Alþjóðleg skráning skipa

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 14:15:48 (1201)

[14:15]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið, þær draga athyglina að því sem mér er vel ljóst, að þetta mál er nokkuð flókið og á því eru í sjálfu sér engar einfaldar lausnir til. Ég á eins og hv. síðasti ræðumaður talsvert mikið af litteratúr um þessi mál sem ég hef lesið og ég held að flest það sem á annað borð hefur komið á prenti um þessi mál, a.m.k. á íslensku, hafi komist í mínar hendur á undanförnum mánuðum. Mér er því mætavel ljóst af slíkum lestri og eftir að hafa fylgst með þessum málum um nokkurt árabil að það er engin einföld leið og lausn til á þessu máli. Vandinn er hins vegar fyrir hendi og við horfum þarna á þróun, mjög óheillavænlega og óhagstæða þróun, sem við hljótum a.m.k. að skoða mjög vandlega hvort við getum eitthvað spornað gegn.
    Ég vil sérstaklega undirstrika það vegna orða hv. 14. þm. Reykv., sem væntanlega hefur verið fjarverandi þegar ég flutti mína framsöguræðu því þar kom það mjög skýrt fram að af hálfu okkar flm. till.

er það algjör forsenda þess að það svari kostnaði og sé réttlætanlegt fyrir íslenska ríkið og íslenska aðila að grípa til ráðstafana í þessum efnum að með því sé tryggt að mönnun skipanna sé áfram íslensk og íslenskir kjarasamningar gildi um kjör þeirra sem þar starfa og íslensk stéttarfélög hafi það hlutverk með höndum að semja fyrir hönd áhafnanna.
    Ég vek athygli hv. þm. á því að framkvæmd alþjóðlegrar skipaskráningar eða skipaskráningar kaupskipa í hinum einstöku löndum er með mismunandi hætti og það er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að við Íslendingar veljum okkur það form á þessu fyrirkomulagi sem við teljum okkur hagstæðast. Ég svara því alveg hreint út fyrir mitt leyti ef slík eru ekki skilyrðin að hér verði um íslenska mönnun og íslenska samninga að ræða þá svarar ekki kostnaði að fara út í alþjóðlega skráningu. Þá getum við eins látið núverandi þróun halda áfram og látið okkur í léttu rúmi liggja hverrar þjóðar þau skip eru sem hingað sigla og hverjir manna þau. Tilgangurinn með því að grípa til ráðstafana af hálfu íslenskra yfirvalda er eingöngu sá að mínu mati að halda þessari starfsemi áfram í landinu, að verja þau störf íslenskra sjómanna sem hafa verið til staðar á íslenska kaupskipaflotanum. Við náum ekki því markmiði nema að það sé skilyrði fyrir íslenskri skráningu að þar séu um borð íslenskir farmenn og þeir séu á íslenskum kjörum, að sjálfsögðu.
    Þess vegna nefndi ég það sérstaklega að að þessu leyti væri okkar hugmynd frábrugðin hinni dönsku, þ.e. að gerðar væru miklu strangari kröfur um það að mönnunin yrði innlend heldur en þar er gert. Tilvitnunin til hinnar dönsku skráningar vitnar fyrst og fremst til þess að beitt verði skattalegum ráðstöfunum og hagræði af ýmsu tagi til handa útgerðinni svipað og þar er gert eða í Svíþjóð til að gera henni það mögulegt að skrá skipin sín hér. Ég er þeirrar skoðunar að það megi með tiltölulega litlum aðgerðum ná íslenska kaupskipaflotanum aftur heim vegna þess að hann er þrátt fyrir allt enn þá að mestu mannaður íslenskum sjómönnum. Það má þó segja um íslensku skipafélögin og eftir atvikum stéttarfélög sjómanna að þrátt fyrir útflöggun skipanna hefur mönnunin ekki nema að mjög litlu leyti orðið útlend og þróunin er önnur hér á Íslandi heldur en t.d. varð í Danmörku svo ekki sé talað um í Noregi, en það er alveg ljóst að norska alþjóðlega skráningin eða NIS er sú sem verst hefur tekist í þessum efnum. Norðmenn hafa misst í stórum stíl störfin úr landi, sérstaklega undirmannastörf á skipunum en mér er tjáð núna einnig á síðari missirum yfirmannastörfin. T.d. þekkist það orðið að rússneskir skipstjórar og rússneskir skipstjórnarmenn, sem í hrönnum ganga atvinnulausir í heiminum eins og kunnugt er, séu farnir að manna norska kaupskipaflotann með öllum þeim áhrifum sem það hefur, ekki bara atvinnulíf í Noregi o.s.frv. heldur líka efasemdum sem vakna um ýmislegt sem varðar öryggismál og fleira.
