Útfærsla landhelginnar

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 14:49:52 (1205)

[14:49]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Segja má að hér sé fram komin lítil tillaga um stórt mál. Ég bið að menn misskilji ekki þau orð mín. Með þeim orðum er ég alls ekki að gera lítið úr tillögumönnum né málinu sjálfu, slíkt er fjarri mér. Málið er afar stórt, mjög þýðingarmikið og öll umræða um það tímabær einmitt nú. En ég vil í upphafi málsins fyrirbyggja þann misskilning sem kann að ríkja í hugum einhverra að þetta séu mál sem hafi legið í lægð og ekki hafi verið sinnt. Ég vil nefna nokkur dæmi því til stuðnings að þessi mál hafa verið á verkefnaskrám stjórnvalda og að þeim hefur verið unnið.
    Þar nefni ég fyrst til framgöngu og tillöguflutning Íslendinga á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um úthafsveiðar og nýtingu og vernd flökkustofna, sem er í beinu framhaldi af hafréttarsáttmálanum sjálfum sem við gerum okkur nú vonir um að nái gildistöku sem hluti af þjóðarrétti á næsta ári. Íslendingar hafa tekið frumkvæði á þessari ráðstefnu. Þeir eru í forustu ásamt fjórum eða fimm öðrum ríkjum, svokölluðum ,,líkt þenkjandi þjóðum`` við málflutning á þeirri ráðstefnu, hafa haft frumkvæði að tillöguflutningi og fyrir liggur ályktunartillaga sem er þar til vinnslu og því máli verður haldið áfram.
    Ég nefni í annan stað til sögunnar þá lögfræðilegu athugun sem fram hefur farið á vegum utanrrn. í framhaldi af deilum okkar við Norðmenn um Smuguna og varðar veiðar á Barentshafi og þá sérstaklega réttarlega stöðu okkar að því er varðar hafsvæðið í kringum Svalbarða.
    Ég nefni málatilbúnað og umræður og formlegar viðræður við önnur ríki að því er varðar Hatton- Rockall svæðið. Ég nefni margvíslega samningagerð sem nú er þegar orðin eða í bígerð við fjölmargar aðrar þjóðir sem leitað hafa samstarfs við okkur Íslendinga á undanförnum árum, bæði um veiðar og vinnslu og um sérfræðilega ráðgjöf í sjávarútvegsmálum. Það er rétt sem fram kom í máli framsögumanns að allt bendir til þess að íslensk útgerð, íslenskir skipstjórnarmenn og íslenskir sjómenn muni á næstu árum afla sér í stórauknum mæli þekkingar og veiðireynslu á fjarlægum slóðum, m.a. í krafti slíkra samninga. Þær þjóðir eru nú að nálgast tvo tugi sem með formlegum hætti hafa leitað eftir slíku samstarfi. Ástæðan er auðvitað sú að þótt Íslendingar séu fámenn þjóð þá hafa þeir á undanförnum árum verið á bilinu 10.--15. í röð þeirra þjóða sem mestum afla skila á land að magni og verðmæti.
    Loks er þess að geta að sjútvrh. skipaði í lok septembermánaðar sl. nefnd sem á að hafa það verkefni að endurskoða gildandi lög um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilögsögunnar. Allir þingflokkar hér á Alþingi ásamt fulltrúum hagsmunaaðila eiga aðild að þeirri nefnd og meiningin mun vera sú að hún reyni að skila áliti um eða upp úr áramótum. Það er því rétt sem fram hefur komið í máli frsm. að það hafa orðið róttækar breytingar á stöðu íslensks sjávarútvegs á undanförnum árum, þótt auðvitað getum við nefnt dæmi úr fortíðinni um það að Íslendingar hafi leitað á fjarlægari slóðir. Það er hins vegar að gerast með eftirtektarverðum og umtalsverðum hætti.
