Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:53:18 (1175)

[16:53]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil aðeins ítreka það að af hálfu ráðuneytisins þá hefur verið fylgst með þessum málum mjög ítarlega allt frá því á síldarvertíðinni í fyrra þegar vandamál af þessu tagi komu upp þannig að þau eru ekkert að koma okkur í opna skjöldu nú. Ráðuneytið hefur haft frumkvæði að því að kalla aðila saman til samstarfs og samráðs í þeim tilgangi að finna leiðir í þessu efni. Hv. 1. flm. þessarar tillögu gerði heldur lítið úr því að mér fannst að hagsmunaaðilar, eins og hann kallaði það, ættu að véla um þessa hluti, það þyrfti oft að taka fram fyrir hendurnar á þeim. Þetta eru þeir aðilar sem vinna í sjávarútveginum, sjómenn og útgerðarmenn og síldarverkendur og þeir sem standa að frystingu. Mín skoðun er sú að þeim sé best treystandi til þess að finna leiðir í þessu efni. Með fullri virðingu fyrir okkur hv. þingmönnum þá séu þeir líklegri til að finna skynsamlegar lausnir heldur en við og betur til þess fallnir. Við sjáum það líka að víða hafa menn náð árangri. Á Eskifirði fer meiri hluti síldarinnar í vinnslu. Í Neskaupstað hafa menn náð mjög góðum árangri. Ég veit að hv. 4. þm. Austurl. getur borið vitni um það þó þeir hafi sett talsvert mikið í mjöl þá hefur vinnsla til manneldis verið með fullkomlega eðlilegum hætti. Mikill meiri hluti síldarinnar hefur farið til manneldis á Höfn í Hornafirði og einnig í Vestmannaeyjum. Þetta sýnir okkur að menn eru víðast að ná verulegum árangri þó þeir hafi ekki við að styðjast opinberar forskriftarreglur frá Alþingi eða stjórnvöldum.
    Sá starfshópur sem ráðuneytið hvatti til að aðilar settu á fót til þess að fylgjast með í þessu efni og reyna að miðla upplýsingum um framboð og eftirspurn hélt fund í dag. Samkvæmt þeim upplýsingum sem mér voru að berast þá taldi hann á fundi sínum í dag að það væri ekki tilefni til þess að grípa inn í þróun mála eins og sakir standa, m.a. með tilliti til þess hverjir það eru sem ráða yfir þeim kvóta sem óveiddur er og hvaða hagsmuna þeir hafa að gæta varðandi frekari vinnslu.
    Ég vil svo aðeins víkja að samningum við Rússa vegna þess að þeir hafa í tvígang komið fram í umræðunni. Það er rétt hjá hv. 1. flm. að við höfum jafnan neitað beiðni Rússa um það að selja þeim síld
yfir borðstokk og loðnu til frekari vinnslu. Á þessu varð þó breyting nú í haust. Þegar ég átti viðræður við sjávarútvegsráðherra Rússlands í Moskvu taldi ég eðlilegt með hliðsjón af breyttum aðstæðum að opna fyrir möguleika á því að við værum tilbúnir til umræðu um þessi efni og ef um væri að ræða að við ættum kost á að fá þorskveiðiheimildir í Barentshafi og þeir hugsanlega einhverjar heimildir til veiða á kolmunna hér við land auk þess að fá keypta síld og loðnu yfir borðstokkinn. En þá vildi svo kynlega til að þegar á þetta var opnað í fyrsta sinn af okkar hálfu að Rússar sýndu þessum breyttu áherslum lítinn áhuga og eiginlega algjört tómlæti. En það er rétt að það komi fram að þarna hafa þessir hlutir verið opnaðir til viðræðu af okkar hálfu og er ekki lokað með sama hætti og áður var

og ég tel að allar aðstæður séu nú þannig að það hafi verið skynsamlegt að gera það, en Rússar hafa enn sem komið er ekki sýnt áhuga á viðbrögðum í þessu efni.