    Það er að sjálfsögðu ekki ætlunin nema síður sé að fara að ýta undir eða auðvelda slíka þróun hér, þvert á móti er það okkar skoðun að ráðstafanir af þessu tagi séu nauðsynlegar sem liður í því að verja þessi störf áfram í landinu. Hvaða ráðstafanir er hér verið að tala um? Jú, í fyrsta lagi er það náttúrlega útlátalaust með öllu fyrir ríkið að gefa eftir þau gjöld sem hvort sem er tapast úr landinu ef skipin eru skráð erlendis og eru þess vegna í stórum stíl töpuð nú þegar. Þar eru á ferðinni gjöld eins og stimpilgjöld, skráningargjöld, flokkunarkostnaður og þá að einhverju leyti eftir því sem ástæða þykir til eða nauðsynlegt reynist, skattar viðkomandi fyrirtækja. Þetta eru tekjur sem ríkið verður hvort sem er af ef skipin færast úr landi þannig að það er í raun og veru ekki verið að gefa neitt eftir sem menn hvort sem er hefðu og ef svo heldur sem horfir að síðustu íslensku kaupskipin hverfi hér af íslenskri skipaskrá innan fárra ára --- hvað eru menn þá að gefa eftir? Ekki neitt í þeim tilvikum að þessi gjöld færist til útlanda. Það ber að vísu að viðurkenna og taka fram þeim til fróðleiks sem ekki þekkja það þegar að fæst hentifánaríkjanna hafa farið út í það að krefjast skatta af áhöfnum skipanna sem þó eru skráð undir þeirra fána og í sumum tilvikum er nú í raun og veru eingöngu um að ræða karl í Hamborg sem hefur stimpil frá einhverju ríki í Karíbahafinu og vinnur við það að skella honum á skjöl evrópskra skipaútgerða. Þar hafa menn yfirleitt ekki farið út í að krefjast annarra gjalda en einhverra skráningargjalda og einhverra skoðunargjalda af þeim kaupskipum sem skráð eru í viðkomandi ríkjum, en þjóðréttarlega séð stendur auðvitað málið þannig að þessi ríki gætu á komandi árum gert auknar kröfur um að skatttekjur vegna starfseminnar rynnu í þeirra ríkissjóði. Ég held að það sé langbest í þessu tilviki að reyna að byrgja brunninn fyrir fram.
    Varðandi svo afkomu einstakra fyrirtækja sem hér eiga í hlut þá hafði ég ætlað mér að forðast það að draga það inn í umræðuna vegna þess að það er ekki málið sem þetta snýst um og við munum væntanlega ekki ætla okkur að hafa íslenska löggjöf og reglur um skráningu skipa eða skattgreiðslur þeirra breytilegar eftir árum og eftir einstökum fyrirtækjum hvort þau græða eða tapa. Það held ég að gangi ekki. Og af því að hér var nefndur kolkrabbinn sem lítt skilgreint er stundum fjallað um og væntanlega átt við Eimskipafélag Íslands í því tilviki, þá held ég að ég geti tæplega flokkast undir sérstakan varnarmann þess, hef nú stundum fengið annað á mig í umræðum undanfarin ár, stóð m.a. fyrir sérstökum lagabreytingum sem voru að sumra mati stefnt til höfuðs þeim fyrirtækjahring sem Eimskipafélagið tilheyrir í landinu. En á hinn bóginn eiga menn ekki að nota slíka grýlu óskilgreint bara gegn því að gripið sé til skynsamlegra ráðstafana varðandi vandamál af því tagi sem hér er til umræðu. Ég held að menn eigi að reyna að horfa fram hjá því við slíkar aðstæður hver viðkoma þess gagnvart einstökum fyrirtækjum kann að vera.
