Þingfararkaup alþingismanna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 15:23:14 (1158)

[15:23]
     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum til laga sem birt eru á þskj. 46 og 47 og ég flyt ásamt þingkonunum Margréti Frímannsdóttur og Valgerði Sverrisdóttur. Annars vegar er um að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna, nr. 75/1980, og hins vegar frv. til laga um breytingu á lögum um laun starfsmanna ríkisins.
    Ástæðan fyrir því að ég tala fyrir báðum frumvörpunum samtímis er sú að bæði fela í sér sama efnisatriðið en það lýtur að biðlaunarétti þingmanna og ráðherra.
    Frv. til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup tekur svo að auki á þeim augljósa galla á núgildandi lögum að þar er hvergi minnst einu orði á rétt þingmanna til fæðingarorlofs. Í 1. gr. frv. er því lögð til breyting á 7. gr. laganna, en í þeirri grein er kveðið á um rétt þingmanna sem hverfa tímabundið út af þingi til þingfararkaups. Í greininni er kveðið á um að fjarvistir af tvennum toga geti réttlætt að þingmaður haldi þingfararkaupi og öðrum greiðslum tengdum þingsetu. Í fyrsta lagi ef þingmaður er að gegna öðrum störfum á vegum ríkisstjórnarinnar eða sem fulltrúi Alþingis og í öðru lagi ef þingmaður er fjarverandi vegna slyss eða veikinda. En síðan segir í 3. mgr. greinarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Nú er þingmaður forfallaður af öðrum ástæðum en getur í 1. og 2. mgr. og varamaður tekur sæti hans á þingi, og missir hann þá þingfararkaups svo og annarra kjara þann tíma sem hann er fjarverandi.``
    Tæplega geta barneignir flokkast sem störf á vegum ríkisstjórnarinnar eða Alþingis, jafnvel þó að þingmenn eigi hlut að máli, og sem betur fer eru þær yfirleitt hvorki slys né veikindi. Af þessum ályktunum leiðir að þingmenn eiga strangt til tekið ekki sama rétt og annað vinnandi fólk til greiðslna í fæðingarorlofi. Í rétt tæplega 120 ára sögu endurreists Alþingis hefur það eftir því sem ég best veit aðeins gerst þrisvar að þingkona hafi tekið sér tímabundið leyfi frá störfum Alþingis vegna barnsburðar. Þær konur sem hér um ræðir eru þær Ragnhildur Helgadóttir, Kristín S. Kvaran og Valgerður Sverrisdóttir, virðulegur forseti okkar þessa stundina, en hún er einmitt einn flm. frv.
    Í þessum þremur tilvikum mun Alþingi hafa séð sóma sinn í að leysa málin þannig að þessar konur sættu ekki lakari kjörum en aðrar vinnandi konur í landinu. Ekki er mér kunnugt um að feður á Alþingi hafi farið fram á orlof frá þingstörfum í tengslum við barneignir, en eins og lögum er nú háttað í landinu eiga foreldrar rétt á að skipta með sér fæðingarorlofi. Það skal þó tekið fram að fjmrn. hefur neitað að viðurkenna rétt feðra í þjónustu ríkisins til greiðslna í fæðingarorlofi og um það var sérstök umræða hér ekki alls fyrir löngu.
    1. gr. frv. sem ég mæli fyrir tekur bæði á fæðingarorlofi kvenna og karla á Alþingi. Þó er gerður sá munur á að þingkonur eigi rétt á sex mánaða fæðingarorlofi en karlar eins mánaðar. Í greininni er þessi réttur tengdur þeim almenna rétti sem gildir með þeim hætti að vísað er til 2. gr. laga um fæðingarlof. Með öðrum orðum, ef hinn almenni réttur til fæðingarorlofs breytist, ná þær breytingar jafnframt til þingmanna. Þá á það ákvæði 2. gr. fæðingarorlofslaga líka við um þingmenn þar sem segir með leyfi forseta:
    ,,Skipti foreldrar með sér fæðingarorlofi verður sameiginlegt orlof þeirra aldrei lengra en segir í 1. mgr.`` þ.e. sex mánuðir í dag.
    Eins og sjá má er gerður talsverður greinarmunur á rétti karla og kvenna í þessu frv. og var það gert vegna eðli málsins. Það kann hins vegar vel að vera að það sé ástæðulaust að gera þennan skýra mun í lagatexta, það sé í framkvæmdinni sem munurinn ráðist.
    Sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar getur að sjálfsögðu skoðað mismunandi útfærslur en eftir sem áður tel ég að tvennt verði að vera skýrt: Í fyrsta lagi að þingkonur eigi rétt á sex mánaða fæðingarorlofi á launum. Í öðru lagi að réttur þingmanna sé sambærilegur við það sem gerist hjá öðru vinnandi fólki.
