Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 11:31:21 (1222)

[11:31]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er margt í þessu frv., sem hér er til 2. umr., sem vert er að ræða og velta fyrir sér. Eins og við vitum er tíminn ákaflega naumur því hér er um bráðabirgðalög að ræða og því er stefnt að því að hraða meðferð frv. í gegnum þingið. En þrátt fyrir það er það merkilegt sem kemur fram í umræðunni og hefur reyndar verið nokkuð rætt hér að undanförnu og það er þessi skilningur sem virðist ríkja hjá núverandi meiri hluta Alþingis bæði á vinnubrögðum og ekki síst bráðabirgðavaldinu og hlutverki Alþingis í því sambandi. Ég get ekki annað en farið hér nokkrum orðum um þann þátt þessa máls ekki síst vegna ummæla hv. 5. þm. Norðurl. v. þar sem hann var að afsaka það að sett skyldu hafa verið bráðabirgðalög um þetta mál.
    Í 1. umr. um bráðabirgðalögin kom mjög merkileg yfirlýsing fram í máli hæstv. forsrh. þar sem hann sagði að hann væri kominn á þá skoðun núna að það hefði verið rétt sumarið 1992 þegar bráðabirgðalögin voru sett vegna kjaradóms að kalla Alþingi saman. Menn verða að átta sig á því að bráðabirgðalög af þessu tagi, þar sem verið er að grípa inn í ýmsar aðgerðir eða jafnvel kjaradóma, geta komið í bakið á ríkisvaldinu. Við höfum nú þegar dæmi um það vegna bráðabirgðalaganna sem sett voru á kjarasamning BHMR á sínum tíma. Nú eru málaferli í gangi vegna kjaradómsins sem rift var af meiri hluta Alþingis með bráðabirgðalögum. Hér er enn eitt dæmið á ferðinni en ég veit reyndar ekki til þess að nokkur von sé á málaferlum vegna þess. En allt beinir þetta athyglinni að því hvernig farið er með þetta vald og hver er hin brýna nauðsyn.
    Ég ræddi þetta hér nokkuð í 1. umr. um málið en ég ætla að endurtaka sumt af því sem ég sagði þá. Að mínum dómi er hér um mál að ræða sem er einmitt gott dæmi um það að brýna nauðsyn bar ekki til heldur hefði verið eðlilegt að kalla Alþingi saman, ná samkomulagi um eins eða tveggja daga fund og afgreiða málið með þeim hætti. Sú aðferð er tíðkuð á Norðurlöndunum að kalla þingið saman þótt sumar sé til þess að ræða mikilvæg mál og okkur er ekkert að vanbúnaði. Okkur ber hreinlega skylda til þess að mæta hér ef þannig stendur á. Bráðabirgðalagavaldið --- það er Alþingi sem fer með löggjafarvaldið en stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að ríkisstjórnin geti gripið til slíkra neyðarlaga ,,ef brýna nauðsyn ber til`` eins og segir í 28. gr. stjórnarskrárinnar. Það er alkunnugt að árum saman hefur verið farið mjög frjálslega með þetta bráðabirgðalagavald. Þess vegna var það m.a. og kom fram í umræðunni um þingsköpin á sínum tíma, á vorþinginu 1991, að meiningin með þeim breytingum sem þá voru gerðar var m.a. sú að draga úr þessari notkun á bráðabirgðalagavaldinu. En því miður hefur þessi ríkisstjórn ekki notað tækifæri

til að kalla Alþingi saman og þar af leiðandi gengið að mínum skilningi of langt í notkun þessa valds. Í mínum huga er þetta hluti af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um það hvernig megi efla sjálfstæði Alþingis og gera þessa skiptingu milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds skýrari. Ég harma það að ríkisstjórnin skyldi setja bráðabirgðalög um málefni af þessu tagi sem ég held að í rauninni hefði nánast enginn ágreiningur orðið um.
