Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 15:37:00 (1159)

[15:36]
     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég flyt á þskj. 154 till. til þál. um nýtingu síldarstofna. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Ragnar Arnalds.
    Tillögugreinin er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd til að móta stefnu um nýtingu síldarstofna við Ísland.
    Nefndin skal gera tillögur sem miða að því að auka nýtingu síldar til manneldis og nýta betur þá möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar sem felast í veiðum og vinnslu síldar.``
    Í greinargerð kemur eftirfarandi fram:
    ,,Síldin hefur um langa hríð verið einn af mikilvægustu fiskstofnunum við landið og stundum ráðið úrslitum fyrir afkomu þjóðarinnar.
    Síldveiðar eru nú um stundir ekki miklar en þó fer langstærsti hluti þeirrar síldar, sem leyft er að veiða, til mjölvinnslu. Mikil vinnslugeta liggur nú ónýtt í lokuðum verksmiðjum og vinnslustöðvum sem eru einungis nýttar að hluta. Því væri mögulegt að auka framleiðslu síldarafurða mjög mikið og með litlum fyrirvara.
    Þeir aðilar, sem unnið hafa síld til manneldis, hafa kvartað undan því að þeir fái ekki nægilegt hráefni á stundum til að vinna upp í þá samninga sem fyrir hendi eru. Taka þarf því til athugunar hvort leyfa eigi frjálsar veiðar, jafnvel allt árið, til vinnslu til manneldis og nota innan lands.
    Í ljósi reynslunnar af hömlulausum síldveiðum fyrri ára og affalla við stjórn á nýtingu annarra fiskstofna hlýtur að þurfa að taka til sérstakrar skoðunar hvaða veiðiaðferðir og veiðarfæri beri að leyfa við síldveiðar með það fyrir augum að trufla sem minnst hegðun síldarinnar, m.a. á hrygningarstöðvum.
    Þá ber að taka til athugunar hvort gefa eigi út sérstök leyfi til skipa sem hyggjast vinna síld til manneldis á hafi úti.
    Rússar hafa verið stærstu kaupendur okkar á síldarafurðum. Þeir hafa ítrekað óskað eftir því að fá að kaupa síld beint af veiðiskipum. Þeir hafa m.a. boðist til að greiða síldina með heilfrystum þorski úr Barentshafi. Vitað er að þeir hafa gert samning á undanförnum árum við t.d. Íra, Breta og Kanadamenn um slík viðskipti þar sem þeir hafa jafnframt skuldbundið sig til að kaupa jafnmikið magn unninna síldarafurða og þeir fá að kaupa beint af veiðiskipum. Neysla síldar er mikil í Rússlandi og full ástæða til að endurskoða þessi viðskipti nú. Þá þarf að leita leiða til að auka sölu frystrar stórsíldar sem hátt verð hefur fengist fyrir á Japansmarkaði.
    Nefndin þarf að taka til sérstakrar athugunar hvernig megi undirbúa mikla framleiðsluaukningu á síldarafurðum sem verður ef þær spár rætast að norsk-íslenski síldarstofninn nái þeirri stærð að hann fari á ný að ganga á miðin við Ísland.
    Öll vinna nefndarinnar, sem hér er lagt til að verði sett á stofn, hlýtur að hafa það að markmiði að nýta þá fjölmörgu möguleika til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar sem felast í nýtingu síldarstofnanna við Ísland.``
    Til viðbótar vil ég segja það, hæstv. forseti, að undanfarin mörg ár eða síðan síldarstofnarnir við Ísland hrundu þá hefur algjörlega verið farið eftir tillögum fiskifræðinga um uppbyggingu stofnanna. Það er nú svo komið að sumargotssíldin er talin vera í góðu jafnvægi og úr henni veiðum við á annað hundrað þúsund tonn á hverju ári. Síðustu fréttir sem við höfum fengið af framgangi norsk-íslenska síldarstofnsins eru þær að það muni jafnvel verða styttra í það heldur en menn hafa spáð fram að þessu að hann fari að ganga á Íslandsmið. Það er því full ástæða til að gefa gaum að þeim möguleikum sem felast í nýtingu síldarstofnanna og þó svo að við fengjum ekki meiri síld til vinnslu heldur en við höfum haft síðustu árin þá er greinilegt að við nýtum síldarstofnana mjög illa ef við berum saman þá atvinnusköpun og gjaldeyrisöflun sem fæst með því að nota síldina til manneldis eða í mjölvinnslu eins og við gerum mest af í dag.
