Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:40:25 (1172)

[16:40]
     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið hér fram. Ég er sannfærður um að hér er á ferðinni mjög mikið mál fyrir okkur Íslendinga í atvinnulegu tilliti og það væri slæmt ef við sinntum því ekki að horfa inn í framtíðina og reyna að gera sem allra mest til þess að nýta okkur síldarstofnana til atvinnusköpunar og gera úr þeim sem mest útflutningsverðmæti. Mér finnst að þeir hv. þm. sem hafa tekið til máls og hæstv. ráðherra hafi allir tekið jákvætt undir það sem hér er verið að leggja til. Ég get alveg fallist á það að tillögugreinin er mér ekki föst í hendi. Það getur vel verið að önnur sjónarmið séu réttari og sterkari, t.d. það sjónarmið að fleiri aðilar þurfi að koma inn í nefndina til að fjalla um þessi mál heldur en ég lagði til, eða við flm., að það yrðu einungis þrír í nefndinni, og má skoða það með öðru. Eins vil ég taka það strax fram að þó það komi ekki beinlínis fram í tillögugreininni þá tel ég að sölumálin séu allra stærsta málið sem við raunverulega erum að fjalla um í sambandi við nýtingu síldarstofnanna.
    Ég vil fyrst segja, vegna þess sem hv. 9. þm. Reykn. sagði um gæðamjölið, að auðvitað er miklu betri kostur að nota síldina í gæðamjöl heldur en í venjulegt mjöl. Það hefur þó ekki verið meiri munur á framleiðslu gæðamjölsins heldur en sá að það hefur ekki verið hægt að borga nema kannski 20--30% meira fyrir síld upp úr sjó sem verkuð er í gæðamjöl heldur en hefur verið borgað fyrir hina sem verkuð er í venjulegt mjöl. Hv. þm. lýsti efasemdum um þá hugmynd að ræða við Rússa á svipuðum nótum og Írar, Kanadamenn og Bretar hafa gert. Ég tel að það sé eitthvað sem eigi bara að skoða. Ef það næðust samningar þar sem hægt væri að blanda saman hagsmunum þeirra og okkar með þeim hætti að við fengjum verulega atvinnuaukningu út úr því, t.d. að þeir keyptu helming af unnum vörum á móti því sem væri hægt að versla við þá beint, þá sé ég út af fyrir sig ekki röksemdina fyrir því að leggjast gegn þeirri hugmynd, einfaldlega vegna þess að þar er á ferðinni eingöngu að selja ferska vöru beint til framleiðanda og það fyrirkomulag viðurkennum við einfaldlega við sölumeðferð á öðrum fiski sem við flytjum út sjálfir og löndum í öðrum höfnum. Munurinn er bara sá að þarna fer löndunin fram milli veiðiskipa en ekki í erlendri höfn.
    Af því að ég kom því ekki að áðan í andsvörum við hæstv. ráðherra þá vil ég segja það, vegna þess að hann taldi að það væru líkur á því að við gætum misst stjórn á veiðunum ef við leyfðum frjálsar veiðar til manneldis, að ég held að það þurfi ekki að hafa af því áhyggjur. Menn yrðu sem sagt að gefa út veiðikvóta að lokum þegar komið væri að þeim degi sem ákveðinn væri. Þá mundu menn meta hve mikið hefði veiðst til manneldis og það lægi væntanlega ljóst fyrir vegna þess að það er fylgst vel með því öllu saman og á grundvelli þeirra talna væri auðvitað hægt að gefa síðan út veiðikvótana til hinna skipanna sem mundu þá væntanlega klára þá kvóta, bæði til manneldis og til bræðslu.
    Ég vil endurtaka það að ég þakka mönnum fyrir að hafa tekið svona jákvætt undir þetta og sérstaklega hv. 3. þm. Reykv., formanni utanrmn. Ég vil þakka hans hugmynd um það að koma upp aðstöðu til markaðssetningar í Eystrasaltsríkjunum, ég held að það sé út af fyrir sig mjög athyglisverð hugmynd og gæti jafnvel nýst á fleiri stöðum, en þarna er kannski eftir mestu að slægjast eins og hann lýsti áðan í forsögu málsins. Hv. þm. vakti líka athygli á því að við værum að koma inn í EES-svæðið og það verður að segjast eins og er að það urðu mörgum mikil vonbrigði að ekki náðist að fá breytt samningunum um EES-svæðið í sambandi við sölu á síld. Þar hefur ekkert breyst frá því fyrir þessa samninga. Ég held að það sé réttasta lýsingin á því að menn standa þar í sömu sporum og fyrr, eftir því sem ég hafði kynnt mér í fyrra a.m.k. að langmestu leyti. Það er vonandi að hægt sé að taka upp þá samninga síðar og fá þeim breytt, en það eru ekki líkur á því að það gerist alveg á næstunni.
    Þetta er, eins og ég sagði í upphafi máls míns, fyrst og fremst spurning um framtíðina og það að búa í haginn og reyna að undirbúa það að selja miklu meira magn af síld

til manneldis heldur en við gerum í dag. Við erum með því að fjárfesta í langtímamarkmiðum og í framtíð og það verður auðvitað aldrei gert með öðrum hætti en þeim að hið opinbera hlutist til um málin í samráði og samstarfi við atvinnugreinarnar sem eiga hlut að máli og það legg ég áherslu á að verði að vera gott. Það á ekki að setja reglur um þessa hluti án þess að skoða mjög vel með þeim aðilum sem eiga hlut að máli. En menn mega heldur ekki gleyma því að þeir aðilar sem verið er að tala við um þessi mál eru hagsmunaaðilar og það verður að líta á þeirra afstöðu til málanna út frá þeim sjónarhóli sem þeir hljóta að líta á málin frá. Það geta verið skammtímasjónarmið og það er eðlilegt að skammtímasjónarmiðið séu ofarlega í mönnum þegar illa gengur í atvinnugreinunum. Það er einmitt þess vegna sem ég nefndi áðan að það getur verið að það þurfi að hafa reglur um nýtingu fiskstofna eins og síldarinnar með þannig hætti að því sé stýrt í hvers konar vinnslu viðkomandi fiskstofn fer. Ég tel að það sé þess vegna ástæða til þess að skoða vel hvort það eigi ekki að hafa þannig reglur að það sé a.m.k. ekki hvetjandi eins og raunverulega er í dag og hæstv. ráðherra lýsti sjálfur hér áðan, það sé raunverulega hvatning fólgin í stjórnunaraðferðunum til þess að síldin fari í bræðslu.
    Ég ætla að láta það verða mín lokaorð hér að ég vona og ég tel reyndar að þessar umræður hafi sannfært mig um það að reynt verði að taka á málunum með þeim hætti að við snúum þeim hlutum við og við sameinumst síðan um að vinna heimavinnuna okkar fyrir næstu árin, ég er ekki að tala um næstu vertíð. Þó að auðvitað sé mikilvægt að allt fari sem best á þessari vertíð sem nú stendur yfir, þá er það miklu mikilvægara að við undirbúum framtíðina til næstu ára.