Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:22:40 (1166)

[16:22]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er rétt að ítreka að það sem ég nefndi um 40 þús. lestir af óveiddum kvóta. Þar átti ég við það að þær lestir væru í höndum aðila sem einnig eru að vinna síld til manneldis og geta þess vegna tekið ákvarðanir vegna þess að þeir hafa ráðstöfunarrétt yfir þessum kvóta, til þess að vinna þann hluta síldarinnar ef það þykir hagkvæmt.
    Varðandi þá hugmynd að gera það að skyldu að aðgreina hluta aflans um borð á þann veg að um hann sé búið til þess að unnt sé að vinna þá síld til manneldis, þá hefur það verið skoðað býsna mikið. Ýmislegt mælir með því en fastmótaðar reglur þar að lútandi geta valdið miklum erfiðleikum. Eiga opinberir aðilar til að mynda, sem setja slíkar reglur, að tryggja mönnum það að þeir fái kaupendur að allri þeirri síld til manneldis

sem þannig er sérstaklega búið um? Ég held að það yrði býsna erfitt og ýmsum spurningum af þessu tagi yrði svarað því að í sumum veiðiferðum liggur beint við að það eru kaupendur að hluta aflans til manneldisvinnslu, í öðrum ekki. Það getur farið eftir því hvernig stendur á hverju sinni. Þess vegna hafa skoðanir á þessum hlutum leitt í ljós að það eru mjög mikil vandkvæði á því að rígbinda reglur af þessu tagi. En það er eðlilegt að þetta sé til skoðunar og umfjöllunar og ég ítreka það að ráðuneytið hefur sem sagt fyrir sitt leyti reynt að koma málum í þann farveg að þeir aðilar sem hér véla um, kaupendur og seljendur, ættu samtöl saman og reyndu sín á milli að finna þá lausn sem skynsamlegust er.