Tilkynning um dagskrá

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 12:21:47 (1236)

[12:20]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að fyrir hv. allshn. liggur frv. sem ég flyt ásamt öðrum þingmönnum Alþb. um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála þar sem gert er ráð fyrir því að saksóknari verði ráðinn með tilteknum hætti til takmarkaðs tíma, eða fjögurra ára í senn. Fyrir þinginu liggur síðan órætt frv. til laga um breytingu á lögum um Hæstarétt Íslands þar sem gert er ráð fyrir því að Alþingi þurfi að staðfesta þá tillögu sem dómsmrh. á hverjum tíma kann að gera til forseta Íslands um skipun og ráðningu hæstaréttardómara. Ég hefði talið að það hefði verið heppilegt og eðlilegt að þessi mál hefðu öll verið hér til umræðu á sama fundi og geri þá athugasemd við fundarstjórn forseta, hæstv. forseti. Ef það er hins vegar talið óhjákvæmilegt að þessi mál verði tekin til umræðu núna þá hefði ég óskað eftir því að henni yrði ekki að fullu lokið í dag, heldur yrði þá unnt að afgreiða málin í lotu þegar þar að kemur, þ.e. þá væntanlega eftir helgina, þó ég sé út af fyrir sig tilbúinn til þess að fallast á að það frv. um Hæstarétt sem ég flyt hér ásamt öðrum þingmönnum Alþb. yrði tekið fyrir núna inn á þessa dagskrá með afbrigðum. Það er auðvitað hægt að gera það, hæstv. forseti.