    Í 2. gr. frv. til breytinga á lögum um þingfararkaup alþingismanna er tekið á rétti þingmanna til biðlauna. Samkvæmt núgildandi lögum á alþingismaður rétt til biðlauna í þrjá mánuði eftir eins kjörtímabils þingsetu, en í sex mánuði hafi hann setið í 10 ár eða lengur á þingi. Þetta ákvæði má rekja til ársins 1978 en það ár voru fyrst samþykkt á Alþingi lög um biðlaun alþingismanna. Það sem fyrir löggjafanum vakti var greinilega að tryggja að alþingismenn nytu nokkurs konar uppsagnarfrests í starfi rétt eins og flestir aðrir launþegar í þjóðfélaginu. Kom greinilega fram í umræðum á Alþingi að þingmenn litu svo á að biðlaun væru til þess greidd að menn hefðu tíma og ráðrúm til þess að finna sér annað starf þegar þingsetu lyki. Þessu til staðfestingar ætla ég, með leyfi forseta, að grípa niður í nokkrar ræður sem fluttar voru hér á þinginu í nóvember og desember 1978 þegar til umfjöllunar var frv. til laga um biðlaun alþingismanna.
    Flm. frv., sem var þá í þingfararkaupsnefnd og sat í henni ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni, Geir Gunnarssyni, Ingvari Gíslasyni, Friðjóni Þórðarsyni og Árna Gunnarssyni, var Garðar Sigurðsson og hann sagði þegar hann mælti fyrir frv.:
    ,,Ástæðan til þess að við í þingfararkaupsnefnd flytjum nú þetta mál er sú að að undanförnu og þar á meðal á síðasta þingi komu þessi mál nokkuð til umræðu, hvort alþingismenn ættu að hafa nokkuð sem kallast gæti uppsagnarfrestur eins og flestir aðrir í þjóðfélaginu --- a.m.k. hafa mjög margir launþegar þetta nú þegar í samningum sínum.``
    Þarna talar hann sem sagt um uppsagnarfrest. Og Sverrir Hermannsson, sem einnig var flm. að þessu máli á sínum tíma, sagði þá:
    ,,Biðlaun eru ekki kaup. Biðlaun eru til þess greidd að mönnum gefist kostur á því að fá sér aðra vinnu til þess að framfleyta sér og sínum á. Þetta er eðli biðlauna. Og ég vil aðeins spyrja þá að því [þ.e. aðra þingmenn] hvort þeir hafi kynnt sér hvernig þessum málum er háttað almennt hjá launþegum þessarar þjóðar og einnig kynnt sér hvað barátta verkalýðshreyfingarinnar almennt snýst um í þessu sambandi.``
    Hann undirstrikar sem sagt einnig biðlaunaréttinn sem nokkurs konar uppsagnarfrest.
    Aðeins einn þingmaður lýsti á þessum tíma áhyggjum af því að frumvarpstextinn tæki ekki af öll tvímæli um að menn gætu ekki þegið biðlaun og aðrar launagreiðslur frá ríkinu á sama tíma. Þetta var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. En hann sagði m.a., með leyfi forseta:
    ,,Það væri hugsanlegt að leggja þann skilning í frv. eins og það liggur nú fyrir að menn gætu fengið laun greidd annars staðar, eins og ýmsir fyrrv. þingmenn fá nú, og jafnframt fengið greitt fullt þingfararkaup. Ég tel aftur á móti eðlilegt og rétt í alla staði að ef biðlaun eru á annað borð greidd þá sé tekið tillit til þess líkt og gert er nú hvort þingmenn eru í öðrum launuðum störfum, þótt það sé nú látið í hlut þeirra sem greiða þau laun, --- þannig sé komið í veg fyrir þann möguleika að menn geti verið á fullum tvöföldum launum við það að fá biðlaunin.``
    Því miður reyndist hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson þarna hafa nokkuð til síns máls

eins og dæmin sanna þó ekki séu þau mörg. Þannig tóku bæði Sverrir Hermannsson, sem þó var flm. þessa frv. á sínum tíma, og Albert Guðmundsson biðlaun frá Alþingi þó þeir færu til annarra og betur launaðra starfa hjá ríkinu. Í slíkum tilvikum eru biðlaun gróðavegur en ekki bætur fyrir fjárhagstjón.
    Arnmundur Backman hæstaréttarlögmaður skrifaði grein um biðlaun alþingismanna í Morgunblaðið 20. maí 1989 þar sem hann bendir á eðli biðlauna og segir, með leyfi forseta:
    ,,Eðli uppsagnarfrests er að tryggja starfsmönnum ákveðinn lágmarksfyrirvara á uppsögn úr starfi, gefa þeim kost á að fá sér aðra vinnu til að framfleyta sér og sínum. Til þess nota menn uppsagnarfrestinn.``
    Og svo segir hann síðar:
    ,,Það er meginregla hér á landi og studd fjölda dómafordæma að laun í uppsagnarfresti eru skaðabætur í þeim skilningi að frá þeim dragast þau laun sem starfsmaðurinn kann að vinna fyrir annars staðar á tímabilinu.`` Þá er hann að tala um eðli biðlauna sem launa í uppsagnarfresti.