    Það er vissulega áhyggjuefni að það hefur fækkað mjög skipum í íslenska kaupskipaflotanum og umsvif íslenskra kaupskipa erlendis hafa dregist talsvert saman. Að vísu verða menn að hafa þann fyrirvara á hér bæði varðandi fækkun skipa og fækkun sjómanna að með nýrri tækni, gámavæðingu og stærri

skipum, þá hefur fjöldinn eðlilega minnkað, bæði fjöldi skipanna með aukinni flutningagetu hvers og eins og fjöldi sjómannanna vegna afkastaaukningar um borð í þessum nýju stóru skipum. Þróunin að því leyti er að nokkru leyti fyrst og fremst afleiðing tæknivæðingar og tæknibreytinga í flutningunum. Þetta er rétt að menn hafi í huga þegar þessar tölur eru yfirfarnar.
    Hæstv. forseti. Ég vildi sem sagt sérstaklega undirstrika það að tilgangur okkar með þessum tillöguflutningi, bæði varðandi kaupskipin og fiskiskipin, er sá að gera það mögulegt að þessi skip séu áfram á íslenskri skipaskrá eða komi inn á hana aftur og verja störf íslenskra sjómanna á íslenskum skipum og tryggja það að þeir sem starfa við þessa flutninga hér geri það á íslenskum kjörum. Fjærst öllu viljum við láta bendla nafn okkar við einhverskonar þrælahald af því tagi sem hv. 14. þm. Reykv. gerði réttilega að umtalsefni og er mikil sorgarsaga, hvernig iðnríkin og þróuðu ríkin hafa í mörgum tilvikum lotið lágt í því að nýta sér ódýrt vinnuafl úr vanþróuðum ríkjum sem tilbúið er til að koma og vinna jafnvel erfiðustu og óþrifalegustu störfin fyrir lélegt kaup. Margt er ófagurt í þeirri sögu og síst til eftirbreytni. Þvert á móti held ég að mönnum beri að reyna að sameinast um það að koma böndum á slíka hluti og það hefur til að mynda Alþjóðaflutningamannasambandið náð að gera með býsna marktækum hætti varðandi kaupskipaútgerðina hér frá Evrópu og ekki síst Norðurlöndunum þar sem þessi mál eru þrátt fyrir allt í hvað skástu lagi af löndum heimsins. Það ber að vísu að taka það fram og minna á það að frændur vorir Norðmenn eru í nokkurri sérstöðu hvað þetta snertir, þeir hafa auðvitað lengi rekið mjög stóran kaupskipaflota hlutfallslega miðað við stærð þjóðarinnar, verið þriðju til fjórðu stærstu útgerðarmenn kaupskipa í heiminum og þeir hafa þess vegna átt talsvert annarra hagsmuna að gæta í alþjóðlegum kaupskiparekstri en aðrar Norðurlandaþjóðir. Þótt bæði Danir og Svíar t.d. séu þó nokkuð stórir í þessum rekstri þá er það lítið borið saman við Norðmenn. Þess vegna ef menn vilja með sanngirni fjalla um það hvernig þessi mál hafa þróast annars vegar í Noregi og hins vegar á hinum Norðurlöndunum þá verður auðvitað að hafa þessi stærðarhlutföll og þessa ólíku hagsmuni í huga.
    Vandinn hjá okkur Íslendingum á ekki að vera svo mikill þegar haft er í huga að okkar siglingar eru fyrst og fremst siglingar íslensku skipafélaganna til og frá landinu, það er um sáralítinn alþjóðlegan rekstur að ræða að þessu leyti. Það eru fáein leiguskip sem eru í verkefnum erlendis á vegum íslenskra félaga. Stærsti hluti kaupskipaflotans annast siglingar til og frá landinu með einum eða öðrum hætti og í þeim tilvikum á að vera viðráðanlegra á allan hátt að hafa skikk á þeim málum heldur en ella væri.
    Ég vona, hæstv. forseti, að þessi svör mín hafi a.m.k. fyrirbyggt óþarfan misskilning um það hvað fyrir okkur vakir með tillöguflutningnum og ég tek svo undir það sem hér var sagt að þetta mál þarf að skoða mjög vandlega. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera það. Ég held að hv. 3. þm. Vesturl. hafi orðað það mjög vel, það er engin einföld eða auðveld leið til í þessu sambandi en spurningin er hvort það er verjandi eða réttlætanlegt að sitja hjá og aðhafast ekki neitt gagnvart þróun jafnóhagstæðri og sú er sem við höfum horft upp á í þessum efnum undanfarin ár.