Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 12:10:27 (1228)

[12:10]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú flækjast málin. Nú erum við komin út í það að hæstv. sjútvrh. byggir hér á þeirri lagatúlkun að enn sem komið er sé ekki rétt að líta svo á að lögin um Hagræðingarsjóð hafi verið brotin. Það er að segja, af því að einungis eru liðnir tveir mánuðir og 10 dagar af fiskveiðiárinu, þá sé enn sem komið er ekki um lögbrot að ræða. En greinilegt er og liggur í orðum sjútvrh. að það verður það innan skamms. Og spurningin er sú: Hvenær? Er það núna 12. nóv., 16., 27. eða verður það kannski 1. des., á fullveldisdaginn, sem komið væri yfir línuna og þar með væri orðið um lögbrot að ræða? Hæstv. sjútvrh. og hv. þingmenn hljóta að átta sig á því í hvílíkar ógöngur menn eru hér komnir eða þarf að rifja aftur upp hvernig 6. gr. laga um Hagræðingarsjóð byrjar. Með leyfi forseta, er það svona:
    ,,Hagræðingarsjóður skal við upphaf hvers fiskveiðiárs . . . ``
    Hvað er við upphaf samkvæmt málvenju? Við upphaf einhvers? Er það tveimur og hálfum mánuði síðar? Ég held ekki. Ég er hræddur um að hæstv. sjútvrh., sem mun vera löglærður maður, sé kominn í nokkra skógarferð í sínum lögskýringum þegar hann vill meina að við upphaf sé svo teygjanlegt hugtak að það geti jafnvel dregist um tvo og hálfan mánuð af tólf, því að árið er nú ekki nema tólf mánuðir. Ég held því að þessi orðaskipti sýni betur en nokkuð annað í hvílíkar ógöngur menn eru hér komnir.
    Það kom hér fram, og ég þakka þó fyrir það, að það er á ábyrgð hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórnar að stjórn Hagræðingarsjóðs framkvæmir ekki gildandi lög um málefni sjóðsins, því hæstv. sjútvrh. lýsti því hér yfir að hann hefði, reyndar kaus hann að orða það svo, lýst þeirri skoðun sinni við stjórn sjóðsins að rétt væri að hún dokaði við. Ég held að þetta hafi verið afar kurteisisleg og hógvær aðferð til þess að reyna að segja að ríkisstjórnin hafi fyrirskipað stjórninni að brjóta lögin.