    Og hann segir um biðlaunarétt þingmanna á þessum tíma sem er sá sami og er í dag:
    ,,Ef litið er til orðalagsins sjálfs er í fyrsta lagi ljóst að ekki er skylt að greiða alþingismönnum biðlaun. Þeir eiga rétt á biðlaunum samkvæmt orðanna hljóðan og það veltur því á mati og siðferði hvers og eins hvort hann gerir kröfur til biðlauna. Það virðist ljóst að alþingismaður sem krefur ríkissjóð um biðlaun á sama tíma og hann tekur við annarri og betri stöðu í þjónustu ríkisins hagnast á reglunni umfram aðra opinbera starfsmenn, ráðherra og forseta Íslands. Hann notfærir sér orðalag laganna og tekur laun úr opinberum sjóði án vinnuframlags, hvað svo sem menn vilja kalla slíkt.``
    Að lokum segir Arnmundur Backman í þessari grein sinni:
    ,,Mér virðist a.m.k. ljóst af greinargerð og umræðum um frv. að alþingismenn ætluðu alls ekki að skammta sér starfskjör og réttindi sem væru umfram það sem aðrir njóta.`` Eða eins og ég sagði hér áðan, hugmyndin var fyrst og fremst að þingmenn nytu uppsagnarfrests eins og annað vinnandi fólk.
    En þó það liggi ljóst fyrir hvað vakti fyrir löggjafanum þegar hann setti lögin um biðlaun þingmanna þá fennir í sporin. Umræður að undanförnu endurspegla að hugmyndir manna um biðlaunaréttinn eru komnar nokkuð á flot og virðist sú hugmynd harla útbreidd að þarna sé um nokkurs konar samningsbundin kjör að ræða sem menn eigi rétt á hvernig sem starfslok ber að.
    Það er mat flm. þessa frv. að tímabært sé að taka af öll tvímæli og kveða skýrar en nú er gert á um það hvenær þessi réttur verður virkur og hvenær ekki. Því er lagt til að inn í lögin um þingfararkaup komi ákvæði þess efnis að þingmenn sem afsali sér þingmennsku til að hverfa til annarra launaðra starfa eigi ekki rétt á biðlaunum. Gildir þá einu hvort þau störf eru í þjónustu ríkisins eða ekki.
    Þá er lagt til að inn komi ákvæði um að taki biðlaunaþegi stöðu í þjónustu ríkisins, stofnana þess eða fyrirtækja skuli biðlaunagreiðslur falla niður nema laun í nýju starfi séu lægri en sem þeim nemur. Í því tilviki skuli greiða launamismuninn til loka biðlaunatímans. Er þetta í samræmi við þá reglu sem gildir um biðlaunagreiðslur ráðherra sem og forseta Íslands.
    Víkur þá sögunni að frv. til laga um breytingu á lögum um laun starfsmanna ríkisins, þ.e. að ráðherrunum. Samkvæmt fyrrnefndum lögum eiga ráðherrar rétt á biðlaunum í sex mánuði ef þeir hafa gegnt ráðherraembætti í tvö ár samfleytt eða lengur. Ekkert er kveðið á um það í þeim lögum frekar en í lögum um þingfararkaup alþingismanna hvernig með skuli fara ef ráðherra afsalar sér embætti til að hverfa til annarra launaðra starfa. Flm. leggja til að á þessu verði gerð sams konar breyting og á þingfararkaupslögunum. Þá er í þessu frv. lagt til að réttur ráðherra til biðlauna taki nokkurt mið af því hversu lengi menn hafa gegnt ráðherraembætti. Eins og málum er háttað í dag eiga allir sem gegnt hafa ráðherraembætti í tvö ár samfleytt rétt á biðlaunum í sex mánuði. Leggja

flm. til að réttur til sex mánaða biðlauna myndist ekki fyrr en embætti hefur verið gegnt í a.m.k. fjögur ár. Hafi maður gegnt ráðherraembætti í 2--4 ár eigi hann rétt á þriggja mánaða biðlaunum. Er það reyndar skoðun flm. að þetta sé ríflegur réttur og ástæðulaus ofrausn að greiða mönnum sex mánaða biðlaun þó þeir hafi velgt ráðherrastóla um nokkurra missira skeið.
    Virðulegur forseti. Ég hef nú mælt fyrir þessum tveimur frv. og læt framsögu minni lokið en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og til meðferðar í hv. allshn.