Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 18:17:59 (1196)

[18:17]
     Einar Már Sigurðarson :
    Frú forseti. Það er nauðsynlegt eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram að rifja öðlítið upp út á hvað sú tillaga sem hér er til umræðu gengur. Það segir í tillögunni, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta Vegagerð ríkisins gera athugun á tengingu Austurlands og Norðurlands með öruggu vegasambandi allt árið um byggðir á Norðausturlandi og um Vopnafjörð, með jarðgöngum undir Hlíðarfjöll.``
    Það er sem sagt verið að fara fram á það að samgrh. láti Vegagerðina gera athugun á tengingu Austurlands og Norðurlands. Það hlýtur að vera mjög brýnt að það sé staðið faglega að ákvörðunum sem teknar verða um jafnstórt mál og það hvernig staðið verður að tengingu Norðurlands og Austurlands.
    Það er því býsna skondið að heyra það frá hv. þm. Agli Jónssyni að í raun sé búið að taka þessa ákvörðun. Það kemur að sjálfsögðu mjög á óvart, ég tala nú ekki um þegar litið er til þeirra ályktana sem hér eru í fylgiskjali með tillögunni frá bæði aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og Sambands sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi eystra. Vegna þess að þegar þær samþykktir eru lesnar þá kemur í ljós að a.m.k. á þessum fundum var það ekki kunnugt að þessi ákvörðun lægi fyrir. Í raun og veru er tillagan í fullu samræmi við þær ályktanir sem þarna voru gerðar í lok ágústmánaðar og byrjun september á þessu ári. Hins vegar er auðvitað brýnast að menn eyði ekki kröftum í það að rífast um þessa hluti heldur reyni að nota tímann sem fram undan er til þess að stilla saman strengi því eins og kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar þá eru auðvitað ýmsar blikur á lofti. Það er ljóst að það er ekki nema takmarkað fjármagn sem verður til vegagerðar á næstu árum og ef Austfirðingar og Norðlendingar ætla sér sinn hlut af þeirri köku þá er auðvitað mjög brýnt að þeir standi saman. Það er þess vegna áríðandi að öll þekking liggi fyrir þegar svona ákvarðanir eru teknar. Og það liggur ljóst fyrir að það eru

mjög stór mál sem þarf að leysa á norðausturhorninu. Það er búið um mjög langan tíma að álykta um það, t.d. á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, að það sé eitt brýnasta málið í samgöngumálum Austurlandskjördæmis að rjúfa vetrareinangrun Vopnafjarðar. Þess vegna hlýtur að vera mjög nauðsynlegt að það sé skoðað í samhengi við ákvörðun um það hvernig tengt verður saman Norðurland og Austurland, hvort hugsanlegt er að rjúfa vetrareinangrun Vopnafjarðar um leið. Það hlýtur að vera til lengri tíma litið mun hagkvæmara ef slíkt er hægt.
    Það má rifja það upp, sem hér hefur áður komið fram, að auðvitað er unnið á veturna að því að ryðja vegi á milli þéttbýlisstaða á norðausturhorninu. Ef menn ætla sér að tengja Norðurland og Austurland yfir fjöllin þá verður að ryðja vegi þar líka. Það má rifja það upp, sem einnig hefur komið hér fram, að vegurinn yfir fjöllin verður alltaf í þeirri hæð að þar mun við ákveðnar aðstæður verða mjög dýrt að halda veginum opnum allan ársins hring. Þess vegna, enn þá einu sinni, er það auðvitað mjög brýnt að allir möguleikar séu skoðaðir.
    Þegar athugað er hvernig málið snýr að Austfirðingum, þá má rifja það hér upp að það eru auðvitað mun fleiri mál á þessu sviði sem snúa að til ákvarðanatöku. Fyrir utan það sem ég nefndi hér áðan um heilsárstengingu Vopnafjarðar og Héraðs, þá er auðvitað tengingin milli Austurlands og Norðurlands og þess vegna er mjög brýnt að það sé skoðað hvort hægt sé að leysa þau mál samhliða. Síðan er auðvitað vetrareinangrun ýmissa byggða á Austurlandi óleyst. Nú er í athugun sérstök skýrsla sem fyrir liggur frá nefnd sem skipuð var af fyrrv. samgrh. sem er nú ekki fyrir alls löngu búin að skila af sér. Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi frá því í ágúst var ákveðið að þau mál yrðu sett í ákveðinn farveg til skoðunar um leið og sú samþykkt, sem ég vitnaði til hér áðan, var samþykkt. Þannig gera austfirskir sveitarstjórnarmenn, ásamt trúi ég öllum hv. þm. Austurlands, sér grein fyrir því að hér er um mjög stórt mál að ræða og menn vilja leita allra leiða til þess að tengja saman hópinn þannig að menn geti staðið saman að þeirri ákvörðun sem tekin verður.
    Ég trúi því að hv. þm. Egill Jónsson sé sama sinnis í því og að hann muni leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess að hópurinn geti staðið saman að þeirri niðurstöðu sem fæst eftir nauðsynlegar athuganir.