Útfærsla landhelginnar

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 15:24:40 (1209)

[15:24]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Þetta er mjög mikilvægt mál sem við erum hér að ræða um. Eitt af allra stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar um langa tíð hefur verið réttindin til að nýta hafið í kringum landið og sú barátta er ekki á enda enn. Ég held að það hafi verið full ástæða til að flytja þessa þáltill. Það sýndi sig í sumar þegar íslensku skipin héldu til veiða í Smugunni að þá kom nokkuð á ráðamenn þjóðarinnar. Þeir brugðust við með þeim hætti í upphafi að menn vissu ekki hvort flotinn yrði stöðvaður af eða hvort hann fengi að gera tilraun til þess að nýta þetta hafsvæði til hagsbóta fyrir hrjáða útgerð í landinu.

    Tillagan er raunar í tvennu lagi. Hún gengur út á að við samræmum afstöðu okkar til mála. Það er full ástæða til að gera það og ég tek undir með þeim hv. þm. sem hafa sagt það hér á undan mér í þessari umræðu að auðvitað þurfum við að hafa samráð og samstöðu í þessu máli, út á það gengur nákvæmlega þessi tillaga. Enda er gert ráð fyrir því að þessi nefnd hafi einungis stuttan tíma til þess að vinna að málinu. Hún eigi að skila áliti ekki síðar en í mars á næsta ári. Þetta snýst fyrst og fremst um að samræma skoðanir manna til þessara tveggja stóru mála sem snúast í aðalatriðum um annars vegar útfærslu landhelginnar og hins vegar afstöðuna til réttinda á alþjóðlegum hafsvæðum.
    Það felst ekki í mínum orðum nein gagnrýni á framgang stjórnvalda núna að undanförnu í þessu máli að öðru leyti en því sem kom fram í máli mínu hér áðan. Ég held að það hafi einfaldlega allir verið óviðbúnir þessari siglingu íslenskra skipa á erlend hafsvæði þrátt fyrir það að menn hafi hvatt íslenska útgerðarmenn til þess í fjöldamörg ár að reyna fyrir sér á alþjóðlegum hafsvæðum. Það er því í sjálfu sér ekki þannig gagnrýni sem ég er að koma á framfæri. Ég held hins vegar að við megum ekki leiða umræður um þetta mál út í neins konar karp. Ég get vel hugsað mér að tekið verði á þessu máli með einhverjum þeim hætti í utanrmn. og síðan í framhaldi hér á þinginu að það verði skoðað í samhengi við önnur mál sem hér hafa komið fram.
    Ég er enginn spámaður og ég get ekki haldið fram neinni sérstakri skoðun á því hver verður niðurstaðan um réttindi strandríkja í framtíðinni, hvort við megum eiga von á því að við náum því að hafa full yfirráð yfir 350 mílna hafsvæði hér á landgrunninu sem liggur t.d. suðvestur af landinu. Ég vona að það geti farið þannig, en ég held að það væri mikið ábyrgðarleysi ef við gerðum bara ráð fyrir því að þannig færi það og beittum okkur ekki af alefli fyrir því að tryggja okkar réttindi ef þetta gerist ekki. Og þá á ég við það að við eigum auðvitað að reyna að gera það sem við getum til að tryggja okkur réttindi á alþjóðlegum hafsvæðum sem íslenskir útgerðarmenn eru núna loksins byrjaðir að reyna að nýta sér. Það kemur auðvitað margt til og ýmislegt af því og sjálfsagt flest verður skoðað í þeirri nefnd sem hæstv. sjútvrh. skipaði núna í haust, en þeirri nefnd var þó skipað það þröngt hlutverk að þar var ekki talað um að menn skoðuðu útfærslu landhelginnar. Hæstv. ráðherra orðaði það svo hér áðan eftir því sem ég man best að þessi nefnd hefði með höndum flest það sem kæmi fram í þessari þáltill. sem hér er til umræðu. En ég verð að segja það alveg eins er að þegar ekki er um það að ræða að skoða útfærslu landhelginnar þá tel ég að nefndin hafi engan veginn það sama hlutverk og hér er lagt til að sú nefnd fái sem þáltill. snýst um.
    Það er ótal margt sem væri ástæða til að ræða í tengslum við þetta mál og í tengslum við það að Íslendingar fari nú að nýta sér veiðar á erlendum hafsvæðum. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef orðið nokkuð undrandi á því hvernig Norðmenn sérstaklega hafa brugðist við. Þeir hafa nánast tekið þessum málum eins og þeir væru búnir að tryggja sér fullkomlega yfirráðarétt yfir því hafsvæði sem íslensku skipin hafa verið að athafna sig á. Það er auðvitað óþolandi að þjóðir hagi sér með þeim hætti. Það er nú einu sinni þannig að við erum að tala um hafsvæðið sem almennt séð er ekki deilt um að sé alþjóðlegt hafsvæði. Þó það hafi ekki náðst samningar um með hvaða hætti eigi að stjórna veiðunum á þessu svæði þá finnst manni að það ætti að vera öllum siðuðum mönnum ljóst að það þurfi að semja um þessi mál og að einhverjar þjóðir, þó þær eigi landhelgi að þessu hafsvæði, geti ekki ákveðið það að nýta fiskstofna sem þar eru og setja um það þannig reglur að ekki sé eðlilegur nýtingarréttur á þessu hafsvæði.
    Þá kem ég að því sem ég var að byrja að tala um áðan, þ.e. það verður auðvitað að semja um hvaða hluta af veiðum úr fiskstofnum sem þarna er um að ræða á að úthluta til veiða í Smugunni. Það er síðan flókið mál að finna það út hverjir mega veiða þennan fisk sem leyft verður að veiða í Smugunni. En ég tel að það sé reyndar þannig að við séum einfaldlega undir þeim reglum nú með þessi mál að við verðum að sæta því að skipta þeim veiðiréttindum milli þeirra sem lýsa því yfir að þeir ætli sér að nýta veiðiréttindi þarna. Það hlýtur því að verða þannig að lokum að þær þjóðir sem vilja sinna því að veiða á þessum erlendum hafsvæðum, þær verða þá eftir við þá nýtingu sem hafa besta aðstöðu til þess. Ég gæti svo sem vel trúað því að þegar upp verður staðið þá hefði íslenski flotinn ekki minni möguleika á því að nýta sér Smuguna heldur en aðrar þjóðir sem það hafa verið að gera, vegna hagkvæmni útgerðar okkar.