Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 18:15:00 (1195)

[18:15]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér engu við það að bæta sem ég sagði hér áðan um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið varðandi tenginguna milli Norður- og Austurlands. En hér hefur framtíðina borið á góma. Ég get ekki leynt því að ég hef áhyggjur af henni ýmissa hluta vegna. Ég er ekki að gera lítið úr þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi í vegagerð og tel það af hinu góða í sjálfu sér að flýta vegagerð þó með lántökum sé og hef ekki mælt gegn því. Hins vegar þarf að greiða þessi lán. Það er fleira sem er komið inn í Vegasjóð, eins og rekstur á ferjum upp á hálfan milljarð í ár, og sú upphæð hefur farið vaxandi.
    Við Austfirðingar höfum stefnt á það að verða næstir á eftir Vestfirðingum í jarðgangagerð og höfum talið að stefnan í vegagerð hljóðaði þannig að við ættum að koma þar strax á eftir. Hins vegar sé ég ekki betur en að kostnaður við göng undir Hvalfjörð sé á hraðri leið inn í Vegasjóð án þess að ég ætli að fara að mæla gegn þeirri framkvæmd út af fyrir sig. Það er nú þegar búið að ákveða að setja þar 50 millj. kr. í rannsóknir. Ég man ekki betur en það kæmu um það fréttir nú nýlega að það ætti að gefa eftir opinber gjöld varðandi þá framkvæmd. Ég held því að ef þær framkvæmdir sem þessi tillaga gerir ráð fyrir og aðrar framkvæmdir varðandi tengingu Norður- og Austurlands og ýmis stórmál sem eru eftir, eins og tenging byggða á Austurlandi, að menn megi nú halda vel á spöðunum í framtíðinni til þess að þetta allt gangi fram. Ég vildi ekki ljúka þessari umræðu án þess að benda á þetta. Það er nú ekki alveg bein braut fram undan í þessu, án þess að ég sé nokkuð að gera lítið úr því sem gert hefur verið og ætlunin er að gera. Auðvitað verður að auka fjármagn til vegagerðar ef öll þessi verkefni eiga að ganga fram.