    Ég vil vekja athygli á fylgiskjali sem er með þáltill. en í því eru upplýsingar frá síldarútvegsnefnd um síldveiðarnar og vinnsluna á árunum 1982--1983 og þar kemur fram m.a. að alls tóku 46 skip þátt í síldveiðunum á þeirri vertíð en það höfðu 85 skip aflahlutdeild við upphaf vertíðarinnar. Ef skoðuð er nánar þessi skipting þá höfðu 78 bátar og 7 loðnuskip aflahlutdeild af síld við upphaf vertíðarinnar en einungis 15 bátar tóku þátt í veiðunum. Öðru máli gegndi um loðnuskipin því að 31 loðnuskip tók þátt í veiðunum. Í töflu sem fylgir með kemur fram að úthlutað aflamark til bátanna var yfir 100 þús. tonn, eða 101.460 tonn, þ.e. rúmlega 92% af leyfðum afla. En loðnuskipin fengu aftur á móti úthlutað 8.540 tonnum eða 7,76% af leyfðum afla. Niðurstaðan varð hins vegar sú að bátarnir veiddu einungis 17% af leyfðum afla en loðnuskipin tæp 83%.
    Ég er að draga þetta fram vegna þess að þetta segir svolítið sína sögu um það hvað hefur verið að gerast í síldveiðunum. Það hefur meira og meira færst af veiðunum yfir til loðnuskipanna og í beinu framhaldi af því virðist hafa orðið erfiðara og erfiðara að nýta síldina til vinnslu til manneldis.
    Ég ætla að nefna fleiri tölur. Á síðasta síldveiðiári voru fryst 16.000 tonn af síld, 12.000 tonn fóru í söltun en 78.000 tonn fóru í bræðslu. Ef við skoðum þetta betur sjáum við að þetta hefur verið að versna á síðustu árum mjög hratt, þannig að ef við skoðum vertíðina 1986--1987 kemur í ljós að til frystingar fóru þá 17.300 tonn eða 26%, til söltunar fóru þá 35.000 tonn eða 54%, en í bræðslu fóru á þeirri vertíð 12.600 tonn eða 19% af því sem nýtt var af síldinni. En þá var leyft að veiða 65.000 tonn af síld.
    Á síðustu vertíð, vertíðinni 1992--1993, hefur þetta gjörsamlega snúist við. Frystingin hefur að vísu verið svipuð og áður 18.600 tonn eða 17,6%, söltunin er 10.900 tonn, hrapar og er einungis 10.900 tonn miðað við 35.000 tonn sem hún var á vertíðinni 1986--1987, en bræðslusíldin hefur aukist úr 12.600 tonnum í 78.000 tonn, eða upp í 72%, af því sem við nýtum af þessum síldarstofni. En það hefur verið leyft að veiða síðustu árin rúmlega 100.000 tonn. Á þessari vertíð, þeirri síðustu sem ég er hér að tala um, voru veidd 105.600 tonn.
    Þetta segir okkur að þarna er að halla á ógæfuhliðina. Auðvitað er það af mörgum ástæðum. Þar koma sölumálin mjög inn í dæmið en það er líka fleira. Ég held að það sé veruleg ástæða til að gefa gaum að kvótamálunum sem tengjast þessu. Ég var einmitt að lesa upp tölur um það hvernig kvótinn hefur færst á milli skipa til þess að menn átti sig betur á því hvað er þarna að gerast.
