Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:16:01 (1163)

[16:16]
     Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mig langar til þess að biðja hæstv. sjútvrh. að svara því hvaða afstöðu hann hafi til þeirra hugmynda sem komu fram frá síldarútvegsnefnd alla vega og þá líklega þeim hópum sem hafa átt samráð við sjútvrn. um þessi mál á síðasta ári. En þar komu fram hugmyndir um það hvernig mætti auka síldveiðar til manneldis eða vinnslu síldar til manneldis. Þar var sett fram m.a. sú hugmynd að takmarka framsalið og aflahlutdeildina frá bátum til loðnuskipa.
    Önnur hugmynd var um að það sé útbúnaður í öllum skipum til að stunda síldveiðar þannig að þau geti skilað hluta aflans til manneldisvinnslu.
    Í þriðja lagi að skilyrði verði sett um að tilteknum hluta aflans, og því kom ráðherrann reyndar að hér áðan, yrði ráðstafað til manneldisvinnslu. Hann taldi greinilega á því ýmis tormerki. Það er auðvitað enginn vafi að upp koma ýmsar spurningar þegar á að fara að taka á málum með þeim hætti. En alla vega ættu hinir tveir möguleikarnir ekki að vera mjög erfiðir í framkvæmd ef það er til þess vilji að takmarka aflamarkið eða hreinlega, og þá vil ég bara spyrja beint að því, hvort hann taki þá undir það að til greina komi að síldveiðar til manneldis verði teknar út úr og leyfðar frjálsar.