Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:32:19 (1169)

[16:32]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans og þær jákvæðu undirtektir sem mínar fyrirspurnir fengu. Ég vil aðeins benda á að það kynni að vera skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að huga að því að koma upp aðstöðu varðandi síldarsölu og jafnvel varðandi einhverja vinnslu á síld í Eystrasaltsríkjunum þremur, einhverju þeirra, Eistlandi, Lettlandi eða Litáen og skapa þar aðstæður til þess að geta markaðssett vöruna með þeim hætti að það beri sem mestan árangur. Ég bendi sérstaklega á að í Eistlandi er frjálsræði mikið varðandi viðskipti og að erlend fyrirtæki geti haslað sér völl. Það kynni að vera áhugavert fyrir íslenska aðila að stefna þangað með það í huga að geta skapað sér betri markað, t.d. í nánd við Rússland, heldur en ella væri. Ég vil því eindregið hvetja ráðherrann og þá sem fjalla um þessa tillögu í þinginu til að huga að þessum atriðum og beina kannski umræðum inn á þá braut að við getum komið okkur betur fyrir á þessu svæði til þess að selja þessa afurð okkar fyrir sem hæst og best verð.