Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 11:09:49 (1218)

[11:09]

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta stenst ekki hjá hv. þm. Það liggur fyrir að stjórnarandstaðan lýsti því einhliða yfir að hún væri reiðubúin að koma saman til þingfunda á sl. vori. Það lá fyrir yfirlýsing af okkar hálfu um það. Í fyrra sinnið þegar sett voru bráðabirgðalög um Kjaradóm þá hélt hæstv. forsrh. því ranglega fram að stjórnarandstaðan hefði ekki verið tilbúin til að koma saman til fundar og afgreiða með skjótum hætti gegnum þingið viðkomandi lög. Það kom í ljós síðar að hæstv. forsrh. byggði þá á viðtölum fjölmiðla við einstaka þingmenn úr stjórnarandstöðunni sem lýst höfðu mismunandi sjónarmiðum. Hæstv. forsrh. hafði ekki einu sinni fyrir því þá að kanna það hjá forustumönnum stjórnarandstöðunnar hvort þeir væru tilbúnir til að koma saman til fundar, en fullyrti að svo væri ekki á grundvelli lausafregna úr fjölmiðlum. Það hefur e.t.v. verið með hliðsjón af þessu sem stjórnarandstaðan lýsti því yfir sl. vor að hún væri tilbúin til að koma saman til funda til þess að afgreiða þessi lög á eins til tveggja daga fundum. Þannig að það er engin vörn af neinu tagi í því fyrir ríkisstjórnina að einhverjar knýjandi aðstæður hafi kallað á bráðabirgðalagasetningu og sömuleiðis er það alveg ljóst að stjórnarandstaðan var tilbúin til að koma hér saman til fundar sem hægt er að boða til með nánast engum fyrirvara og afgreiða þessi lög á einum eða tveimur dögum í gegnum þingið. Málið er ósköp einfalt. Hæstv. ríkisstjórn valdi það bara að setja bráðabirgðalög og skeyta ekki um það þó að ekki væru fyrir hendi þær forsendur sem þar þurfa að liggja til grundvallar. Þessu verður hv. þm. bara að kyngja, það er svona.