Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 18:05:18 (1190)

[18:05]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru bara tvö efnisleg atriði sem komu fram í þessari ræðu hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. Hitt var þessi gamla beiskja sem situr í hv. þm. við það eitt að það skyldi vera tekið til við auknar vegaframkvæmdir eftir að hann hætti ráðherradómi sem

samgrh.
    Það er í fyrsta lagi að þingmaðurinn telur að það hafi ekki verið tekin prinsippákvörðun um lagningu vegar á milli Austur- og Norðurlands. Auðvitað hefur hann fullt leyfi til þess að hafa sína skoðun í þeim efnum, ég met það hins vegar svo að sú ákvörðun hafi verið tekin, við erum bara einfaldlega ekki á sama máli að því er þetta atriði varðar, með því að fjármagna upphaf þessa vegar og reyndar endi líka af stórverkefnasjóði, þ.e. byggingu brúar á Jökulsá og vegalagningu í hans kjördæmi sem hafin var á þessu ári.
    Hitt atriðið sem var líka efnislegt í ræðu þingmannsins var hvort þingmenn Austurl. sæju það fyrir að þessi vegur yrði byggður á næstu vegáætlun, t.d. til ársins 1998. Ætla ég ekki að svara fyrir þingmenn Austurl., en ég sé það fyrir sem áhersluverkefni í Austurlandskjördæmi að þessi vegur, að því er tekur til Austurlands, verði byggður á næstu vegáætlun, honum verði lokið áður en þessi öld líður, t.d. árið 1998.