    Ég get ekki betur séð en að kvótamálin komi þessum hlutum þannig fyrir að það sé raunveruleg hvatning fyrir loðnuskipin að komast yfir þessa kvóta og að landa síldinni allri í bræðslu vegna þess að þá geta þau tekið þetta í einum eða tveimur förmum og selt þetta allt í einu. Þau þurfa ekki að hafa fyrir því að ísa þetta eða koma sér upp búnaði til að ísa þetta og koma því í vinnslu. Þeir sem hafa verið að vinna síld til manneldis hafa kvartað undan þessu. Þeir hafa bent á að það sé ástæða til að velta því fyrir sér hvort það

eigi að gefa veiðar frjálsar fyrir þá sem veiða síld til manneldis. Þannig mætti t.d. hugsa sér það að á meðan skip landar til manneldis meira en helmingnum af því sem það veiðir þá veiði það án kvótasetningar. Það verði síðan gefnir út kvótar þegar kemur fram á vertíðina og menn sjá hvernig hlutirnir standa til hinna ef menn telja rétt að veiða síld í bræðslu. Ég held að það sé engin ástæða til að halda að það sé ekki hægt að taka hvenær sem er á ekki mjög löngum tíma þá síld sem menn vilja láta veiða úr stofninum til bræðslu og það á að vera afgangsstærð í nýtingu síldarstofnanna.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt að taka á þessum kvótamálum með einhverjum hætti og þetta eignarréttarfyrirkomulag sem er á þeim almennt séð hentar mjög illa og er að verða til þess að það jafnvel virkar sem hvatning til þess að keyra síldina í bræðslu.
    Þá kem ég að markaðsmálunum. Ég tel að það sé full ástæða til þess að nefndin skoði þau mjög vel. Í því felst öll framtíð þessarar atvinnugreinar að það sé hægt að selja þessar afurðir. Það er mjög mikilvægt að rækta þá markaði sem við höfum haft og ég vil sérstaklega vekja athygli á Rússlandsmarkaðnum. Þó svo að efnahagslíf í löndum Sovétríkjanna fyrrverandi, sem keyptu af okkur síldarafurðir, sé mjög slæmt um þessar mundir, þá er engin ástæða til að halda að það geti ekki lagast aftur. Þess vegna er mjög mikilvægt að rækta þá markaði og halda áfram að reyna að selja síld til Rússa. Og ég tel fulla ástæðu til þess að ef þeir eru enn með óskir um það að fá að kaupa að einhverju leyti síld beint af veiðiskipum hér til vinnslu þá sé það skoðað gaumgæfilega hvort það getir orðið hluti af samningi. En auðvitað yrði þá að vera í þeim samningi innifalið að þeir keyptu líka af okkur unna síld.
    Þá hefur Japansmarkaður að vísu ekki verið mikill en þar er þó á ferðinni mjög hátt verð og gott verð fyrir stóra frysta síld og þar eru menn að tala um jafnvel tífalt verð á við það sem fæst ef menn leggja síldina í mjölvinnslu og það er full ástæða til að gefa gaum að því. Það var í Morgunblaðinu einmitt sagt frá því 4. nóv. að einn af frystitogurum, þ.e. Venus frá Hafnarfirði, væri að leggja af stað í ferð til síldveiða, til þess að finna síld í frystingu á Japansmarkað. Það er mjög áhugavert. Að vísu er þetta takmarkaður markaður við mjög stóra síld og það þarf auðvitað að flokka hana og ég veit ekki hvernig það kemur út um borð í svona skipi, en það er sjálfsagt að reyna þessa hluti.
    Eitt er það sem hlýtur að þurfa að skoðast mjög vel þegar menn velta fyrir sér að nýta þennan stofn, þ.e. síldina, það er umgangurinn um auðlindina og ég tel mikla ástæðu til þess að menn fari sér hægt og varlega. Nýlega hefur verið leyft að fara að veiða síld í troll, bæði verið að tala þar um botntroll og flotvörpu, og ég hef heyrt af því sagt að botnvarpan geti verið mjög varasöm við síldveiðarnar einfaldlega vegna þess að þar fari menn bókstaflega niður á hrygningarsvæði síldarinnar og hafi komið upp með loðin trollin af hrognum við þessar veiðar.
    Ég vil að lokum segja það, virðulegi forseti, að hér er auðvitað fyrst og fremst um atvinnumál að ræða. Við þurfum að skoða þetta mál með tilliti til þess að við getum nýtt þessa atvinnumöguleika okkar eins og mögulegt er. Það er mikil framtíð í síldveiðum og vinnslu síldarafurða hjá okkur. Við þekkjum það úr fortíðinni að það hefur gefið okkur stórkostlega möguleika. Ég tel að í framtíðinni séu ekki síður möguleikar í þessum iðnaði. Ég vonast til þess að þáltill. fái skjótan framgang í nefnd, en ég legg til að henni verði vísað til hv. sjútvn. og til síðari umr.