Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 12:07:01 (1226)

[12:07]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er afar sérkennilegt hvernig málin bera hér að. Ég vek athygli á því að hæstv. forsrh. hefur ekki kosið að svara hér því sem til hans var beint og svör hæstv. sjútvrh., sem ég er að gera athugasemdir við, þau voru afar sérkennileg. Í raun og veru viðurkenndi hæstv. sjútvrh. algjörlega að staða

málsins væri sú að það væri óþolandi og ekki við hæfi að það dragist lengur að lögunum um Hagræðingarsjóð væri breytt þannig að unnt væri að úthluta veiðiheimildum án endurgjalds og til jöfnunar eins og algjör samstaða er um, að því er virðist, og allra flokka menn styðja á Alþingi. En af einhverjum ástæðum telur ríkisstjórnin að það sé betra að gera það jafnvel með því að flytja eftir fáeina daga frv. um sömu efnisatriði og stjórnarliðið væntanlega ætlar sér að fella núna á eftir. Ég spyr bara: Hvers konar skrípaleikur er þetta? Þetta gengur auðvitað ekki. Það fer hér fram á eftir efnisafgreiðsla um þetta mál í formi atkvæðagreiðslu um brtt. okkar. Ef menn eru sammála innihaldinu geta menn þá af einhverjum ástæðum sem standast skoðun farið að leggjast gegn því að þetta sé lögtekið nú? ( Gripið fram í: Það er óheimilt að taka það á dagskrá.) Að sjálfsögðu er óheimilt að taka óbreytt ákvæðin upp aftur og ég skil ekki hvernig hv. stjórnarliðar ætla í raun og veru að útskýra það að þeir leggist gegn efnisafgreiðslu á málinu núna þegar meira að segja liggur fyrir að hæstv. sjútvrh. viðurkennir að það sé ekki við hæfi að lengri dráttur verði á því að lögin um Hagræðingarsjóð séu framkvæmd eins og þau gilda á hverjum tíma. Ég ítreka svo spurningu mína: Hefur hæstv. ríkisstjórn beint formlegum tilmælum til stjórnar Hagræðingarsjóðs um að framkvæma ekki lögin eins og þau eru í gildi? Er það á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að lögin eru brotin eða er þar eingöngu við stjórn Hagræðingarsjóðs að sakast? Ég óska eftir skýrum svörum um það hvort bein tilmæli hafa farið frá ríkisstjórn í þessu sambandi.