    Af þessu tilefni vil ég taka undir það sem fram kom í máli framsögumanns að sá misskilningur er útbreiddur, og honum er haldið nokkuð við af hálfu Norðmanna vegna væntanlegra tímabundinna deilna um Smuguna, að Íslendingar séu berir að tvöfeldni í málflutningi sínum og tillöguflutningi að því er varðar þessi mál. Þeir segja gjarnan sem svo að Íslendingar hafi verið í fararbroddi þeirra þjóða sem gætt hafi hagsmuna strandríkja og að í deilum okkar við Norðmenn um Smuguna höfum við snúið baki við þeim málflutningi. Þetta er rangt og við stöndum ekki frammi fyrir neinu vali um það annars vegar að halda fram einhliða rétti strandríkja eða hins vegar að hverfa frá því og taka upp allt önnur sjónarmið í þjóðarrétti sem styðjast frekar við hagsmuni og reynslu úthafsþjóða. Íslendingar eru sjávarútvegsþjóð af þeirri stærðargráðu að þeir hljóta að gera hvort tveggja. Og efnislega er það rangt að í tillöguflutningi okkar á alþjóðlegum vettvangi hafi gætt slíks tvískinnungs. Við höfum aldrei boðað að strandríkin ættu að hafa einhliða rétt til þess að ákveða nýtingu eða verndarráðstafanir á veiðistofnum sem eru inn og út úr landhelgi eða flökkustofnum. Þvert á móti höfum við lagt áherslu á, í framhaldi af hafréttarsamningnum þar sem við vorum vissulega í fararbroddi, að strandríkin hafi sinn rétt en hann sé takmarkaður. Rétturinn er fyrst og fremst um það að þau eru gerð ábyrgð fyrir verndun veiðistofna sem eru aðallega innan þeirra lögsögu en þau eru bundin af því að leita samninga við aðrar þjóðir sem stunda þær veiðar og við boðum svæðisbundnar lausnir, þ.e. að koma á fót alþjóðastofnunum sem vegi og meti hagsmuni beggja aðila. Það sem okkur gengur fyrst og fremst til er að sjálfsögðu verndun lífríkis hafsins og við lítum á það sem heiður þegar aðrar þjóðir segja að við höfum verið í fararbroddi fyrir þeirri baráttu og við höfum alls ekki snúið baki við þeirri baráttu.
    Og að því er varðar samskipti okkar við grannþjóðir okkar þá er upp að telja að við eigum samninga og höfum leitað sjálfir eftir samningum við flestar þessar þjóðir um sameiginlega stofna og flökkustofna og hægt að hafa um það langt mál en ég ætla ekki að gera það. En það er eindreginn vilji okkar að halda áfram á þeirri braut, að leita eftir samningum, og að gerðum við í þessari Smugudeilu. Hún hófst ekki að frumkvæði íslenskra stjórnvalda. Hún hófst vegna þess einfaldlega að okkur Íslendinga skorti lagaheimildir til þess að banna íslenskum þegnum að veiða á opnu úthafi þótt nærri væri lögsögu Norðmanna. Við buðum hins vegar Norðmönnum þrennt í þeim viðræðum.
    Í fyrsta lagi buðum við þeim að það skyldu gilda reglur um veiðar íslenskra aðila í Smugunni eða í grennd við þeirra lögsögu sem væru í samræmi við íslenskar reglur sem eru strangari en þeirra eigin. Þeir höfnuðu því og héldu fram rétti strandríkisins til setningar reglugerðar einhliða.
    Í annan stað buðum við upp á kerfisbundið samstarf embættis- og sérfræðinga t.d. á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um frekari þróun hafréttarins.
    Í þriðja lagi óskuðum við eftir samningaviðræðum um það hver ætti að verða hlutur Íslendinga að því er varðaði veiðiheimildir í Barentshafinu og það er áreiðanlega viðkvæmasti þáttur þessa máls.
    Um það er það að segja að þar hafa Norðmenn tekið sér rétt með því að lýsa á grundvelli norsku landgrunnslaganna yfir 200 mílna lögsögu í kringum einskis manns landið Svalbarða, gert það á grundvelli norsku landgrunnslaganna og talið það hluta af norskri lögsögu. Þeir hafa hins vegar, þegar því hefur verið ögrað af öðrum þjóðum, tekið þann kost að semja við allar þær þjóðir sem þarna hafa leitað eftir réttindum, ef þær hafa verið samningsþjóðir að Svalbarðasamningnum.
    Íslendingar eru ein af meiri háttar fiskveiðiþjóðunum á Norður-Atlantshafi sem engra réttinda nýtur. Því er til fljótsvarað að Norðmenn höfnuðu öllum þessum boðum. Þannig að þegar menn harma það að samningar hafi ekki tekist þá verðum við að láta það koma fram að það er ekki af okkar völdum. Við höfum leitað eftir samningum, við erum reiðubúnir til samninga, við viljum fara samningaleiðina. Við gerum okkur það ljóst að hagsmunir þessara þjóða eru það ríkir að því er varðar sameiginlega stofna að samningaleiðina ber að fara.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég hefði gjarnan kosið að geta sagt hér eitthvað um hina þjóðréttarlegu hlið málsins, en það verður að bíða betri tíma. ( Forseti: Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að hann getur tekið aftur til máls í umræðunni.)