Útfærsla landhelginnar

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 14:58:38 (1206)

[14:58]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég tek aðallega til máls til að fagna því að þessi tillaga skuli vera fram komin og hún verður vafalaust rædd oft, bæði innan þings og utan og vonandi menn megi eitthvað á því græða. Það er auðvitað staðreynd, eins og kom fram hjá flm. að það er fyrst og fremst VI. hluti hafréttarsáttmálans sem málin snúast um, það eru réttindin yfir hafsbotninum og síðan tengsl hafsbotnsins við auðvitað lífið yfir botninum og það sem þar þróast. Og þess vegna má ræða þetta allt í einu og sama orðinu.
    Við getum kannski t.d. af því að það er auðskilið tekið Reykjaneshrygginn fyrstan. Þannig er mál með vexti að um Reykjaneshrygg háttar svo til að um hann var samið á hafréttarráðstefnunni af Íslendingum og Rússum, þeim tveim þjóðum sem settust saman á nokkrum fundum og sömdu um réttindin á þessu hafsvæði. Hvernig stóð á því? Jú, það eru meginatriði í víðáttu hafsins sem hvert ríki getur helgað sér. Þá er meginatriðið það sem kallað er ,,natural prolongation`` eða eðlileg framlenging af landinu þar sem það fer neðansjávar eftir að það gengur til sjávar. Og þessi ,,natural prolongation`` mundi hafa, að því er okkur varðar, leitt til þess að víðáttan hefði orðið gífurleg ef ekkert hefði verið að gert. Hún er ein aðalreglan, er og hefur verið 200 mílur. En að því er okkur varðaði þá hefði gilt um okkur allt önnur regla sem er um 350 mílur og það er á neðansjávarhryggjum sem eru mörg þúsund mílur, bæði á Atlantshafi og á Kyrrahafinu og því náttúrlega ekki hægt við það að una af neinni þjóð að ein þjóð, eins og t.d. við, hefði getað hirt þann hrygg allan nærri því pólanna á milli. Þess vegna var þetta samkomulag gert. Það var spurt á þessum fundum: Ja, hvað getið þið sætt ykkur við mikla aukningu? Við heimtuðum auðvitað meira en 200 mílur og einhver sagði þá: En tvöfalda það? Við fáum 400 í staðinn fyrir 200 og um það var rætt þangað til allt í einu að foringi Rússanna brosti gleitt og sagði: Jæja, verum ekki að rífast þetta lengur, við skulum hafa þetta 350.
    Þannig varð þetta nú til og svona getur þetta orðið í þessum heimi okkar, að málin leysast skyndilega og með auðveldum hætti án þess að nokkrar reglur hafi áður gilt, en þá eru þetta núna orðin alþjóðalög.
    Svipað má segja um alþjóðalög, um gildi hafréttarsáttmálans núna, hvort það vanti nokkra meðlimi til að skrifa undir samninginn, nokkrar undirskriftir. Það skiptir ekki nokkru máli, ekki hinu minnsta. Þetta eru orðin alþjóðalög fyrir löngu og það er held ég ekki nokkur stofnun sem ekki dæmir eftir reglum hafréttarsáttmálans. Mér er a.m.k. ókunnugt um það og við getum alveg unnið í því trausti.
    Við Íslendingar höfum auk þess sérréttindi sem lítið hefur verið haldið á lofti en er eiginlega ástæða til að rifja upp. Þeir hafa nokkuð sem heitir íslenska ákvæðið. Það er að vísu ekki skrifað íslenska ákvæðið, ekki sett beint inn í textann, en það var allra mál að íslenska ákvæðið væri til og gilti fyrir okkur eina og það er 71. gr. samningsins. Þar er fjallað um það að undanþágur þurfi að gefa vanþróuðum ríkjum og sérstaklega landluktum ríkjum. Það eru sérstakar reglur um þau, að þau geti fengið einhverja umbun, einhvern hluta af þeim auðæfum sem verið var að fjalla um eða landfræðilega afskipt ríki. Þetta var í 70. gr. og næst á eftir kemur þessi íslenska grein þar sem segir að þrátt fyrir ákvæði hinna tveggja greinanna þá gildi það ekki gagnvart strandríki ef efnahagur þess er í mjög miklum mæli háður hagnýtingu hinna lífrænu auðæfa í sérefnahagslögsögunni.
    Þetta er því allt saman í þróun enn þá og þróunin er nokkuð ör að því er ég hef getað aflað mér upplýsinga um og það eru 2 / 3 hlutar af þjóðum heims eða þar um bil strandríki. Og við getum sagt okkur það sjálft hvort strandríkin ganga ekki eftir sínum eignarrétti og reyni að gera hann sem allra mestan. Það mundum við gera og erum að gera og það mundu allir gera.
    Þarna er tekist á í þessu efni alveg eins og öðrum en síðan eru samningar, ýmist óformlegir eða formlegir, sem verða til eftir því sem um málin er rætt. Og sem betur fer er nú reynslan sú að ekki hefur orðið mikið um styrjaldir eða önnur mjög alvarleg átök við lausn deilnanna um hafréttinn síðustu áratugina. Og við getum verið stoltir af því Íslendingar að þó að við höfum verið frekir og ýtnir þá höfum við alla tíð verið tilbúnir til þess að ganga á milli manna og reyna að fá þá samninga fram sem líklegastir væru.
    En það er komin hreyfing á þessi hafréttarmál sem eru auðvitað gífurlega mikilvæg og við sjálfstæðismenn og ég persónulega hef flutt tillögu um hafsvæðið. (Forseti hringir.) Ég skal ekki halda áfram með það sem ég ætlaði að byrja að segja. Ég endurtek eingöngu, til að hlýða réttum reglum, að ég gleðst yfir því að nú eru menn farnir að ræða þetta enn á ný og vona að sú umræða beri árangur og sérstaklega við getum verið sammála um lausnina og þurfum ekki að rífast um þetta. Nóg er nú samt.