Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 14:55:04 (1149)

[14:55]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki nein deila um það milli okkar hv. þm. að æskilegast væri ef það væri framkvæmanlegt að hindra öll samskipti búfjár og umferðar með því að allir vegir í landinu væru afgirtir. En það er auðvitað langt í land að það sé raunhæfur kostur og ég leyfi mér nú að draga í efa að það sé mikil ástæða til að fara út í svo róttækar aðgerðir gagnvart t.d. afskekktustu sauðfjárræktarhéruðum landsins þar sem umferð er tiltölulega lítil, víðlendi mikið og með vísan til þess að slys eru yfirleitt ekki alvarleg þó að um einhverja árekstra verði að ræða milli bíla og sauðfjár. Ég held að það væri nær lagi að gera eins og sums staðar erlendis er gert. Þar eru sérstök aðvörunarskilti þegar komið er þar á vegum, út fyrir afgirt svæði upp á fjalllendi, að menn megi eiga von á dádýrum eða einhverju öðrum slíku við vegina, þá er það gefið til kynna með einhverjum sérstökum aðvörunarskiltum.
    Varðandi skiptingu tjóna, þá er a.m.k. alveg ljóst að það sem þar er m.a. haft í huga er að það geta komið upp þau atvik þar sem sannanlegt þykir að báðir aðilar beri nokkra ábyrgð, t.d. í þessum tilvikum sem nefnd voru af hv. þm. ef girðingar falla nú niður í stórveðri að vetrarlagi og búpeningur sleppur þannig út, þá er það að sjálfsögðu ekki um vanrækslu bónda að ræða heldur óviðráðanlegar orsakir og atvik sem koma upp. Bann við lausagöngu stórgripa leysir ekki bílstjóra undan þeirri skyldu að sýna aðgát í umferðinni. Þeir eiga eftir sem áður að aka með varúð og bera þess vegna að sjálfsögðu alltaf nokkra

ábyrgð ef árekstur verður. Við svona aðstæður getur vel komið til greina að báðir teljist bera nokkra ábyrgð og þá sé tjóninu skipt.
    Sá árstími sem hér er erfiðastur viðfangs er á haustin þegar er að skyggja, skammdegið að ganga í garð en enn er dimmt yfir og enginn snjór á jörðu og ef menn skoða þessa skýrslu sjá þeir að það er langalvarlegasti tíminn í þessu sambandi. Þá á mönnum ekki að vera neitt að vanbúnaði að halda uppi girðingum og það er ekki fyrr en síðar á vetrinum sem oftast eru sérstakir erfiðleikar vegna snjóþyngsla í því sambandi. Og auðvitað er vel hugsanlegt að taka á slíkum tilvikum séstaklega, t.d. með breytingum á umferðarlögum sem kveða þá skýrar á um það hvernig fara skuli með ábyrgð og tjón þegar það hlýst af völdum slíkra aðstæðna sem upp kunna að koma.