínu eigin landi. Athugi hv. þm. það. Eða er það einhver réttur sem menn eiga kröfu til að láta búfé ganga á lausagangi utan sinnar eigin jarðar? Ég spyr. Og sé svo, þá bið ég menn að benda mér á þau lagaákvæði forn og ný sem gefa mönnum leyfi til þess að beita slíku. Það kann að vera að í einhverjum tilvikum séu slík ítök í gildi gagnvart almenningum eða afréttum, en ég hygg að það eigi sjaldan við í byggð og meðfram vegum, enda bendi ég á það ákvæði 2. málsl. 5. gr. að þar sem aðstæður leyfa þá gætu menn í þeim sveitarfélögum á grundvelli sérstakrar samþykktar leyft lausagöngu, enda væri tryggt að hún hefði ekki áhrif á umferð eða ylli ekki slysahættu þar. Ég hygg því að þegar hv. þm. athuga þetta betur sjái þeir að hér er ekki á ferðinni frv. af því tagi að ástæða sé til að taka því illa eða að það sé flutt af einhverjum fjandskap við landbúnaðinn nema síður sé. Það er og hefur verið um langt skeið mín sannfæring að eitt af því sem skynsamlegt væri að gera fyrir landbúnaðinn og bændur í landinu væri að ná tökum á svona málum, koma þeim í skikk vegna þess að nógu erfið er nú áróðursstaða greinarinnar fyrir þó að hún hafi ekki jafnframt á móti sér árekstra sem verða við aðra í landinu út af svona löguðu. En það er alveg augljóst mál að þarna er eitt slíkt tilvik á ferðinni sem ég held að mönnum væri fyrir bestu að reyna að taka á og leysa.
    Að sjálfsögðu er ég opinn og móttækilegur fyrir hugmyndum um að þetta megi reyna að gera að einhverju leyti með öðrum aðferðum og ef hv. landbn. til að mynda kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til að gera jafnframt eftir atvikum breytingar á vegalögum eða girðingarlögum og/eða umferðarlögum, þá finnst mér sjálfsagt mál að slíkt sé þá skoðað hér í þinginu. En hér er lögð til einföld og árangursrík aðferð að mínu mati til þess að stemma stigu við þeim vanda sem hvað mest stingur í augu í þessum efnum og alvarlegastur er, en það er óheyrilega mikil tíðni slysa sem verða vegna árekstra ökutækja og stórgripa.
    Ég vona að þetta hafi að einhverju leyti svarað þeim sjónarmiðum sem hér voru sett fram af hv. þremur ræðumönnum Framsfl. sem ég ítreka og endurtek að ég þakka fyrir þátttöku í umræðunni.