    Þó ýmislegt megi gagnrýna í vinnubrögðum varðandi þau mál sem koma inn í þenna stutta bandorm sem hér er á ferð finnst mér að þingmenn þurfi virkilega að hugsa sig um og að þeir megi ekki gleyma því að þeir eru ekki vinnumenn hjá ríkisstjórninni heldur þingmenn sem kjörnir eru til þess að fara með löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið og að þeir eiga að standa á sínum rétti og standa á stjórnarskránni. Við eigum að hamla gegn því að valdinu sé beitt með þessum hætti.
    Ég ætla að fara nokkrum orðum um þau atriði sem fram koma í þessu frv. og hafa skýrst nokkuð í meðferð nefndarinnar. Þar víkur sögunni fyrst að milljarðinum margnefnda sem er nú nokkuð sérkennilegt mál þegar maður fer að skoða það hvaðan þessir peningar koma. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið, m.a. frá fulltrúum í fjárln., hvernig ríkisstjórnin og ráðuneytin taka að sér að skipta þessum peningum sem að öllu jöfnu er á verksviði fjárln. og Alþingis. Að vísu kemur í ljós þegar farið er að skoða þennan lista yfir framkvæmdir að þar er verið að færa býsna mikið á milli ára. Það vakti sérstaka athygli mína á þessum lista þar sem var að finna að því er mig minnir 130 millj. sem verja átti til Þjóðarbókhlöðunnar og mér þykir nú sérkennilegt ef ríkisstjórnin er að tíunda það framlag sem eitthvert sérstakt átak í atvinnumálum. Framlag sem innheimt er með sérstökum skatti og lá fyrir að mundi verða varið til framkvæmda við Þjóðarbókhlöðuna. Þannig er ákveðin sýndarmennska í uppsetningunni á þessu dæmi öllu saman. En það má ljóst vera þegar maður skoðar listann að þarna er um ýmis smáverkefni að ræða og auðvitað ber að fagna því að ýmsar stofnanir fá aukin framlög til viðgerða og viðhalds af ýmsu tagi. En því miður, ef rétt er frá sagt af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, þá virðist sem á næsta ári verði ekki staðið við fyrirheit þannig að ég get ekki tekið undir það sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði áðan að ríkisstjórnin hefði staðið ljúflega við sín fyrirheit. Mér sýnist nú engin sérstök ljúfmennska í frv. til fjárlaga.
    Það ber að geta þess varðandi tryggingagjaldið að á fundum efh.- og viðskn. kom fram gagnrýni af hálfu fulltrúa iðnrekenda varðandi það atriði að þarna væru útflutningsgreinarnar teknar út úr og þeir nefndu að það væri nær að grípa til aðgerða sem gagnast öllum greinum atvinnulífsins. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni er ljóst að þarna er um skammtímaaðgerð að ræða sem léttir á þessum fyrirtækjum en síðan er spurningin hvað gerist svo. Hvernig lítur málið út á næsta ári?
    Ég get ekki annað en farið nokkrum orðum um Hagræðingarsjóðinn og þau undarlegu vinnubrögð sem við höfum orðið vitni að. Það kemur auðvitað enn einu sinni að því hvernig farið er með valdið og að menn skuli standa í því að hindra frv. stjórnarandstöðunnar, en geta ekki horfst í augu við réttlátar og góðar tillögur og einfaldlega samþykkt þær. Nei, það er ekki hægt. En svo taka menn sömu tillögur og samþykkja þær í bráðabirgðalögum nokkrum vikum síðar. Þetta minnir mann reyndar mjög á vinnubrögð íhaldsins hér í Reykjavíkurborg sem iðkar þetta mjög að fella tillögur en taka þær svo upp nokkrum vikum síðar. En skýringin er nú m.a. sú að hér er um að ræða eitt af trúaratriðunum í stefnu ríkisstjórnarinnar, frjálshyggjutrúarbrögðunum sem Alþfl. hefur skrifað upp á að miklu leyti. Þetta er hluti af frjálshyggjunni og einkavæðingunni, að koma á þjónustugjöldum og að selja allt sem hægt er að selja. ( GÁ: Og gefa.) Já, ég tala nú ekki um að gefa. ( Umhvrh.: Þið eruð ekki sjálf að gefa samkvæmt ykkar eigin stefnuskrá?) Ég ætla nú ekki að fara út í þá umræðu í bili, það er með allt öðrum hætti eins og hæstv. umhvrh. veit.
    Það sem ég ætlaði reyndar að koma að hér er það að við horfum upp á það í hverju dæminu á fætur öðru að ríkisstjórnin gefst upp á þessari stefnu sinni. Hún gefst upp á nánast öllu sem hún hefur ætlað sér í einkavæðingu og jafnvel í þjónustugjöldum . . .  ( Umhvrh.: Treystir sér ekki . . .  ) ( VE: Ertu að fagna því?) Mætti ég biðja hæstv. forseta að þagga niður í umhvrh.? ( Forseti: Ég vil taka undir með hv. þm. í ræðustól og biðja hæstv. ráðherra að gæta tungu sinnar. ( StG: Settu hann bara á mælendaskrá.) Já það er auðvitað ekki annað en eðlilegt að hæstv. umhvrh., sem áður átti sæti í sjútvn. og þekkir vel til þessara mála og hefur á þeim miklar og sterkar skoðanir að hann komi hér í ræðustól og skýri sín sjónarmið varðandi Hagræðingarsjóðinn því að ég veit ekki betur en hann hafi staðið í því að stöðva þessi frv. stjórnarandstöðunnar. En varðandi Hagræðingarsjóðinn þá get ég að vissu leyti tekið undir að eitt er stefnumörkun til frambúðar í stjórn fiskveiða og annað eru þau miklu áföll sem sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir og það hvernig þeim skuli mætt, hvað getur sjávarútvegurinn tekið á sig og það varðar bæði sölu á þessum veiðiheimildum og svokölluð veiðileyfagjöld sem vissulega eru athyglisverðar hugmyndir. En staða sjávarútvegsins er einfaldlega með því móti að hann getur ekki tekið slíkt á sig, getur ekki keypt þessar heimildir, þ.e. þeir sem verst standa og ættu að njóta þessa sjóðs fyrst og fremst, og ekki síst það hvert form skattlagningar við erum að ræða um á sjávarútveginn því að veiðileyfagjald er auðvitað ekkert annað en eitt form skattlagningar. Menn hafa verið að reyna að létta sköttum af atvinnulífinu en ekki að setja þá á og slíkar umræður um framtíðarstefnumótun eru auðvitað mjög erfiðar þegar jafnilla árar og nú. Og þó menn bendi á að það séu miklar tilfærslur á kvóta á milli skipa og milli landshluta og fyrirtækja þá er ekki þar með sagt að þessi fyrirtæki hafi laust fé til kaupa á kvótum. Það eru nú alls konar tilfærslur og geymslur sem viðgangast í því kerfi.
    En það var eitt atriði sem ég gleymdi hér áðan þegar ég var að ræða um milljarðinn og finnst að

ég verði að minna á enn einu sinni og það varðar meiri hluta alþingismanna og stjórnarskrána. En það er það sem kemur fram í 41. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir:
    ,,Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``
    Ég verð að segja að ég hef ekki fengið svör við því hversu miklu er búið að verja af þessum milljarði sem lofað var, hversu miklu fé hefur verið varið í heimildarleysi. Nú veit ég að sjálfsögðu að í rauninni hafa menn þverbrotið stjórnarskrána árum ef ekki áratugum saman hvað þetta varðar. En ef menn vilja ná fastari tökum á fjárlögunum og tryggja vald Alþingis yfir fjárveitingum þá er auðvitað meginatriði að það sé staðið við 41. gr. stjórnarskrárinnar og að við tökum fastara á þessum málum og líðum það ekki að ríkisstjórnir fari langt fram úr fjárlögum og langt fram úr veittum heimildum. Mér finnst þetta vera grundvallaratriði sem við þurfum að taka á og er eitt af mörgu sem við þurfum að bæta í okkar stjórnkerfi.